Einn vinsælasti rétturinn á matseðlinum á veitingastaðnum La Primavera frá upphafi er kálfur milanese. Hann nýtur ávallt mikilla vinsælda og er einn frægustu réttanna hans Leifs Kolbeinssonar, matreiðslumeistara og eiganda La Primavera.
Veitingastaðurinn er staðsettur á tveimur stöðum, annars vegar í Marshallshúsinu út við Granda og hins vegar í Hörpu, tónlistarhúsi allra landsmanna við höfnina.
Kokkarnir á La Primavera hafa lamið og „pannerað“ nokkrar sneiðar af kálfi milanese gegnum tíðina.
Ljósmynd/Ari Magg
„Já það er rétt, kálfur milanese er meðal okkar vinsælustu rétta í gegnum árin. Við höfum lamið og „pannerað“ nokkrar sneiðar af kálfi milanese gegnum tíðina,“ segir Leifur með bros á vör.
La Primavera í Marshallshúsinu er einstakleg stílhreinn og hlýr staður þar sem einfaldleikinn fær að njóta sín.
Ljósmynd/Ari Magg
„Upphaflega notuðum við íslenskt kálfainnralæri í þennan rétt. Á þeim tíma var allt kálfakjöt meira og minna notað í pylsur og unnar kjötvörur en ekki í steikur. Tímarnir hafa hins vegar breyst og nú getum við valið úr góðum kálfavöðvum sem eru fluttir inn frá meginlandi Evrópu. Við notum frábært kálfa-ribeye af sex mánaða gömlum gripum.“
Leifur Kolbeinsson geri til að mynda pasta frá grunni á La Primavera.
Ljósmynd/Ari Magg
Þessa uppskrift er að finna í bókinni hans Leifs sem ber heitið Primavera 25 og er algjör nostalgía fyrir sælkera sem kunna að meta kræsingarnar á La Primavera.
Kálfur milanese
Fyrir 4
- 4 kálfasneiðar (150 g sneiðar, lamdar þunnt með kjöthamri)
- 2 egg
- 50 ml mjólk
- 2 sítrónur
- parmesanostur
- tómatsósa (heimagerð)
- basilíka (gott knippi)
- 200 g pasta (við notum fettuccine)
- hveiti
- panko-raspur
- olífuolía
- salt og pipar
- canola-olía
Aðferð:
- Hrærið eggjunum saman við mjólkina.
- Leggið kálfasneiðarnar í hveitið og sláið af öllu umfram hveiti.
- Setjið sneiðarnar út í eggjablönduna og því næst í raspinn og húðið vel.
- Kjötið er svo steikt í olíu þar til sneiðarnar eru gullinbrúnaðar á báðum hliðum.
- Kryddið með salti og pipar, kreistið safann úr einni sítrónu yfir og stráið parmesanosti yfir.
- Setjið í ofnskúffu og bakið í forhituðum ofni við 180°C í um það bil 10 mínútur.
- Á meðan er pastað soðið, því svo blandað út í tómatsósuna og kryddað með ferskri basilíku.
- Berið sneiðarnar fram með pastanu og góðum sítrónubát.