Klassískt og nútímalegt eldhús hjá Guðrúnu

Guðrún Gunnarsdóttir hannaði draumaeldhúsið í Sigvaldaíbúð sem hún elskar að …
Guðrún Gunnarsdóttir hannaði draumaeldhúsið í Sigvaldaíbúð sem hún elskar að dunda sér í og hlusta á útvarpið um leið. mbl.is/Karítas

Fagurkerinn og viðskiptafræðingurinn Guðrún Gunnars bjó lengi í París þar sem hún lærði frönsku og starfaði meðal annars sem pistlahöfundur. Síðastliðin ár hefur Guðrún hannað og gert upp margar íbúðir, sú nýjasta er Sigvaldaíbúð í Álfheimum, steinsnar frá Laugardalnum.

Þegar blaðamann ber að garði er Guðrún að ljúka við að gera grænmetisafa, sjeik fyrir soninn og kjötsúpu með grænmeti. Hún elskar fátt meira en að nostra við einfalda matargerð í eldhúsinu og hlusta á útvarpið og þegar kom að því að gera eldhúsið upp í Sigvaldaíbúðinni var draumaeldhúsið hennar í forgrunni.

Guðrún valdi gráar innréttingar frá Haecker sem fást hjá Eirvík …
Guðrún valdi gráar innréttingar frá Haecker sem fást hjá Eirvík í eldhúsið sem koma mjög vel út. mbl.is/Karítas

„Við hjónin keyptum þessa íbúð og fengum arkitekt til að teikna upp nýtt skipulag, eins og við erum alltaf vön að gera, til að stilla íbúðina af og nýta rýmið betur. Arkitektinn, Steinþór Kári hjá Kurt og Pí, gerði þetta og gott betur. Hann gjörbreytti íbúðinni með því að henda eldhúshurðinni út og stækka gatið þar í 100 cm og svo opnaði hann vegginn við svalirnar um 90 cm inn í stofuna. Það var eins og íbúðin hefði stækkað um marga fermetra, hún er öll bjartari og opnari.Og eldhúsið nýtur sín miklu betur,“ segir Guðrún með bros á vör.

Guðrún fékk sér Smeg-gaseldavél, sem henni finnst mjög gaman að …
Guðrún fékk sér Smeg-gaseldavél, sem henni finnst mjög gaman að nota, og tvo Smeg-ofna í svörtum lit í eldhúsið. Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Fór til Parísar að skoða flísar

Að sögn Guðrúnar teiknaði Steinþór eldhússkápa alveg upp í loft eftir annarri hliðinni.

„Ég vildi fá skápa sem væru upp í loft og þá var eina lausnin að fara í Eirvík og velja sér innréttingu þar frá Haecker, en hún kemur í þeim málum sem maður vill. Ég valdi að hafa hana í gráum lit, tók líka mjög þunna borðplötu frá Haecker og málaði svo eldhúsið í grábláa litnum Fabrik,“ segir Guðrún og strýkur yfir innréttinguna.

„Við keyptum öll eldhústækin hjá Eirvík og ég er í fyrsta sinn með Smeg-gaseldavél sem er mjög gaman að nota og tvo Smeg-ofna í svörtum lit, þeir eru mjög einfaldir í notkun. Þeir eru flottir við gráa litinn í innréttingunni. Einnig erum við með mjög hljóðláta Miele-uppþvottavél og innbyggðan Miele-ísskáp. Inn af eldhúsinu er þetta æðislega þvottahús sem er einnig frá Haecker, allt sérsniðið í rýmið og með frábært skápapláss,“ bætir Guðrún við. 

Guðrún gerir safann sem hefur lækningamát að sögn ömmu hennar.
Guðrún gerir safann sem hefur lækningamát að sögn ömmu hennar. mbl.is/Karítas

„Ég lét setja vask og er með upphækkað stæði fyrir þvottavél og þurrkara. Ég pældi mikið í gólfflísunum á þvottahúsið og baðið sem ég vildi hafa í stíl. Ég bjó lengi í París við nám og störf og ég fór sérstaklega þangað til að skoða flísar og hvernig þær passa við parket. Ég skoðaði margar kirkjur og verslanir en þar eru gólfin oftast flísalögð og með síldarbeina- eða fiskibeinamynstri, massíf gólf sem hafa staðið mörg hundruð ár og verða bara fallegri með tímanum. Að endingu valdi ég terrasso-flísar frá Flísabúðinni og langar subway-flísar frá Vídd á bæði rýmin. Ég vildi hafa þetta klassískt, en nútímalegt um leið,“ segir Guðrún dreymin á svip.

„Mér fannst það passa við parketið sem er lagt í fiskibeinamynstur, það er gegnheilt og olíuborið og kemur frá Agli Árnasyni.Við létum flota öll gólfin, þá var límdur á það 3mm hljóðdúkur og svo niðurlímt fiskibeinaparket. Þetta gerir það að verkum að hljóðið í íbúðinni er allt mjög þétt og íbúðin heldur eiginlega utan um mann.“

Pottréttir stútfullir af grænmeti er eitt af því sem Guðrún …
Pottréttir stútfullir af grænmeti er eitt af því sem Guðrún hefur mikið dálæti af. mbl.is/Karítas

Lífsgæði og sparnaður

Þegar Guðrún er spurð hvað henni finnist ómissandi að hafa í eldhúsinu er hún fljót til svars. „Útvarpið er algjörlega ómissandi í eldhúsinu. Ég hlusta alltaf á Rás eitt í eldhúsinu og hef í raun miklu meiri áhuga á útvarpsefninu en á eldamennskunni sjálfri. Ég er mjög hrifin af þulinum, Pétri Grétarssyni, hann talar mjög fallega íslensku og er sniðugur. Mér finnst ég oft ferðast heilmikið í gegnum útvarpið.

Gaseldavélin gerir síðan eldamennskuna mun áhugaverðari. Góður hnífur er líka eitthvað sem er ómissandi, ég er með japanskan Tamahagane-hníf sem er svo flugbeittur að ég geymi hann í kassa uppi í skáp svo enginn skeri sig óvart á honum. Síðan er hentugt að hafa þvottahúsið inn af eldhúsinu og að geta sett í eina og eina vél á meðan ég elda og hlusta á útvarpið. Það eru ákveðin lífsgæði og tímasparnaður að hafa allt við höndina.“

Guðrún valdi að hafa eldhúsið og íbúðina alla í klassískum …
Guðrún valdi að hafa eldhúsið og íbúðina alla í klassískum en nútímalegum stíl. mbl.is/Karítas

Bakstur á ekki við Guðrúnu og hún segir aldrei baka. „Ég elda bara fljótlega rétti og legg metnað í þá. Við eigum lítinn dreng og hann elskar fisk í ofni með kartöflum og smjöri, ég fer því reglulega í Fiskbúð Fúsa og fæ fisk. Strákurinn okkar vill líka fá bananasjeik sem ég bý til í Vitamix-blandaranum. Ég bý einnig oft til kjötsúpu úr afgangskjöti ef ég hef haft lambalæri í matinn.

Ég nýt þess samt mun betur að borða mat hjá öðrum. Sigrún Úlfars vinkona mín er sennilega sá kokkur sem eldar oftast ofan í mig. Sigrún er skartgripahönnuður og dásamlegur kokkur.“

Ég hef aldrei átt neina fyrirmynd þegar kemur að matargerð eða bakstri, né hef ég spáð mikið í mat, þrátt fyrir að ég hafi búið lengi í París – þar sem hægt er að smakka mat frá öllum heimshornum. Ég er sjálf hrifnust af heilsusamlegum mat og horfi mest í hollustu er ég elda,“ segir Guðrún sposk á svipinn.

Lærði þessa formúlu hjá ömmu minni

Til að mynda legg ég mikið upp úr því að gera holla drykki sem næra líkamann og sál. Ég hef í mörg ár pressað grænmeti og búið til holla drykki fyrir mig og fjölskylduna. Ég byrjaði á þessu til að lækna mig af exemi og það virkaði mjög vel. Það hefur mjög góð áhrif á húðina að drekka grænmetisdrykki og taka inn góðar olíur með. Oftast pressa ég sellerí, drekk það á fastandi maga og tek alltaf tvær matskeiðar af góðri olíu. Eftir það er það hreinn gulrótasafi og síðan avókadódrykkur. Stundum geri ég rauðrófusafa og ég hef líka oft tekið tarnir með hveitigrasi.

Aðspurð segist Guðrún hafa lært formúluna af heilsudrykknum hjá ömmu sinni. „Ég lærði þetta trix með hollustudrykkinn hjá ömmu Þóru þegar ég var lítil stelpa. Einhvern tíma keypti hún þessa rosalegu Mulinex-safapressu. Hún pressaði grænmeti og ávexti og ég fékk alltaf safa fyrir allar máltíðir. Þetta hefur svona loðað við mig alla tíð en amma sagði að þessi safi hefði lækningarmátt.“

Parket hjá Guðrúnu kemur skemmtilega út.
Parket hjá Guðrúnu kemur skemmtilega út. mbl.is/Karítas

Guðrún er líka sælkeri og kann að njóta þess að fá rétti sem kitla bragðlaukana. „Ég elska að fá mér tíramísú á ítölskum veitingastöðum í París. Ég stenst heldur ekki franskan geitaost. Við eigum góða franska vinkonu sem býður okkur oft að dvelja á sveitasetrinu sínu í Drome sem er í Provence-héraðinu íFrakklandi. Þar fáum við geggjaða geitaosta beint frá bónda. Það er himneskt að njóta þar,“ segir Guðrún að lokum og lýkur við að bera fram þessa dýrðlegu kjötsúpu sem hún er búin að vera að gera frá því blaðamann bar að garði.

Hollustudrykkurinn frá ömmu hennar Þóru er oft í boði.
Hollustudrykkurinn frá ömmu hennar Þóru er oft í boði. mbl.is/Karítas

Guðrún deilir hér með lesendum uppskriftunum að því sem hún gerði fyrir viðtalið, bananasjeiknum, avókadó-drykknum og kjötsúpunni sem er stútfull af grænmeti.

Kjötsúpa stútfull af grænmeti.
Kjötsúpa stútfull af grænmeti. mbl.is/Karítas

Bananasjeik Sörla, 5 ára

  • 1 banani
  • 2 bollar mjólk
  • salt á hnífoddi (himalayja)
  • kanill

Aðferð:

  1. Setjið allt hráefnið saman í blandara og hrærið vel saman.
  2. Hellið í hátt glas og berið fram.

Avókadó - drykkur

Fyrir 2

  • 2 avókadó, skerið í bita
  • 4 epli
  • Engiferbútur, eftir smekk.
  • Salt eftir smekk
  • Vatn eftir þörfum og smekk

Aðferð:

  1. Pressið eplin og engifer í safavél.
  2. Setjið í blandara með avókadó-bitunum, salti og vatni eftir smekk.
  3. Hellið í tvö glös og berið fram.

Kjötsúpa í rauðum Le Creuset-potti

Fyrir 2-4

  • Afgangur af lambalæri og soði af því frá deginum áður
  • 1 paprika
  • 1 hvítlaukur
  • 1 laukur
  • 1 kúrbítur
  • 1 brokkóli
  • 2 gulrætur
  • 1 dós tómatar
  • 1 dós tómatpúrra
  • 1 bolli baunir eða hrísgrjón
  • 1 stk. grænmetiskraftur frá Himneskt
  • Pipar eftir smekk
  • Ólífuolía eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið allt grænmetið smátt niður og steikið í olíu í pottinum.
  2. Skerið kjötið niður í smáa bita og bætið út í pottinn.
  3. Setjið allt soðið af kjötinu frá deginum áður í pottinn líka.
  4. Bætið síðan tómatpúrru, niðursoðnum tómötum, baunum eða hrísgrjónum út í.
  5. Hellið síðan vatni út í eftir smekk og kryddið til.
  6. Látið sjóða við lágan hita í um það bil 10 mínútur.
  7. Berið fram í pottinum og njótið í góðum félagsskap.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert