Anna Eiríks deildarstjóri og einkaþjálfari hjá Hreyfingu elskar fátt meira en að töfra fram hollan og gómsætan bröns um helgar. Hún gefur lesendum hér þrjár uppskriftir að gómsætum en hollum réttum sem upplagt er að bjóða upp á með sunnudagsbrönsinum.
Þetta eru belgískar vöfflur, lárperusalat sem er gott ofan á allt og pönnukökubananabitar sem enginn stenst. Fullkomið í helgarbrönsinn eða ef mann langar bara í eitthvað sætt en hollt.
Anna Eiríks deildarstjóri hjá Hreyfingu er iðin við að deila með fylgjendum sínum á Instagram uppskriftum að hollum og næringarréttum sem gleðja sálina.
Ljósmynd/Aðsend
Við elskum belgískar vöfflur
„Við fjölskyldan elskum belgískar vöfflur, þær eru svo þykkar og góðar en innihalda oft töluvert mikinn sykur. Ég prófaði að sleppa alveg sykrinum en setti Agave-síróp í staðinn og það kom ótrúlega vel út, enginn fann neinn mun og þær kláruðust eins og skot. Þið verðið að prófa þessar,“ segir Anna.
Belgískar vöfflur eru syndsamlega góðar.
Ljósmynd/Aðsend
Síðan mælir Anna með þessu dásamlega lárperusalati. „Þetta holla salat er frábært ofan á hrökkbrauð, súrdeigsbrauð eða gæða sér á því beint upp úr skálinni. Það tekur stutta stund að búa það til og það geymist í lokuðu íláti í ísskápnum í 1-2 daga ef það klárast ekki strax.“
Lárperusalatið er fullkomið ofan á hrökkbrauðiið eða súrdeigsbrauðið.
Ljósmynd/Aðsend
Algjörlega gómsætt
Loks eru það pönnukökubananabitarnir sem Anna segir að börnin haldi mikið upp á. „Þetta er ótrúlega skemmtileg uppskrift sem krökkunum fannst mikið stuð að gera. Hollir pönnukökubananabitar með dökkum súkkulaðibitum sem steiktir eru á pönnu og svo smá sírópi dreift yfir. Algjörlega gómsætt,“ segir Anna að lokum.
Pönnukökubitarnir með súkkulaðibitum steinliggja, börnin munu elska þessa.
Ljósmynd/Aðsend
Anna deilir reglulega með fylgjendum sínum ljúffengum og næringarríkum réttum á Instagram-síðunni sinni hér.
Belgískar vöfflur
- 100 g mjúkt smjör
- 1/3 bolli Agave-síróp
- 2 egg
- 1 tsk. vanilludropar
- 2 bollar hveiti
- 2 tsk. lyftiduft
- 1 bolli möndlumjólk (eða venjuleg)
- Salt á hnífsoddi
Aðferð:
- Þeytið í hrærivél mjúkt smjör ogagave-sírópp og bætið svo eggjunum við.
- Því næst setjið þið vanilludropana út í og hellið svo þurrefnunum rólega saman við og endið svo á því að hella mjólkinni varlega út í.
- Deigið á að vera þykkt, svo bakið þið vöfflurnar í belgísku vöfflujárni og njótið í botn.
Lárperusalat
- 1 lítil dós kotasæla
- 1 lárpera
- 2 harðsoðin egg
- Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Harðsjóðið eggin og kælið.
- Setjið kotasæluna í skál og skerið lárperuna í litla bita sem þið setjið út í.
- Brytjið eggin niður og bætið þeim einnig út í og hrærið saman við.
- Kryddið að vild með salti og pipar.
Pönnukökubananabitar
- 2 egg
- 1/2 tsk. vanilludropar
- 2 bollar spelt/möndlumjöl eða hveiti
- 2 tsk. vínsteinslyftiduft
- 1 ½ bolli möndlumjólk
- 100 g dökkt súkkulaði (má nota sykurlaust)
- 2 stórir bananar eða eins og deigið leyfir
- Smá skvetta agave-síróp
Aðferð:
- Hrærið öllu saman í nokkuð þykkt deig og bætið svo söxuðu súkkulaði út í.
- Skerið bananana í þykka bita og veltið þeim upp úr deiginu og reynið að þekja þá vel, steikið þá svo við frekar lágan hita á pönnukökupönnu og dreifið svo smá Agave-sírópi yfir og njótið vel.