Hulunni svipt af brauði ársins á bóndadag

Natasja Keincke sigraði keppnina um Brauð ársins 2025, og er …
Natasja Keincke sigraði keppnina um Brauð ársins 2025, og er það súrdeigsbrauð með jalapenó og íslenskum cheddarosti. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson

Landssamband bakarameistara stóð fyrir hinni árlegu keppni um brauð ársins. Sigurvegarinn í ár er danski konditorinn Natasja Keincke sem starfar sem konditor hjá Bakarameistaranum að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Landssambandi bakarameistara.

Brauðið ársins er gullfallegt brauð, kröftugt og safarríkt eins og …
Brauðið ársins er gullfallegt brauð, kröftugt og safarríkt eins og dómnefnd komst að orði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

 

„Brauðin í keppnina komu alls staðar af landinu og kepptu sex framúrskarandi brauðtegundir til úrslita í keppninni. Það var svo Jalapenó og cheddar-súrdeigsbrauðið hennar Natöshu sem þótti best í ár. Í öðru sæti var brauð Andra Más Ragnarssonar hjá Bakarameistaranum en það er hrísgrjónasúrdeigsbrauð sem inniheldur m.a. hrísgrjón, kartöflumús og kardimommur. Þriðja sætið hreppti Sigrún Sól Vigfúsdóttir, einnig hjá Bakarameistaranum, með Sælkerabrauðið sitt. Er það gerbrauð með steiktum lauk, papriku og semi-þurrkuðum tómötum, rúllað upp í kornflakes og ostablöndu,“ segir Sigurður Már Guðjónsson formaður Landssambands bakarameistara en hann sá einnig um að afhenda verðlaunin.

Kraftmikið og safaríkt brauð

Brauð árs­ins 2025 er súr­deigs­brauð með jalapenó og íslenskum cheddarosti eins og fram hefur komið. Að mati dóm­nefnd­ar er brauðið ein­stak­lega bragðmikið og kröftugt. Að þessu sinni var dómnefndin skipuð þeim Elizu Reid fyrrverandi forsetafrú, Stefáni Bachman bak­ara og fagkennara í bak­araiðn hjá Hótel og matvælaskólanum í Kópavogi og Sjöfn Þórðardótt­ur, fjöl­miðlakonu og um­sjón­ar­manni hjá mat­ar­vef mbl.is. Dómnefndin var ein­róma í áliti sínu um valið á brauði ársins.

Nata­sja Keincke er konditor og kemur frá Danmörku. Hún starfar …
Nata­sja Keincke er konditor og kemur frá Danmörku. Hún starfar hjá Bakarameistranum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður segir afar ánægjulegt að sjá þessa miklu grósku og þennan áhuga í bakaraiðninni. „Keppnin um Brauð ársins er núna haldin árlega og er búin að festa sig rækilega í sessi og er orðin sterk hefð eins og Kaka ársins. Keppnir eins og þessi eru svo mikilvægar fyrir greinina því það verða til svo margar nýjungar sem ýta undir nýsköpun í greininni.“

Brauð árs­ins 2025 fer í sölu á morgun, bóndadag, í öllum bakarí­um Lands­sam­bands bak­ara­meist­ara.

Íslenski cheddar-osturinn kemur vel út í þessu brauði.
Íslenski cheddar-osturinn kemur vel út í þessu brauði. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert