Meiri hollusta og minni útblástur hjá notendum Krónuappsins

Heiðdís Inga Hilmarsdóttir, verkefnisstjóri sjálfbærnimála Krónunnar segir að Heillakarfan er …
Heiðdís Inga Hilmarsdóttir, verkefnisstjóri sjálfbærnimála Krónunnar segir að Heillakarfan er ákveðið tilraunaverkefni sem þau vilji þróa áfram með viðskiptavinum sínum. Samsett mynd

Notendur Krónuappsins keyptu meira af heilnæmum matvælum þegar þróun innkaupa yfir árið 2024 er skoðuð samanborið við fyrra ár. Í samantekt ársins yfir alla notendur Heillakörfunnar í Krónuappinu má sjá að þeir juku neyslu á ávöxtum og grænmeti og sama þróun var í kaupum á lífrænum vörum að því er fram kemur í tilkynningu frá Krónunni.

Þetta sést einnig í nýútgefnu ársyfirliti Heillakörfunnar, að viðskiptavinir hafi komið í veg fyrir losun 15 tonna af koltvíoxíði með því að mæta sjálfir með poka í búðina. Þótt þetta sé yfirlit yfir alla notendur Heillakörfunnar í gegnum Krónuappið getur hver og einn notandi séð hvernig innkaup hans hafa þróast með tilliti til hollustu og sjálfbærni.

Notendur safna stigum

Á liðnu ári kynnti Krónan til leiks nýjung í Krónuappinu, Heillakörfuna, sem hefur það að markmiði að hvetja til jákvæðra venja í daglegum innkaupum viðskiptavina. Fyrir Heillakörfuna hlaut Krónan einnig Hvatningarverðlaun Creditinfo og Festu fyrir framúrskarandi framtak í nýsköpun á sviði sjálfbærni.

Í Heillakörfunni geta viðskiptavinir safnað stigum út frá sínum kaupum en hægt er að setja sér mánaðarleg markmið og fylgjast með árangrinum þegar líður á mánuðinn. Vörurnar sem gefa stig koma úr ákveðnum flokkum sem valdir eru út frá heildrænni sýn þar sem horft er til þátta á borð við lýðheilsu og hollustu, umhverfi, endurnýtingu, umbúðir, lífrænar merkingar og sjálfbærnivottanir.

Svona lítur skjámynd appsins út.
Svona lítur skjámynd appsins út. Ljósmynd/Aðsend

Sem dæmi hafa viðskiptavinir fengið alls 375 þúsund stig fyrir að muna eftir pokum við innkaupin árið 2024. Rannsóknir hafa sýnt að framleiðsla á pappapoka feli í sér í kringum 40 grömm af koltvíoxíði. Má því áætla að með því að muna eftir poka hafi viðskiptavinir Krónunnar komið í veg fyrir að rúmlega 15 tonnum af koltvíoxíði hafi verið sleppt út í andrúmsloftið.

Árið þitt í Heillakörfunni

Nú geta allir notendur Krónuappsins skoðað sitt ársyfirlitið sem gerir þeim kleift að sjá hvernig þeir hafa staðið sig yfir árið, hvort markmiðum hafi verið náð, hverjar séu þeirra vinsælustu vörur og hvaða vöruflokkar séu í uppáhaldi. Með ársyfirlitinu fá viðskiptavinir betri yfirsýn og geta séð jákvæð áhrif ákvarðana þeirra á umhverfið.

„Heillakarfan er ákveðið tilraunaverkefni sem við viljum þróa áfram með viðskiptavinum okkar. Í gegnum Heillakörfuna höfum við skapað nýja mælikvarða sem er bæði áhugavert og gagnlegt fyrir okkur að skoða. Við sjáum til dæmis losun sem komið er í veg fyrir með því einu að muna eftir poka, aukningu í sölu á lífrænum vörum og ávöxtum og grænmeti. Um 40 þúsund viðskiptavinir koma í Krónuna á hverjum degi um allt land og því getur hver lítil ákvörðun haft mikil áhrif. Enginn getur gert allt, en allir geta gert eitthvað,” er haft eftir Heiðdísi Ingu Hilmarsdóttir, verkefnisstjóra sjálfbærnimála Krónunnar.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert