Stóra stundin hjá Sindra að renna upp

Hópurinn hans Sindra Guðbrands Sigurðssonar er mættur til Lyon í …
Hópurinn hans Sindra Guðbrands Sigurðssonar er mættur til Lyon í Frakklandi en Sindri mun keppa í stærstu og virtustu matreiðslukeppni heims Bocuse d’Or á mándaginn. Þráinn Freyr Vígfússon, Hinrik Örn Halldórsson, Sindri Guðbrandur Sigurðsson og Sigurjón Bragi Geirsson. Ljósmynd/Aðsend

Stærsta matreiðslukeppni í heimi Bocuse d’Or fer fram í Lyon í Frakklandi á morgun, sunnudaginn 26. janúar og mánudaginn 27. janúar næstkomandi. Fulltrúi Íslands er meistarakokkurinn Sindri Guðbrandur Sigurðsson en þetta er einstaklingskeppni. Sindri mun keppa á mánudaginn og spennan er í hámarki þessa stundina.

Bocuse d’Or er allra virtasta matreiðslukeppni sem haldin er í heiminum og hefur verið haldin síðan árið 1987 í Lyon í Frakklandi, og komast færri þjóðir en vilja. 24 þjóðir fá keppnisrétt eftir að hafa komist í gegn úr forkeppni í sinni heimsálfu. Bocuse d’Or er kölluð hin eina sanna heimsmeistarakeppni í matreiðslu.

Ferill Sindra er stórglæsilegur í alla staði

Sindri er búinn að standa í ströngu í marga mánuði og undirbúningurinn skiptir sköpun fyrir keppni sem þessa. Þarna mæta til leiks allir færustu matreiðslumenn heims og allir vilja fá gullið.

Sindri er hokinn reynslu og þekkir vel til keppnismatreiðslu. Ferill hans í keppnismatreiðslu er stórglæsilegur, hann hreppti 3. sætið á Ólympíuleikunum í matreiðslu með íslenska kokkalandsliðinu, hann var í öðru sæti í keppninni Besti kokkur Norðurlandanna, varð Kokkur ársins árið 2023 og er nú fulltrúi Íslands í Bocuse d'Or.

Sindri er einnig eigandi að veisluþjónustunni Flóru ásamt Sigurjóni Braga Geirssyni, sem einnig er margverðlaunaður meistarakokkur og hefur þjálfað Sindra fyrir keppnina.

8 manna hópur í liði Sindra

Bocuse d´Or-hópurinn lenti í Frakklandi á þriðjudaginn og heldur íslenska liðið til Chonas L'amballan sem er lítill bær suður af Lyon. Eftir komuna hafa Sindri og aðstoðarmenn hans verið að prufa síðustu atriðin fyrir keppnina. Einnig hafa þeir þurft að stilla upp öllum tækjum og tólum sem þeir taka með sér í eldhúsið á keppnisdaginn. Átta manna hópur er í liðinu hans Sindra sem fór með út.

„Við komum til Frakklands á þriðjudaginn síðastliðinn og það er búið að ganga vel að koma okkur fyrir. Við erum staðsettir á litlu sveitahóteli rétt fyrir utan Lyon sem ber heitið Lé cottage de Clairefontaine,“ segir Sindri glaður í bragði.

Þríeyikið sem mun mæta til leiks á mánudaginn næstkomandi. Í …
Þríeyikið sem mun mæta til leiks á mánudaginn næstkomandi. Í búrinu með Sindra verður Hinrik Örn Halldórsson. Hér eru þeir saman Hinrik, Sindri Guðbrandur og Sigurjón Bragi sem hefur séð um þjálfunina. Ljósmynd/Aðsend

Þjálfari Sindra er eins og áður sagði Sigurjón Bragi, keppandi Bocuse d´Or 2023, og aðstoðarmaður hans er Hinrik Örn Halldórsson. Dómari Íslands í keppninni er Þráinn Freyr Vigfússon, keppandi Bocuse d´Or 2011.

„Við erum búnir að fara yfir allt eldhúsidótið eftir flutninga hingað frá Íslandi og það sem skiptir mestu máli er að halda okkar skipulagi og gera það sem við erum búnir að vera að æfa síðustu mánuði enn betur. Við tókum allt hráefnið með okkur út sem er að sjálfsögðu íslenskt.“

Í keppninni hefur Sindri fimm og hálfa klukkustund til þess að matreiða fiskrétt og kjötrétt fyrir 24 dómara. Afraksturinn verður sannkallað listaverk og er annars vegar borinn fram á fallegum stórum disk og hins vegar á glæsilegu silfurfati.

Við munum fylgjast grannt með keppninni og óskum Sindra og félögum góðs gengis í keppninni á mánudaginn næstkomandi.

 

Stóra stundinn sem Sindri hefur biðið eftir í langan tíma …
Stóra stundinn sem Sindri hefur biðið eftir í langan tíma er loks að renna upp. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert