Hátíðarkvöldverður Klúbbs matreiðslumeistara verður haldinn 11. janúar næstkomandi og verður haldinn að þessu sinni í Hörpu. Það verður mikið um dýrðir og stjörnurnar munu skína skært í Hörpu þetta kvöld.
Viðburðurinn hefur verið haldinn árlega síðan árið 1988, fyrir utan tvö ár sem allir þekkja, þegar Covid-tímabilið geisaði. Viðburðurinn hefur frá upphafi verið fastur liður í skemmtanahaldi landans.
Hátíðarkvöldverðurinn er aðalfjáröflun Klúbbs matreiðslumeistara þar sem bestu matreiðslumenn landsins taka höndum saman og framreiða margréttan hátíðarmatseðil ásamt sérvöldum eðalvínum.
Allur ágóði kvöldsins rennur til starfsemi Klúbbs matreiðslumeistara, þannig verður klúbbnum kleift að efla matargerðarlist og styðja framgöngu klúbbfélaga bæði hér heima og erlendis með rekstri Kokkalandsliðsins og keppninnar um Kokk ársins. Næsta stóra mót Kokkalandsliðsins er heimsmeistaramót sem haldið verður í Lúxemborg 2026.
Þetta er einstakt tækifæri til þess að njóta kvöldverðar á heimsmælikvarða þar sem úrvalslið matreiðslumanna leika við hvern sinn fingur. Yfirmatreiðslumaður kvöldsins er Arnar Darri Bjarnason og hefst gleðin með fordrykk klukkan 18.00 í Hörpu. Mikið verður um stjörnufans þar sem samkvæmisklæðnaður er áskilinn, síðkjólar og smóking.
Eftirspurn hefur verið mikil og nú þegar er orðið uppselt kvöldverðinn. Miðaverð er 75.000 kr. og rennur allur ágóði kvöldsins til Kokkalandsliðsins.