Elín Kristín Guðmundsdóttir matarfrumkvöðull ljóstrar upp áhugaverðum staðreyndum um matarvenjur sínar að þessu sinni. Hún nýtur þess að borða góðan mat í góðra vina hópi og fjölskyldunni.
Hún á og rekur fyrirtækið Ella Stína sem framleiðir vegan matvörur og er orðið þekkt vörumerki.
„Vörumerkið er alltaf að stækka og verða þekktara meðal neytenda og er ég virkilega þakklát mínum viðskiptavinum sem versla frá mér aftur og aftur. Þá get ég haldið áfram að gera það sem mér finnst skemmtilegt, að finna nýjungar og vöruþróun á góðum vörum sem innihalda hreinleika,“ segir Elín.
Elín segist ávallt hafa haft mikla ástríðu fyrir mat og njóta þess að vera í góðum félagsskap þegar matur er á borðum.
„Að borða góðan mat í góðra vina hópi eða með fjölskyldu er gulls í gildi. Ég hef alltaf haft ástríðu fyrir að búa til mat sem er ljúffengur og einfaldur. Því það bragðast alltaf best það sem er einfalt í framkvæmd og ást í hverjum munnbita. Í amstri dagsins nennir maður ekki endilega því sem tekur mestan tíma. Ég nýt þess að leika mér í eldhúsinu eins og góðum kokki sæmir, ég vil helst gera allt frá grunni og blanda hinu og þessu út í sem er til í ísskápnum. Ég væri ekki með Ellu Stínu nema vegna þess að ég hef óbilandi áhuga á mat og velja saman alls konar mat sem er hollur og góður,“ segir Elín og brosir.
„Þar sem það er Veganúar vil ég hvetja lesendur til að prufa sig áfram í að bæta meira plöntufæði í mataræðið sitt. Það hefur jákvæð áhrif á líkamann og líka á umhverfið og það sem mikilvægast er, dýrin.“
Elín svarar hér nokkrum praktískum spurningum um matarvenjur sínar.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Í morgunmat byrja ég á að drekka stórt vatnsglas og fá mér engiferskot. Besti kaffibollinn er auðvitað í morgunsárið úr kaffivélinni minni með flóaðri veganmjólk sem ég fæ mér alltaf um helgar. Á virkum dögum þá er það bara þessi svarti úr kaffivélinni með smá veganmjólk áður en haldið er út í daginn. Ég borða ekki morgunmat reglulega. Ég hef verið að tileinka mér að fasta til klukkan 10-11 á morgnana. Þannig ég myndi segja að morgunmaturinn minn sé vatn, engiferskot og kaffibolli.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
Ég skal alveg viðurkenna það að ég get verið smá nartari milli mála og sérstaklega ef ég hef ekki verið að passa upp á að borða vel í hádeginu eða í kvöldmatnum. En núna hef ég verið meðvituð um að minnka millimálasnarl en þar sem ég lifi og hrærist í mat alla daga þá er ég mjög oft að smakka til einhverjar nýjungar þannig ég er örugglega ekkert sérlega dugleg að vera ekki naslari.
Ég er mjög meðvituð um að velja alltaf hollustu fram yfir annað. Þannig kemst ég upp með að borða stundum meira á milli mála en ef ég væri að velja vörur sem innihalda mikið magn af sykri. Þegar ég er mjög skynsöm er grænmeti og ávextir skorin niður. Einnig er líka stundum ristuð súrdeigsbrauðsneið með avókadó og áleggi frá Ellu Stínu á disknum mínum, það klikkar ekki eða góð lúka af hnetublöndu.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Já, mér finnst mjög mikilvægt að borða góðan hádegisverð sem er reglulega fyrsta máltíð dagsins hjá mér. Stundum er hádegismaturinn hjá mér kringum ellefu þar sem ég er vön að æfa hjá henni Önnu Eiríks í eðalþjálfun hjá Hreyfingu 3 svar sinnum í viku frá klukkan 9.15 á morgnana. Það er heilsueflandi fyrir líkama og sál, ég veit ekki hvar ég væri án þessara föstu punkta í lífinu. Eftir þennan tíma fæ ég mér fyrstu máltíð dagsins.
Þá daga sem ég mæti á öðrum tíma í Hreyfingu þá er yfirleitt fyrsta máltíð dagsins, hádegismaturinn, kringum tólf og eitt. Hádegisverður minn samanstendur af þeytingi. Í hann set ég það sem ég á til hverju sinni eins og vegan prótein, jarðarber, bláber, kókosmjöl, ferska peru, hálfa og hálfan banana ásamt expresso kaffiskoti og nóg af klökum og smá skvettu af veganmjólk sem ég geri sjálf. Ég legg mikið upp úr því að borða næringaríkan hádegisverð þar sem ég passa vel upp á að hlutföll af próteini, kolvetnum, trefjum og hollri fitu séu vel samsett. Það skiptir máli að borða nóg af próteini yfir daginn og þar sem ég er vegan þá fæ ég mér þeyting daglega að lágmarki ásamt öllu hinu auðvitað.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Ætli það sé ekki alltaf of mikið til í mínum ísskáp þar sem ég er alltaf að prófa eitthvað nýtt sem mér dettur í hug. En þessi hefðbundni staðalbúnaður eru vörur frá Ellu Stínu, álegg, ostur og sósurnar, ásamt vegan smjöri og svo á ég ávallt fulla skúffu af alls konar grænmeti og líka ávöxtum sem og sódavatni.“
Ferðu á þorrablót?
„Nei, ég er ekki mikið fyrir þorrablót þó að mér þyki gaman að vera með fólki. Ég hef aldrei farið á þorrablót, kannski er bara kominn tími á að ég prufi að mæta.“
Borðar þú þorramat?
„Nei, ég borða ekki þorramat og hef ekki gert að verða í að verða 7 ár eða síðan ég fór á veganmataræði. Áður fyrr borðaði ég sviðasultu og slátur. Ég gæti ekki borðað það í dag.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Ég nýt þess að fara út að borða og vel staði sem bjóða upp á góðan grænkeramatseðil. En þegar ég verð náttúrulega að benda á YUZU og Lemon sem eru nú meira skyndibitastaðir en þar eru vörur frá mér á matseðli. Einnig eru að koma vörur frá mér til staðarins Hjá Höllu ef það er ekki þegar byrjað.
Ég verð að benda veitingahúsaeigendum á að það mætti alveg bæta grænkeraúrval hjá þeim þar sem að það er stækkandi hópur sem velur grænkerafæði en oft finnst mér ekki nógu vel lagt í að hafa girnilegan mat fyrir grænkerana. Mínir staðir sem ég held upp á eru meðal annars Eriksson, Apótekið, Sumac og Austur-Indíanfélagið.“
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Það er hefð hjá okkur fjölskyldunni að hafa pítsu á föstudögum. Þótt það klikki stundum sökum annarra plana. Á mína pítsu finnst mér best að vera með vegan hakk frá Ellu Stínu, sveppi, græna papriku, döðlur, hvítlauk, venjulegan lauk og vegan ost frá Ellu Stínu, toppa pítsuna síðan með basilíku og góðri hvítlauksolíu.“
Hvað færð þú þér á pylsuna þína?
„Ég hef ekki borðað venjulega pylsu í mörg ár, finnst þær vera hryllingur. Það eru örugglega komin yfir 15 ár síðan ég smakkaði síðast pylsu. Hins vegar er ég farin sjálf að framleiða vegan pylsur sem er pyslan mín ef ég fæ mér, auðvitað með öllu þá og passa að hafa vegan remúlaði með frá Ellu Stínu.“
Hver er uppáhaldsrétturinn þinn?
„Ég á mér marga uppáhaldsrétti en það sem kemur í hugann á mér akkúrat núna er réttur sem ég bjó til fyrir jólagestgjafann í ár sem er grasker með sveppafyllingu. Þið getið fundið uppskriftina hjá Gestgjafanum. Ég elska góð salöt og er farin að spíra sjálf heima, spírur eru svo hollar og góðar. Mín salatskál er með öllu sem ég finn í ísskápnum og set kjúllakebab með og toppa með góðri thaini-sósu.
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Ég vel alltaf salat á diskinn minn í öll mál en borða líka mjög oft með því sætar kartöflur sem ég baka í ofni og hef látið liggja í smá mareríngu úr einhverju sem ég á inni í skáp. Það klikkar ekki. Ég næ ávallt að töfra fram góðar maríneringar úr því sem ísskápurinn býður upp á að hverju sinni.
Uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Ég verð að vera strangheiðarleg og segja að ég drekki bara vatn sem er besti drykkurinn, en auðvitað drekk ég fullt af sódavatni. Ég er smá sökker fyrir að fá kók í gleri, veit hversu óhollt það er og drekk það bara spari. Kaupi þá eina flösku og nýt þess að drekka hana. Gæti ekki átt það til í ísskápnum, það væri einum of freistandi fyrir mig.“