Eggnog jólalegasti kokteillinn í ár

Barþjóninn Leó Snæfeld ætlar að galdra fram jólalegasta kokteilinn í …
Barþjóninn Leó Snæfeld ætlar að galdra fram jólalegasta kokteilinn í ár sem á sér langa sögu og nýtur mikilla vinsælda í stórborginni Lundúnum á þessum árstíma. Morgunblaðið/Eggert

Leó Snæfeld er snillingur í kokteilagerð og einn okkar þekktasti barþjónn. Hann ætlar að galdra fram jólalegasta kokteilinn í ár sem á sér svo sannarlega sögu. Þetta er kokteillinn Eggnog og Leó er búinn að gera hann að sínum.

Leó hefur unnið í veitingabransanum í ellefu ár. Tvö af þeim árum bjó hann í Lundúnum.

„Þar vann ég fyrir staðinn Untitled, sem árið 2018 var 72. besti bar í heiminum samkvæmt alþjóðalista Top 50 Best Bars. Eftir dvöl mína í Lundúnum fór ég að vinna fyrir Þráin Frey Vigfússon á Sumac og seinna meir opnaði ég staðinn Amma Don með honum samhliða Michelin-stjörnustaðnum ÓX á Laugavegi 55. Núna er hægt að finna mig á kokteilbarnum Jungle aðra hverja helgi meðan ég klára Háskólabrú Keilis,“ segir Leó brosandi.

Leó elskar að gleðja aðra með ljúffengum drykkjum. Honum líður …
Leó elskar að gleðja aðra með ljúffengum drykkjum. Honum líður vel bak við barinn og nýtur þess að vera flippaður og hafa gaman. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Elskar að finna nýjar og ólíkar jólahefðir

Leó er einn þeirra sem halda ekki fast í jólahefðir og hefur gaman af því að breyta þeim og prófa nýja hluti.

„Mínar jólahefðir breytast frá ári til árs; mér finnst leiðinlegt að gera alltaf sama hlutinn. Ég reyni flest ár þó að fá mér skötu á Þorláksmessu, eiginlega það eina sem hefur fest sig í sessi hjá mér,“ segir Leó og hlær.

„Ég set yfirleitt bara upp eitthvert skemmtilegt þema fyrir jólin. Annars er fólk í kringum mig í jólaskapi alla leið og jólagleðin ávallt í fyrirrúmi. Jólaljósin eru komin upp allt of snemma og fólk farið að raula jólalög yfirleitt beint eftir hrekkjavöku. Ég fussa og sveia yfir þeim en í laumi finnst mér þetta alveg næs,“ segir Leó lævíslega.

Hvað hefðir varðar er Leó frekar flippaður. „Ég elska að finna nýjar og ólíkar hefðir, byrjaði fyrir sjö árum að flippa aðeins með þetta. Ég hef verið með skosk jól, Havaí-jól og vegan jól svo fátt sé nefnt. Eitt árið ákvað ég þó að prufa að gera hamborgarhrygg, sem entist mér í nánast heila viku eftir á. Þetta er bara svo mikill matur, yfirgengilegt. Eina sem mér finnst ómissandi á aðfangadagskvöld er góður félagsskapur, annað þarf ég ekki.“

Þarf meira sviðsljós

Þegar kemur að því að fá Leó til að svipta hulunni af jólakokteilnum í ár er hann fljótur að bregðast við.

„Ég ætla svo sannarlega að útbúa alvörujólakokteil, flestir verða nú aðeins skemmtilegri þegar þeir eru komnir smá í glas svo vert er að bjóða upp á gleði í glasi. Það sem ég ætla að bjóða upp á er mín útgáfa af Eggnog, en það er drykkur sem mér finnst ekki hafa fengið nógu mikið sviðsljós hér á landi,“ segir Leó og segist vona að úr því verði bætt og landsmenn læri að meta þennan góða drykk. Drykkurinn eigi sína sögu og honum þyki ákaflega vænt um hann.

„Ein jólin þegar ég var í Lundúnum tók ég aukavakt á The Bar With No Name. Allir gestir sem komu fengu þeirra útgáfu af Eggnog sem eins konar „welcome“-drykk. Hann innihélt romm og cider brandy. Það voru allir svo glaðir að fá Eggnog í hendurnar komandi inn úr kuldanum. Þetta er uppskrift sem ég gerði ein jólin á Sumac fyrir þá gesti sem settust á barinn hjá mér til að hlýja þeim með brosi og næs drykk,“ segir Leó.

Hætti að drekka fyrir fimm árum

Þótt Leó sé iðinn við að bjóða öðrum upp á áfenga drykki segist hann sjálfur ekki smakka áfengi lengur og vill hvetja alla til að fara varlega með áfengi. „Mér finnst mikilvægt að við höfum það huggulegt um jólin saman með hóflegri drykkju. Ég sjálfur hætti að drekka fyrir um fimm árum því ég sá að ég gat ekki stjórnað sjálfum mér í glasi og sé ekki eftir að hafa hætt. Ef eitthvað er þá hefur það gert mig betri í þessu fagi. Ef fólk á í vanda með drykkju, þá mæli ég eindregið með að kynna sér SÁÁ og AA,“ segir Leó og óskar öllum ástar og friðar um hátíðirnar.

Leó gerði sinn eigin Eggnog ein jólin á Sumac fyrir …
Leó gerði sinn eigin Eggnog ein jólin á Sumac fyrir þá gesti sem settust á barinn hjá honum til að hlýja þeim með brosi og næs drykk. Það yljar að fá drykk í svona fallegum bolla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eggnog að hætti Leós

Fyrir 2-4

  • 80 g sykur
  • 60 ml Anejo tequila
  • 75 ml Amontillado-sérrí
  • 180 ml nýmjólk
  • 120 ml rjómi
  • 2 egg

Aðferð:

  1. Notið blandara á lágri stillingu til að blanda eggin.
  2. Bætið sykrinum í blandarann.
  3. Bætið síðan við tequila, sérríi, mjólk og rjóma. Blandið þetta allt saman vel.
  4. Setjið blönduna í kælinn og geymið þar yfir nótt.
  5. Vert er að taka það fram að það er hægt er að gera þennan drykk vegan með því að sleppa eggjunum og nota haframjólk og kókosrjóma í stað nýmjólkur og rjóma.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka