Ágúst Þór Brynjarsson tónlistarmaður ljóstrar upp skemmtilegum staðreyndum um matarvenjur sínar að þessu sinni. Hann er mikill sælkeri og hefur mikið dálæti af brönsréttum.
Síðustu vikur og dagar hafa verið annasamir hjá Ágústi en hann er einn af keppendunum sem eru að keppa í Söngvakeppninni 2025. Hann stígur á svið í fyrri undanúrslitunum á laugardaginn, 8. febrúar næstkomandi. Hann er 25 ára gamall og búsettur á Akureyri.
„Sviðsnafnið mitt er ÁGÚST og ég starfa sem tónlistarmaður. Ég er að syngja með tveimur hljómsveitum, Stuðlabandinu og Færibandinu frá Akureyri, ásamt því að vinna í mínum sóló ferli sem ÁGÚST. Það heldur betur í fullum gangi með þátttöku minni í Söngvakeppninni,“ segir Ágúst sem er orðinn mjög spenntur fyrir laugardagskvöldinu.
Hann deilir hér með lesendum matarvefsins skemmtilegum staðreyndum um matarvenjur sínar.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Ég fæ mér eiginlega aldrei morgunmat. Ég er samt svakalegur bröns-karl. Ég elska góðan bröns með fjölskyldunni eða vinum. Egg og beikon, löðrandi síróp á pönnukökur og jarðarber með ferskum safa eða svörtu kaffi. Það má segja að ég vilji annaðhvort allt eða ekkert í morgunmatsgeiranum.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Ég er rosa innstilltur í alls konar próteinstykkjum þessa dagana, ég er alltaf að grípa próteinstykki úr búðarhillunum og prófa ýmiss konar brögð því nóg er nú til af þessum „hollu“ stykkjum.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Já, mér finnst það. Aðallega vegna þess að hann er oftar en ekki fyrsta máltíð dagsins hjá mér svo hann er algjörlega ómissandi.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Ég á alltaf til bláa Hleðslu. Ég drekk ávallt eina Hleðslu á dag að minnsta kosti og gríp með mér „six pack“ af henni í hverri einustu búðarferð.“
Borðar þú þorramat?
„Mér finnst sorglegt að segja það sem Aðaldælingur og stoltur landsbyggðargómur, að ég borða ekki þorramat, ekki neinn einasta. Ég gæti falið mig á bak við það að hangikjöt er nú ávallt á boðstólnum á þeim blótum sem ég hef farið á, borða ég. En ég ætla nú ekki að fara setja það á sama stall og þennan hefðbundna þorramat.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Það er minn uppáhaldsveitingastaður heima á Akureyri, Múlaberg. Frábær matur og geggjuð aðstaða, ég elska að sitja í sófunum þar með mínum bestu vinum og tuða þar í alltof langan tíma.“
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Ég er á döðluvagninum þegar kemur að því að velja hvað á að setja á pítsurnar sem finnst mér vera endalaus barátta því þar eru ekki allir sammála mér. Mér er í raun alveg sama hvað er sett á pítsurnar, svo lengi sem það eru döðlur og þá er ég sáttur. Ég veit ekki hvað það er en mér finnst bara döðlur á pítsur óendanlega góð blanda.“
Hvað færð þú þér á pylsuna þína?
„Það myndi vera steiktur og hrár laukur, tómatsósa og pylsusinnep. Svo ef ég skelli mér í pylsu á einhverri N1-stöð þá hef ég hina rosalegu hefð að setja alltaf sósu ofan á sem heitir „pylsusósa“. Ég veit ekki enn þá hvernig sósa það er og hvað er í henni, og ég hef ekki heldur rekist á hana í búðum svo það er alltaf svona bónus þegar hún dettur inn.“
Hver er uppáhaldsrétturinn þinn?
„Gamlárskvöldskalkúninn og upprúllaði brauðhumarinn hjá tengdó er bara eitthvað sem ég á erfitt með að ræða. Blanda af sorg, reiði og tómleika blússar upp þegar ég átta mig á því að þetta er matarviðburður sem er bara einu sinni á ári, ólýsanlega gott.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Þessi spurning er djúp en samt svo einföld. Þegar ég byrja að pæla í því þá held ég að kartöflurnar lendi oftar á disknum en salat. Það er sennilega sveitaeðlið í mér sem tekur yfir þar.“
Finnst þér súkkulaði gott?
„Já, mér finnst súkkulaði mjög gott. Ég held að ég hafi aldrei hitt manneskju sem finnst súkkulaði vont, eru þær til?“
Hefur þú borðað á Michelin-stjörnuveitingastað?
„Það hef ég aldrei gert. Það væri alveg pottþétt gaman að prófa en ég er samt alls ekki þannig matgæðingur að mér finnist ég þurfa að gera það. Ég er meira fyrir að borða hratt og fara að gera eitthvað skemmtilegt. Þeir sem þekkja mig vita að ég er ekki beint maðurinn sem er til í að sitja kyrr og njóta. Ég er meira fyrir að vera í stanslausu stuði svo að maturinn sjálfur er sjaldnast aðalatriðið hjá mér, sem ég geri ráð fyrir að sé á Michelin-veitingastöðum.“
Hver er uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Ég verð að segja að minn uppáhalds sé ískaldur lite-bjór á krana, hjá mínum allra bestu Skógarböðunum á Akureyri. Umhverfið og hitinn gerir kalda bjórinn bara eitthvað svo miklu betri,“ segir Ágúst og er á hraðferð á næstu æfingu en bætir við:
„Að lokum langar mig að biðja lesendur til að stilla á RÚV næstkomandi laugardagskvöld þegar Söngvakeppnin hefst og svo er um að gera að skella í atkvæði á 900-9903.“