Affogato með súkkulaði-krókantís og heimagerðu ískexi er eftirréttur sem allir kaffiunnendur eiga eftir að missa sig yfir. Uppskriftin kemur úr smiðju Valgerðar Grétu Gröndal uppskriftahöfundar, betur þekkt sem Valla, og er í sparilegri útgáfunni.
Þetta er ítalskur eftirréttur og líklega með þeim allra auðveldustu að sögn Völlu. Affogato þýðir „drekkt“ en ísnum er drekkt í vel sterkum espresso.
„Í þessari útgáfu, sem er aðeins sparilegri en aðrar, er uppistaðan heimagerður ís þar sem ég nota niðursoðna mjólk en með henni verður ísinn silkimjúkur og mjög auðvelt er að skafa hann í kúlur. Í honum er einnig ljúffengt mjólkur- og krókantsúkkulaði sem gerir hann algerlega ómótstæðilegan,“ segir Valla.
Heitt espresso og heimagert ískex
Punkturinn yfir i-ið hjá Völlu er síðan rjúkandi heitt espresso og heimagert ískex.
„Ég lagaði kaffið úr mínum allra uppáhalds baunum frá Rapunzel en það eru ekki margir sem vita af þessu kaffi sem mér finnst mikil synd. Fyrir krakkana er kaffinu auðvitað sleppt en ísinn er ljúffengur eins og hann kemur fyrir en auðvitað er skemmtilegt að skella smá íssósu með og auka ískex,“ segir Valla.
Affogato súkkulaði-krókantís með heimagerðu ískexi
- 1 dós niðursoðin mjólk (condensed milk, fæst í flestum búðum)
- 200 g mjólkursúkkulaði
- 100 g mjólkursúkkulaði með krókant
- 500 ml rjómi
- ¼ tsk. sjávarsalt
- Espresso lagað úr Espresso-baunum frá Rapunzel
Aðferð:
- Setjið rjómann í skál og þeytið vel án þess samt að stífþeyta hann.
- Saxið mjólkursúkkulaðið og bræðið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni.
- Saxið krókant súkkulaðið og setjið til hliðar.
- Takið fram aðra skál í stærra lagi og setjið niðursoðnu mjólkina í hana ásamt bræddu súkkulaðinu og salti.
- Blandið saman með sleikju, ef ykkur finnst blandan stífna um of er hægt að velgja henni í nokkrar sekúndur og hræra í.
- Setjið 1/3 af þeytta rjómanum út í súkkulaðiblönduna og blandið varlega saman með sleikju.
- Bætið þá afgangnum af þeytta rjómanum út í og blandið saman við.
- Setjið saxað súkkulaðið út í og hrærið varlega saman við.
- Hellið ísblöndunni í form og frystið í a.m.k. 6 klukkustundir.
Samsetning:
- Setjið eina kúlu af ís í glas og hellið einföldum espresso yfir.
- Berið strax fram með heimagerðu ískexi, sjá uppskrift neðangreint, og söxuðu súkkulaði til skrauts.
Heimagert ískex
- 2 eggjahvítur
- 125 g sykur
- 60 g hveiti
- 1 tsk. vanilludropar
- 60 g smjör, brætt og kælt
- 100 g súkkulaði, brætt til þess að dýfa kexinu í
Aðferð:
- Byrjið á því að hita ofninn í 180°C með blæstri.
- Bræðið smjörið og látið það bíða á meðan þið græjið rest.
- Setjið eggjahvítur í skál og pískið aðeins, bætið þá sykrinum út í og haldið áfram að hræra með písk þar til blandan fer að freyða.
- Hér þarf ekki að stífþeyta, bara rétt þannig að loft komist í blönduna.
- Hrærið þá vanillunni og hveitinu saman við og bætið bræddu smjörinu saman við að síðustu.
- Setjið bökunarpappír eða sílíkonmottu á bökunarplötu og setjið tæplega 1 matskeið af deiginu á plötuna og smyrjið mjög þunnt út.
- Stærðin fer eftir smekk en Völlu finnst ágætt að hafa þvermálið ca 8 cm. Kökurnar renna svolítið út svo passið að hafa gott bil á milli og ekki fleiri en 6 stk. Það þarf að hafa hraðar hendur við að rúlla kexinu upp þegar það kemur út úr ofninum því það harðnar fljótt.
- Bakið eina plötu í einu í 8 mínútur.
- Takið þá, losið þá um kexið með spaða og rúllið upp.
- Endurtakið þar til allt deigið hefur verið bakað en þetta eru líklega um 12-15 stk. en fer þó eftir stærð.
- Þegar kexið hefur kólnað er hægt, ef vill, að bræða súkkulaði og dýfa eða pensla því á kexið.
- Geymist vel í loftþéttu boxi og berið fram með ís.