Wolt nær annarri sneið af pítsumarkaðnum með samningi við Domino's og nú er hægt að panta pítsur gegnum Wolt appið. Domino‘s Pizza, stærsta pítsukeðja landsins, hefur stefnumótandi samstarf við Wolt sem mun gera Domino's-pizzurnar vinsælu aðgengilegar fyrir Wolt-notendur í appinu að því er fram kemur í tilkynningu frá Wolt og Domino´s Pizza.
Fyrstu staðirnir eru nú komnir í loftið á Wolt-appinu, en með hverri vikunni munu fleiri bætast inn. Þegar innleiðingin er fullfrágengin munu viðskiptavinir í Reykjavík, Kópavogi, Mosfellsbæ, Hafnarfirði, Reykjanesbæ, Gar∂abæ, Akureyri og Selfossi geta pantað sínar uppáhalds Domino's-pítsur í gegnum Wolt-appið, en þetta fjölgar möguleikum þeirra sem kjósa skjótan og auðveldan aðgang að hágæðapítsum. Samstarfið sameinar því frægar pítsur Domino's með framúrskarandi tækni og vinsælu smáforriti Wolt sem gerir báðum fyrirtækjum kleift að skila einstakri upplifun til sameiginlegra viðskiptavina.
Pítsur eru þriðji vinsælasti rétturinn sem Wolt afhendir á Íslandi á eftir hamborgurum og steiktum kjúklingi. Þar sem Domino's er nú orðið fáanlegt í Wolt-appinu geta pítsurnar einungis klifrað ofar á listanum. Um það bil ein af hverjum sjö sendingum á Wolt inniheldur pítsu eins og er.
„Domino's hefur lengi verið á listanum okkar yfir vörumerkin sem við viljum helst vinna með og við erum mjög spennt að fá þau loksins til okkar. Domino's er þekkt vörumerki á Íslandi og við erum stolt af því að hjálpa til við að koma dýrindis pítsunum þeirra til enn fleiri. Vettvangur Wolt var byggður til að tengja fólk við mat sem það elskar og við erum spennt að bæta Domino's við víðtækt net samstarfsaðila,“ segir Jóhann Helgason, forstöðumaður viðskiptastýringar Wolt á Íslandi.
Domino's mun halda áfram að sjá um sínar eigin sendingar, svokallaða sjálfsafhendingu, frá öllum útibúum Dominos á Íslandi að undanskildu Akranesi, þar sem Wolt er ekki enn í boði. Domino's er fyrsti og eini Wolt-söluaðilinn á Íslandi til að bjóða upp á sjálfsafhendingu.
„Við höfum verið að afhenda pítsur á Íslandi síðan 1993 og afhending hefur lengi verið okkar sérþekking. Við erum spennt að bjóða upp á pítsurnar okkar í Wolt appinu, en á sama tíma afhendum við allar okkar pantanir með okkar eigin bílstjórum. Markmið okkar hefur alltaf verið að gera frábærar pítsur aðgengilegri fyrir alla á Íslandi. Með því að taka höndum saman við Wolt erum við að stíga stórt skref í átt að því markmiði og við erum spennt að ná til fleiri viðskiptavina á nýjan hátt,“ segir Magnús Hafliðason, framkvæmdastjóri Domino's Pizza á Íslandi.
Domino's opnaði dyr sínar á Íslandi árið 1993 og er með yfirburðahlutdeild á íslenskum pítsumarkaði, eða með 22 staði.