Þorsteinn Skúli Sveinsson býður upp á fjölskylduvænan vikumatseðil með girnilegum heimilismat sem getur ekki klikkað. Hann hefur gaman að því að elda góðan mat og nýtur sín að vera með fjölskyldunni í eldhúsinu.
Frá því að hann byrjaði að búa með sinni konu, Lilju Hrönn Gunnarsdóttur, hefur það verið fastur liður að gera vikumatseðil og hefur það reynst þeim vel.
„Við hjónin búum í Hafnarfirði og eigum þrjú börn. Þegar við byrjuðum að búa saman settum við okkur markmið sem við höfum staðist síðan, það er að útbúa vikumatseðil og fara einungis einu sinni í viku í búð til að kaupa inn fyrir alla vikuna. Það er fátt leiðinlegra en að fá spurninguna klukkan 16:15, þegar maður er fastur í umferðinni og sveittur við að ná í leikskólann: „Hvað á að hafa í matinn í kvöld?"
Við hjónin erum með bráðaofnæmi fyrir þessari spurningu. Frá því við byrjuðum að búa höfum við einsett okkur að setjast saman og útbúa vikumatseðil fyrir hverja viku og í 87% tilfella stenst hann hjá okkur. Börnin okkar hafa þó mjög mismunandi matarlyst.
Elsti sonur okkar vill helst bara kolvetni og enga sósu. Ef hann fengi að ráða, myndi hann lifa á pylsum. Miðjan okkar, er hins vegar mikill matarunnandi og óhrædd við að smakka nýja rétti. Sá yngsti er, eins og flest ungabörn, mjög hrifinn af mömmu sinni og farinn að gæða sér á graut þessa dagana,“ segir Þorsteinn og brosir.
Þorsteinn starfar í mannauðsdeildinni hjá Byko og stendur í stórræðum þessa dagana en hann er kominn í framboð.
„Að undanförnu hef ég verið að undirbúa framboð mitt til formanns VR, en ég brenn fyrir því að bæta kjör félagsfólks. Sem þriggja barna faðir veit ég hversu mikilvæg forréttindi það eru að koma barni í öruggar hendur þegar fæðingarorlofi lýkur og mér finnst miður að allt of margir foreldrar eiga erfitt með að finna dagvistunarúrræði fyrir börn sín eftir það. Þessu vil ég breyta,“ segir Þorsteinn.
„Varasjóðurinn hjá VR er mér einnig hugleikinn, þar sem ég vil breyta núverandi fyrirkomulagi og taka upp styrki í stað varasjóðs. Það er raunveruleg ósk félagsfólks VR, en því miður hafa talsmenn þess talað fyrir daufum eyrum.
Þá vil ég einnig standa fyrir jöfnum réttindum félagsfólks VR miðað við hinn opinbera markað, þar sem felst í 30 daga orlofi og 36 stunda vinnuviku. Síðast en ekki síst vil ég berjast fyrir því að þungaðar konur fái auka fjórar vikur við hefðbundinn veikindarétt, þannig að þær standa jafnt við karlmenn þegar þær koma úr fæðingarorlofi.
Í stuttu máli vil ég meiri virðingu, réttlæti og jafnrétti fyrir félagsfólk VR. Það er allt sem ég bið um og ég mun ganga í gegnum þetta framboð eins og ég fer í gegnum vikumatseðilinn með fullum krafti og án þess að vera spurður: „Hvað verður í matinn í kvöld?
Þorsteinn ljóstrar hér upp vikumatseðlinum sem hann og konan hans eru búinn að stilla upp.
Mánudagur – Plokkfiskur, þessi gamli góði
„Frá því að við konan mín fórum að búa höfum við alltaf verið með fisk á mánudögum. Þessi réttur er eins og rétt byrjun á vikunni, frábærlega góður og ef við erum í extra miklu stuði, þá kemur bernaise-sósa með til að bragðbæta réttinn aðeins. Ekki of mikið, bara rétt til að láta okkur líða eins og matreiðslumenn á 5 stjörnu veitingastað.“
Þriðjudagur – Kremuð blómkálssúpa með klettakáli
„Á þriðjudögum erum við oftast með eitthvað létt að borða því þeir eru annasamasti dagurinn í vikunni hjá fjölskyldunni. Oftar en ekki þá búum við til súpuna á mánudögum til að borða hana á þriðjudagskvöldum af því það vita það allir að súpa er alltaf best daginn eftir.“
Miðvikudagur - Lasagne
„Lasagne er uppáhaldsréttur barnanna okkar. Hann er iðulega kallaður Lanjasanja. En þegar við viljum gera vel við okkur sleppum við rifna ostinum yfir réttinn og setjum gráðost í staðinn, passið ykkur ef þið prófað það, það er ávanabindandi.“
Fimmtudagur – Rjómalagað pasta á 20 mínútum
„Pasta er fimmtudags. Við hjónin trúum því að pasta geti læknað allan heiminn. Þessi réttur getur hreinlega ekki klikkað.“
Föstudagur - Pítsakvöld
„Við hjónin fjárfestum nýverið í pítsaofni sem við vorum búin að safna fyrir í þó nokkurn tíma. Hann er algjör draumur og pítsurnar sem við búum til, það eru ekki bara pítsur – það kvöldverður matarguðanna.“
Laugardagur – Lærissneiðar í raspi
„Lærissneiðar í raspi er málið. Þetta er besti réttur í heimi og ég vona að konan mín lesi ekki þessa línu, því mamma mín býr til langbestu lærissneiðarnar í raspi, svo það væri auðvitað mikill skellur að segja konunni minni þetta.“
Sunnudagur – Kjúklingur í mangó-chutney
„Því meira mangó chutney, því betra. Við fjölskyldan erum miklir mangó-chutney unnendur og allir réttir með því eru í miklu uppáhaldi. Hins vegar bætum við karrí við eftirfarandi rétt því allir vita að karrí er best með öllu, reyndar hvítlaukur líka.“