Hollustubollur Simba sem börnin geta bakað

Hollustubollur Simba eru fullkomnar fyrir helgarbaksturinn. Dásamlegar nýbakaðar með smjöri …
Hollustubollur Simba eru fullkomnar fyrir helgarbaksturinn. Dásamlegar nýbakaðar með smjöri og osti. Samsett mynd

Um helgar er um að gera að njóta samverunnar saman í eldhúsinu og galdra fram kræsingar sem gleðja sálina. Upplagt er að skapa hefðir með börnunum og gefa sér tíma til baka og matreiða með þeim og leyfa þeim jafnvel að velja hvað skuli gera.

Þessar hollustubollur eru til að mynda fullkomnar fyrir helgarbaksturinn og gaman að leyfa börnunum að baka. Þetta eru brauðbollur Simba úr Lion King. Tímon og Púmba hafa kennt Simba vini sínum að ljón geti borðað margt annað en kjöt. Þegar konungur ljónanna býður til veislu gætir hann þess alltaf að bjóða upp á hollar brauðbollur sem allir kunna að meta og velur gott álegg, salat eða ávexti til bera fram með þeim. Hakuna Matata!

Uppskriftina er að finna í matreiðslubókinni sem ber heitið Stóra Disney-uppskriftabókin en þar er að finna vinsælustu Disney-uppskriftirnar. Bókin er bæði einföld og þægileg í notkun og hentar yngri kynslóðinni vel.

Hollustubollur Simba

  • 700 g spelt eða annað mjöl
  • 50 g fræblanda, t.d. hörfræ,
  • sesamfræ og sólblómafræ
  • 1 dl kókosmjöl, fínt
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 1 msk. salt
  • 1 msk. hunang
  • 100 g gulrætur, rifnar
  • 2 dl AB-mjólk, eða súrmjólk
  • 2 dl vatn, 37°C

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C.
  2. Blandið þurrefnunum saman í skál.
  3. Rífið gulræturnar og bætið þeim út í skálina.
  4. Hellið vökvanum út í og blandið varlega saman.
  5. Búið til bollur og raðið á pappírsklædda plötu.
  6. Bakið í 200°C í 25–30 mínútur eða þar til bollurnar eru gullnar og holhljóð heyrist þegar bankað er í botninn á þeim.
  7. Berið fram með því sem ykkur þykir gott.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert