Fiskur og ostur fer mjög vel saman og gaman er að prófa sig áfram með ólíkar fisktegundir. Vigdís Ylfa uppskriftahöfundur og matgæðingur á heiðurinn af þessum fiskrétti sem er syndsamlega góður. Hún notar löngu í þennan rétt og býr til sælkerahjúp úr majónesi og parmesanosti sem passar með öllum hvítum fisk. Með löngunni gerir hún steiktar kartöflur og ferskt salat sem passar mjög vel saman. Uppskriftina gerði Vigdís Ylfa fyrir uppskriftavefinn Gerum daginn girnilegan.
Parmesanhjúpuð langa og steiktar kartöflur
Fiskur
- 1,5 kg langa eða annar hvítur fiskur
Hjúpur
- 480 ml Heinz majónes
- 150 g Parmareggio parmesanostur, rifinn
- 4 stk. hvítlauksrif, rifin
- 2 dl Panko brauðrasp
- 30 g fersk steinselja
- ½ stk. sítróna, safinn
- salt og pipar eftir smekk
Steiktar kartöflur
- Kartöflur, magn eftir smekk
- Filippo Berio hvítlauksolía, magn eftir smekk
- Parmareggio Parmesanostur eftir smekk
- 1 stk. sítróna, safinn
Aðferð:
- Skerið lönguna í jafna bita og kryddið með salti og pipar báðum megin.
- Sjóðið kartöflurnar þar til þær eru nánast tilbúnar og takið til hliðar.
- Blandið saman í skál majónesi, parmesanosti, hvítlauk, steinselju, sítrónusafa, salti og pipar eftir smekk og að lokum raspi.
- Setjið lönguna í eldfast mót eða á ofnplötu.
- Smyrjið vel af blöndunni á hvern bita og kryddið með salti og pipar.
- Bakið í ofni við 180°C í um það bil 12-15 mínútur.
- Steikið kartöflurnar upp úr smjöri á pönnu í 3-5 mínútur til að fá smá lit og hjúp á þær á meðan fiskurinn er í ofninum.
- Bætið að lokum hvítlauksolíu á pönnuna með kartöflunum ásamt salti og pipar og steikið í 1 mínútu.
- Kreistið sítrónu yfir og bætið rifnum parmesanosti við.
- Berið parmesanhjúpuðu lönguna fram með fersku salati að eigin vali ásamt steiktu kartöflunum.
- Fyrir þá sem vilja það er meðal þurrt hvítvín afar gott með þessum fiskrétti.