Forvitnilegur viðburður verður á Skúla Craft Bar í dag þegar danskir bruggarar frá brugghúsinu Stepping Stone mæta í heimsókn og kynna marga af sínum bestu bjórum. Bruggararnir munu einnig nýta heimsóknina og brugga nýjan bjór með félögum sínum í Malbygg.
Magnús Már Kristinsson, einn aðstandenda Malbyggs, segir í samtali við mbl.is að heimsóknin eigi sér þann aðdraganda að tveir fulltrúar Malbyggs hafi hitt þessa kollega sína á bjórhátíð í Kaupmannahöfn síðasta sumar. Vel fór á með þeim og heimsóknin var skipulögð fljótt og vel.
Viðburðurinn á Skúla hefst klukkan 17 í dag og mun Björn Árnason, vert staðarins, taka á móti gestum með átta tegundum af bjór frá Stepping Stone á krana. Bruggararnir verða sjálfir á staðnum og fræða áhugasama um bjórana og brugghúsið.
„Afar fátítt er að bruggarar mæti sjálfir hingað til lands á svona viðburði og sýnir það kannski hversu mikill eldmóður er i þessu litla og unga fyrirtæki. Saman ætlum við að brugga Triple IPA sem fer á dósir og kúta og verður til sölu á Malbygg,“ segir Magnús við mbl.is.
Stepping Stone var stofnað árið 2022 og auk þess að framleiða frambærilega handverksbjóra hafa eigendur þess það að markmiði að aðstoða flóttamenn við að koma undir sig fótunum í Danmörku.
„Þar geta til dæmis flóttamenn fengið að stíga sín fyrstu skref á dönskum vinnumarkaði þar sem hverjum flóttamanni er mætt þar sem hann er staddur andlega og honum hjálpað að ná aftur fyrri kröftum og sjálfstrausti.
Þeirra markmið er að veita hæfileikaríkum einstaklingum sem annars ættu erfitt með að brjótast inn á vinnumarkaðinn stökkpall þar sem þeir geta sýnt hvað í þeim býr,“ segir Magnús.
Allir stofnendur Stepping Stone höfðu mikla reynslu af því að vinna með flóttamönnum áður en Stepping Stone var stofnað, annað hvort í gegnum heilbrigðiskerfið eða félagslega kerfið í Danmörku
„Stepping Stone var valið besta brugghús Danmerkur árið 2024 og unnu kosningu þar um með metfjölda atkvæða. Bjórhátíðin þeirra Aarhus Together var valin viðburður ársins þar í landi en Malbygg er einmitt boðið á þá hátíð í ár. Nýlega hlaut brugghúsið einnig viðurkenningu fyrir fallegustu bjórdós Danmerkur,“ segir Magnús.