Ómissandi að gera snjóbolta fyrir jólakaffið

Natasja Keincke konditor hjá Bakarameistaranum sem sigraði keppnina um Brauð …
Natasja Keincke konditor hjá Bakarameistaranum sem sigraði keppnina um Brauð ársins 2025 töfraði fram þessa guðdómlegu snjóbolta og appelsínuspesíur mbl.is/Karítas

Natasja Keincke konditor hjá Bakarameistaranum kom, sá og sigraði keppnina um Brauð ársins 2025 fyrr í vetur. Hún hefur verið að gera flotta hluti í bakaríinu og blómstrar sem aldrei fyrr. Hún kemur frá Danmörku og er aðeins 24 ára gömul og hefur starfað hjá Bakarameistaranum í eitt ár.

Hún hefur mikla ástríðu fyrir faginu og elskar fátt meira en að baka fyrir hátíðirnar. Henni finnst ómissandi að baka appelsínuspesíur og gera snjóbolta sem eru konfektmolar fyrir hátíðirnar. Hún gefur lesendum Matarvefs mbl.is uppskriftir að þessum uppáhaldsbaksturmolum sínum.

Natasja Keincke konditor hjá Bakarameistaranum kom, sá og sigraði keppnina …
Natasja Keincke konditor hjá Bakarameistaranum kom, sá og sigraði keppnina um Brauð ársins 2025 fyrr í vetur. Hún gefur lesendum uppskriftir fyrir hátíðirnar. mbl.is/Karítas

Langað að vera konditori frá fimm ára aldri

Starfið er henni hugleikið og hún segir að það hafi strax verið skrifað í skýin hvað hana langaði til að gera þegar hún yrði stór.

„Að verða konditor hefur verið draumurinn minn síðan ég var fimm ára gömul. Námið gekk mjög vel, sérstaklega út af því að ég byrjaði námið sem bakari og skipti síðan yfir í konditor 2 árum síðar þannig ég hef mjög góðan grunn í brauðbakstri. Það hjálpaði mér til að mynda í keppninni um Brauð ársins,“ segir Natasja og brosir.

Natasja hreif dómnefndina upp úr skónum með brauðinu sínu sem er sælkerabrauð með osti og jalapeno en undirrituð sat meðal annars í dómnefndinni og fékk þann heiður að smakka öll þessi dýrðlegu brauð sem bárust í keppnina.

„Sælkerabrauðið mitt er mjúkt að innan með æðislegum cheddar-osti og spæsí jalapeno, með góða skorpu. Ég fékk hugmyndina að brauðinu frá kærasta mínum sem notar brauð mikið við eldamennskuna. Þetta brauð er fullkomið til að gera grillaða samloku með tómatsúpu.“

Hvernig sérðu fyrir þér framtíðina í bakstrinum?

„Ég sé fyrir mér marga nýja og spennandi hluti sem hægt er að vinna með og þróa. Það var mikil hvatning að fá þessi verðlaun fyrir Brauð ársins og hefur gefið mér innblástur til að gera meira.“

Jólabaksturinn mikilvægustu samverustundirnar

Þessa dagana hefur þó jólabaksturinn verið í forgrunni og aðspurð segir Natasja að siðirnir í Danmörku séu líkir og hér heima. „Við gerum að mestu leyti sömu smákökurnar og þið á Íslandi en það er smávegis mismunur á hvaða hráefni sem notað er í baksturinn.

Smákökubaksturinn er sterk og rík hefð hjá fjölskyldu Nötösju. „Það er einn af mikilvægustu dögum okkar. Við komum öll saman og eigum góðar samverustundir við jólabaksturinn. Þetta eru góðar stundir með fjölskyldu og vinum og ómetanlegt að halda í þær. Ég er þó ávallt opinn fyrir að hafa margar mismunandi hefðir svo lengi sem við getum komið þeim saman fyrir þennan árstíma.

Þegar kemur að jólabakstrinum finnst mér ómissandi að baka danskar smákökur sem bera heitið „brunkager“ eða brúnkökur og gera konfektmola sem eru kallaðar „snebolde“ eða snjóbolti. Appelsínuspesíurnar eru líka ómissandi með jólakaffinu. Það eru uppskriftirnar sem mig langar að deila með lesendum í tilefni jólanna,“ segir Natasja að lokum með bros á vör.

Augnakonfekt að sjá þessar kræsingar sem eiga vel bæði um …
Augnakonfekt að sjá þessar kræsingar sem eiga vel bæði um jól og áramót. mbl.is/Karítas

Snjóboltar

  • 20 stk.
  • 200 g marsípan
  • 300 g dökkt súkkulaði
  • 200 g flórsykur
  • 35 g eggjahvítur
  • 150 g sykur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að vigta marsípan í 10 g stykki og rúllið í bolta.
  2. Setjið pappírinn síðan til hliðar og byrjið að bræða súkkulaði.
  3. Dýfið síðan marsípanboltunum ofan í brædda súkkulaðið og setjið á smjörpappír.
  4. Hægt er að setja inn á kæli ef það tekur langan tíma að láta súkkulaðið harðna.
  5. Á meðan súkkulaði er að harðan getið byrjað á royal-glassúrnum.
  6. Þið takið til flórsykur og eggjahvítur og blandið saman þangað til að blandan er komin vel saman.
  7. Setjið síðan sykur í skál og hafið hliðina á glassúrnum.
  8. Þegar súkkulaði hefur harnað setjið þið smá glassúr í lófann og rúllið súkkulaðistykkinu í höndunum og síðan rúllið þið því í sykri.
  9. Loks er vert að láta snjóboltana standa í að minnsta kosti 4 klukkutíma áður en hægt er að bera þá fram.
Gullfallegir og jólalegir snjóboltar sem gleðja bragðlaukana.
Gullfallegir og jólalegir snjóboltar sem gleðja bragðlaukana. mbl.is/Karítas

Appelsínuspesíur

  • 260 g hveiti
  • 110 g flórsykur
  • 225 g smjör
  • 25 g egg
  • Rifinn appelsínubörkur af heilli appelsínu

Fyrir skraut

  • 200 g dökkt súkkulaði
  • 25 g sykraður appelsínubörkur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að blanda öllu hráefninu saman í eina skál þangað til að deigið er komið vel saman.
  2. Mótið deig í kassa og setjið það inni í ísskáp í 30 mínútur.
  3. Takið deigið út og setjið hveiti á borðið.
  4. Rúllið deigi niður í um það bil 3 mm þykkt.
  5. Notið útstingara og skerið deigið út og setjið á plötu með smjörpappír.
  6. Bakið kökur á 180°C hita í ofni í 7-10 mínútur eða þangað til þær eru gullinbrúnar.
  7. Á meðan smákökurnar kólna getið þið brætt súkkulaði og skorið sykraða appelsínubörkinn niður í smá stykki.
  8. Þegar smákökur hafa kólnað, dýfið helmingnum af hverri smáköku í súkkulaðið og setjið hana aftur á smjörpappír.
  9. Áður en súkkulaði harðnar er mikilvægt að skreyta smákökuna með sykruðum appelsínuberkinum.
  10. Berið fram og njótið með ykkar nánustu með jólakaffinu.
Þessar appelsínuspesíur eru upplifun að njóta fyrir bragðlaukana og svo …
Þessar appelsínuspesíur eru upplifun að njóta fyrir bragðlaukana og svo eru þær líka svo fallegar. mbl.is/Karítas

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert