Sindri Guðbrandur Sigurðsson, fulltrúi Íslands, hóf keppni fyrir hönd Íslands á Bocuse d´Or-heimsmeistarakeppninni í morgun klukkan 9 á staðartíma. Allt er komið á fullt i eldhúsinu og einbeitningin leynir sér ekki á svip Sindra.
Hægt er að fylgjast með keppninni í beinni hér.
Mikil eftirvænting ríkir á staðnum hjá Íslendingum en fjölmargir eru mættir til Lyon til að hvetja Sindra og félaga til dáða. Úrslitin verða kunngjörð seinnipartinn í dag.
Alls eiga tuttugu og fjórar þjóðir keppnisrétt í Lyon eftir að hafa unnið til þess í forkeppni í sinni heimsálfu. Bocuse d´Or-heimsmeistarakeppnin er virtasta keppni einstaklinga í matreiðslu og er haldin í Lyon í Frakklandi þessa dagana.