Jólin eru handan við hornið og vert að njóta þess sem þeim fylgir. Eins og lesendur matarvefsins þekkja er Guðrún Erla Guðjónsdóttir bakari og konditor iðin við að þróa uppskriftir að dýrðlegum kræsingum þar sem súkkulaði fær að njóta sín með yfirbragði jólanna.
Það þekkja allir After Eight konfektmolana góðu sem eru ómissandi um jólin. Guðrún heldur mikið upp á þessa mola og gerði þessar gómsætu jólasmákökur sem eiga vel við með jólakaffinu. Þetta eru After Eight jólasmákökur sem eru einfaldar í undirbúningi og eiga eftir að slá í gegn í jólaboðum.
Guðrún Erla Guðjónsdóttir segir að sín uppáhaldsjólahefð sem jólabaksturinn.
mbl.is/Karítas
Uppáhaldsjólahefðin er jólabakstur
Guðrún lærði bakarann á Íslandi og kláraði síðan konditornámið sitt í Danmörku síðastliðið haust. Guðrún er afar ástríðufull og elskar að skapa fínlega og fallega rétti og kökur. Uppáhaldsjólahefðin hennar er að sjálfsögðu jólabaksturinn.
„Það er hefð heima hjá mér að mamma búi alltaf til After Eight-ís í eftirrétt fyrir aðfangadagskvöld. Þar sem After Eight hefur lengi verið órjúfanlegur hluti af jólunum hjá mér, langaði mig að skapa mínar eigin uppskriftir með súkkulaðinu,“ segir Guðrún með bros á vör.
Augnakonfekt að njóta, unaður að borða.
mbl.is/Karítas
After Eight jólasmákökur
Smákökudeigið
- 1 ½ bolli hveiti
- ½ bolli kakó
- ½ tsk. salt
- ½ tsk. lyftiduft
- 168 g smjör
- ¾ púðursykur
- ¼ bolli sykur
- 2 eggjarauður
- 1 tsk. vanillusykur
Ganache miðja
- 200 g After Eight
- 20 g rjómi
Aðferð:
- Þeytið smjör og sykur saman þar til blandan verður létt og ljós.
- Bætið einni eggjarauðu út í einu og hrærið.
- Sigtið þurrefnin saman og blandið þeim varlega við þar til deigið er rétt svo komið saman.
- Mótið kúlur úr deiginu, leggið á bökunarplötu og fletjið örlítið út til að mynda smákökuform.
- Pressið ofan í miðjuna á hverri köku til þess að mynda holu fyrir ganacheið. Það er gott til dæmis að nota mæliskeið til þess.
- Bakið við 180°C í 8 mínútur og látið kökurnar kólna alveg.
- Til að útbúa ganache-ið er rjóminn hitaður við vægan hita þar til hann byrjar að freyða.
- Þá er After Eight-súkkulaðinu bætt út í og hrært vel saman þar til blandan er silkimjúk.
- Leyfið ganachinu að kólna alveg.
- Hellið ganache í miðjuna þegar kökurnar hafa kólnað og skreytið að eigin vali.
- Leyfið ganachinu að setja sig áður en þið njótið.
- Berið fram og njótið við kertaljós og kósíheit.