Matreiðslumeistarinn Axel Óskarsson er með marga bolta á lofti. Hann rekur ferðaskrifstofufyrirtækið I am Iceland, Bón- og bílaþvottastöðina Bíladekur, grillþjónustuna Grilldekur.is, veitingaþjónustuna hjá Golfklúbbnum Oddi í Urriðaholti og veitingastaðinn Kaffivagninn á Grandagarði í Reykjavík, en Jóhann Jónsson, sem var lengi yfirmatreiðslumaður á Lauga-Ási, er með honum í veitingabransanum.
„Þú verður að spyrja konuna mína að því,“ segir hann spurður um hvernig hann hann nái að sinna öllum þessum verkefnum, en Katrín Ósk Aldan Gunnarsdóttir, eiginkona hans, sér um fjármálin og bókhaldið. „Ég reyni að gera mitt besta á öllum vígstöðvum og dreifa álaginu. Ég er með gott starfsfólk á öllum stöðum og svo er utanumhaldið allt á einum stað.“ Hann bætir við að Katrín sjái um skrifstofuna og hann haldi utan um ferðaskrifstofuna og sé þar með góða samstarfsmenn auk þess sem reyndir starfsmenn séu á Kaffivagninum. „Við Jói sjáum um daglegan rekstur hérna eins og í golfskálanum, vinnum í eldhúsinu og þjónum líka til borðs.“
Skrifstofa Axels, Bíladekur og Grilldekur eru í nágrenninu og hann segist lengi hafa notið veitinga á Kaffivagninum. „Ég hef kynnst því vel hvað þetta er skemmtilegur staður með góða stemningu og þegar mér bauðst að taka við rekstrinum lét ég til skarar skríða.“
Kaffivagninn er einn elsti veitingastaður landsins, bæði kaffihús með tilheyrandi meðlæti og matstaður. „Við ákváðum að halda í gömlu hefðirnar og bjóða upp á klassísku fiskréttina,“ segir Axel um matseðilinn. Þeir fari rólega í breytingar, endurnýi húsgögn, tæki og tól sem séu komin á tíma og ætli að bæta hægt og sígandi við nýjum og skemmtilegum réttum. Þar á meðal réttum sem nutu vinsælda á Lauga-Ási. „Frægu gratínfiskréttirnir sem þar var boðið upp á eiga skilið að lifa lengur.“ Til standi að lengja afgreiðslutímann samfara hækkandi sól, en nú er opið klukkan 8:00-20:00. „Það er fátt skemmtilegra en að sitja við höfnina á kvöldin og njóta umhverfisins og stemningarinnar í góðum félagsskap.“ Margir gestir hafi haldið tryggð við Kaffivagninn um árabil og þeir vilji halda fastagestunum og ná líka til nýrra viðskiptavina. „Við leggjum áherslu á að Kaffivagninn er fyrir alla aldurshópa.“
Axel lærði hjá Guðvarði Gíslasyni, Guffa, á Hótel Loftleiðum og útskrifaðist 2000, en stússið í kringum mat og matreiðslu hefur heillað hann frá því að hann útskrifaðist úr grunnskóla. „Þá byrjaði ég að vinna í uppvaskinu hjá Pizza 67 og þar kynntist ég kokkum sem höfðu þessi áhrif á mig en ég áttaði mig ekki á því fyrr en eftir að ég hafði unnið í fiski á Höfn í Hornafirði. Þegar ég kom til baka var ég grjótharður á því að læra kokkinn og ég var heppinn, fékk frábæra kennara í eldhúsinu hjá Guffa.“ Hann bætir við að hann sjái um allan mat í veiði- og fjallaferðum sem hann fari í með ferðamenn. „Öll vinna heldur mér gangandi og þetta er allt jafn skemmtilegt.“