Von er á þúsundum gesta á stærstu blótin sem haldin verða í ár og víða er orðið uppselt. Fyrstu stóru blótin eru komandi helgi en þau stærstu verða aðra helgi.
„Fólk er brjálað og heimtar sinn þorramat. Við erum því á fullu að setja í trog. Og svo tökum við forskot á sæluna með fyrstu blótunum um helgina. Það verður helvíti gaman að þessu,“ segir Jóhannes Stefánsson veitingamaður í Múlakaffi.
Enn er rúm vika í bóndadag og upphaf þorra en það kemur ekki í veg fyrir að landsmenn séu búnir að setja sig í stellingar. Hægt er að kaupa sér þorramat í bökkum og trogum og fyrstu stóru þorrablótin verða haldin um helgina.
Á laugardagskvöld verða minnst þrjú stór blót á vegum íþróttafélaga á höfuðborgarsvæðinu. KR-ingar halda þorrablót Vesturbæjar í íþróttahúsi sínu við Frostaskjól. Í Egilshöll halda Fjölnismenn Þorrablót Grafarvogs og í Breiðholti verður þorrablót ÍR. Jóhannes sér um veitingarnar á tveimur fyrrnefndu blótunum.
„Þetta verður risablót hjá Fjölni. Það er metmæting í ár, vel á annað þúsund gestir. Mér skilst að það sé svaka stemning í Grafarvogi. KR-ingar eru náttúrlega bara með sinn litla sal en það er uppselt þar og komast færri að en vilja,“ segir veitingamaðurinn.
Vertíðin fer svo á fullt um aðra helgi þegar þorrinn gengur í garð. Föstudagskvöldið 24. janúar verður Kópavogsblótið haldið í Kórnum og sama dag er Þorrablót Stjörnunnar. Daginn eftir verður Þorrablót Aftureldingar.
Kópavogsblótið hefur verið kynnt sem stærsta þorrablót landsins og þó víðar væri leitað. Það er ekki að ástæðulausu því fyrr í vikunni höfðu 2.400 miðar selst.
„Já, stóra bomban er fyrstu helgina í þorra. 2.400 manns, það er helvíti öflug keyrsla. Það þarf eitthvað af fólki til að setja í trogin þá,“ segir Jóhannes og skellihlær.
Hann kveðst reyndar vera orðinn öllu vanur eftir áratugastarf í skipulagningu og umsjón þorrablóta og annarra veislna. Það er því ekki að ástæðulausu að hann er kallaður Þorrakóngurinn í Múlakaffi og kynntur sem slíkur í auglýsingum fyrir þorrablót. Það virðist vera jafn mikilvægur gæðastimpill á blóti að Þorrakóngurinn sjái um veitingarnar og að frambærilegir skemmtikraftar haldi uppi fjörinu.
„Ég reyni að vera á flestum stöðum þar sem við sjáum um veislur. En gamalmennið nær samt ekki að hlaupa á milli alla daga og ná öllu. Til þess er ég með úrvalsfólk með mér sem hefur margt unnið með mér í tugi ára. Ég get vel treyst mínu aðalfólki fyrir þúsund til tólf hundruð manna veislu. Hins vegar get ég ekki neitað því að ég á mikið í þessu eftir að hafa staðið að skipulagningu með íþróttafélögum lengi. Ég held að það taki enginn þennan titil af mér, það er bara ekki hægt. Þeir skulu þá bara reyna það,“ segir og skellir upp úr.
Dagskráin heldur áfram og stærsta kvöldið verður væntanlega laugardagskvöldið 1. febrúar. Þá verður Þorrablót FH í Kaplakrika og Knattspyrnufélagið Fram stendur fyrir Þorrablóti 113. Þróttur og Ármann halda Þorrablót Laugardals og sama kvöld verður Þorrablót Víkings en þar er uppselt. Þá verður Þorrablót miðborgar og Hlíða einnig þetta kvöld en það er knattspyrnufélagið Valur sem sér um skipulagninguna. „Það verður metþátttaka hjá Fram og Víkingi og Valur stefnir í risablót. Þetta verða svaka læti,“ segir Jóhannes. Viku síðar, eða 8. febrúar, verður svo Þorrablót Hafnarfjarðar á Ásvöllum og Grindvíkingar blóta þorrann í Smáranum í Kópavogi.
Jóhannes segir að auk þessara stóru blóta íþróttafélaganna séu ótal önnur blót haldin. Þau séu minni í sniðum en teljist samt seint litlar veislur. Hann segir að flestir reikni núorðið með góðum skemmtunum á þessum árstíma. „Þetta er ótrúlega vinsæll tími fyrir fólk til að koma saman, svona í byrjun ársins í miðju skammdeginu. Hjá sumum er þetta fastur liður áður en liðið fer á skíði eða hleypur til Tene. Og þessi stóru blót eru náttúrlega eins og árshátíðir, þetta er gert það vel.“
Löng hefð fyrir þorraveislum í Múlakaffi
Þorrablót í þeirri mynd sem það þekkist í dag var fyrst haldið á veitingastaðnum Naustinu árið 1958. Stefán Ólafsson, sem stofnaði Múlakaffi árið 1962, hóf svo árið 1965 að bjóða upp á þorramat. Byggði Stefán verkun matvælanna á gömlum uppskriftum sem hann hafði fengið í arf með vestfirskum uppruna sínum, eins og segir á heimasíðu Múlakaffis. Jóhannes sonur hans tók við rekstri Múlakaffis þegar faðir hans lést árið 1989. Undirbúningur fyrir þorrablótin hefst jafnan snemma vetrar. Þá eru um tíu tonn lögð í súr.