Lauga-Ás feðgarnir, Ragnar Guðmundsson og Guðmundur Ragnarsson, hafa verið með Skötuveislu síðustu þrjátíu árin, allt þar tilársins 2022 þegar Lauga-Ási var lokað. Þeir eru þó hvergi nærri hættir og ætla að taka þátt í að bjóða upp á skötuveislu í ár.
Þeir hafa sameinast Friðgeiri Inga Eiríkssyni matreiðslumeistara hjá Grósku og munu bjóða upp á alvöru Lauga-Ás-po á Þorláksmessu, á morgun, mánudag.
„Það verður því boðið upp á skötuveislu í þessu glæsilega umhverfi sem Eiríksdóttir Gróska er og við bjóðum alla okkar gömlu, góðu viðskiptavini velkomna að taka þátt í þessari veislugleði og hlökkum til að sjá sem flesta,“ segja þeir Guðmundur og Ragnar fullir tilhlökkunar.
„Þegar líða tók að jólum þá tókum við skyndilega upp á því að vera með Lauga-Ás -pop up skötuveislu með sama sniði og við gerðum alltaf í Lauga-Ási. Okkur langar gjarnan að koma til móts við okkar gömlu viðskiptavini og halda í hefðina og líka að fá til okkar nýja.“
Er þetta í fyrsta skipti sem þið sameinist um að halda slíka veislu?
„Já, við opnuðum veitingastaðinn EIRIKSDOTTIR í Grósku í apríl á þessu ári sem er senn að líða,“ segir Friðgeir.
Ert þú vanur að vera með skötu á þessum degi?
„EIRIKSSON brasserie hefur alltaf boðið upp á skötuveislu í hádeginu og Ragnar og Guðmundur hafa eldað skötu frá þeir muna eftir sér,“ segir Friðgeir sem er orðinn mjög spenntur fyrir gleðinni.
Finnst ykkur ómissandi að borða skötu?
„Já, algörlega ómissandi að smakka skötuna því þá veit maður að það er að koma jól, þetta er sannkallaður skötudagur,“ segir Guðmundur með bros á vör.
Hvað er það sem heillar ykkur við skötuna?
„Það er aðeins boðið upp á skötu einu sinni á ári, á Þorláksmessu þar sem allir eru í jólastemningu og jólaandinn í hámarki. Á Laugaás hittum við sama fólkið ár eftir ár og verðum gaman að upplifa það á ný,“ segja feðgarnir Guðmundur og Ragnar glaðir í bragði.
Finnst ykkur skatan njóta jafn mikillar hylli og áður?
„Tvímælalaust og verður hún jafnvel vinsælli með árunum og fólk kemst í jólagírinn eftir skötulyktina,“ segir Guðmundur og bætir við að það verði líka hægt að fá saltfisk, pítsur og salöt fyrir vandláta.