Hádegismatur fyrir hálfan bæinn og malaður ís úr vél sem selst eins og enginn sé morgundagurinn. Sú er staðan hjá Petrínu Helgadóttur á Patreksfirði sem á dögunum tók við rekstri söluskálans þar í bæ. „Þetta var óvænt tækifæri sem bauðst. N1 var víst að leita að einhverjum til að reka afgreiðslu sína hér og svo þurfti að sjá um mötuneyti skólanna. Bæjarstjórinn hringdi í mig og spurði hvort ég vildi taka þetta tvennt, sem ég gerði eftir nokkra umhugsun,“ segir Petrína.
Sjoppan Patró ehf. heitir fyrirtækið formlega á pappírum. 10-14 manns starfa við reksturinn undir stjórn Petrínu sem í áraraðir var afgreiðslustjóri Eimskips í Vesturbyggð.
„Ég lét breyta ýmsu hér í búðinni, setti upp nýjar innréttingar og fleira slíkt, þegar ég tók við. Svo erum við líka hér núna með mjólk, brauð og slíkt svo að fólk hér getur bjargað sér með nauðsynjar. Einnig pitsur, hamborgara og samlokur sem við smyrjum sjálf,“ segir athafnakonan sem er eins konar matmóðir Patreksfjarðar.
„Í skólunum hér eru nærri 200 börn og þau fá hádegismat frá okkur. Skammturinn er eldaður í sjoppunni og svo fluttur í hitabökkum í skólana. Á sunnudaginn var hér hlaðborð af jólabakstri og heitt kakó með. Jólalög í útvarpinu. Þetta gerist ekki betra,“ sagði Petrína.