Kaffihúsið Kaffi Grund var opnað í nýjum garðskála, sem snýr að Hringbraut í Reykjavík og tengist aðalbyggingunni, skömmu fyrir nýliðin jól. Það er sérstaklega hugsað fyrir íbúa og aðstandendur þeirra en jafnframt opið fyrir aðra gesti, að sögn Karls Óttars Einarssonar, forstjóra Grundarheimilanna frá 2023.
Grund er elsta heimili landsins fyrir aldraða, var tekið í notkun 29. október 1922 og verður því 103 ára í haust. Haraldur Sigurðsson var fyrsti framkvæmdastjórinn. Gísli Sigurbjörnsson tók við eftir andlát hans og var forstjóri 1934 til dauðadags 1994. Guðrún Birna Gísladóttir tók við af föður sínum. Gísli Páll Pálsson var framkvæmdastjóri í Ási og forstjóri í Mörk samhliða Guðrúnu og svo forstjóri allra Grundarheimilanna 2019 til 2023 en hefur verið starfandi sem stjórnarformaður síðan. Karl Óttar vekur athygli á að þótt Grundarheimilunum hafi verið stýrt af sömu fjölskyldunni sé Grund sjálfseignarstofnun. „Hún á sig sjálf, allar eignirnar nýtast í öldrunarþjónustu og ekki er hægt að greiða út arð.“
Karl Óttar bendir á að mörg herbergi á Grund séu lítil og rými til að taka á móti mörgum gestum af skornum skammti, en unnið sé að því að breyta aðstöðinni í átt til nútímakrafna. Í tengslum við aldarafmælið hafi sú hugmynd verið rædd að bæta úr aðstöðunni. „Við byrjuðum fyrst og fremst á því að hugsa um heimilisfólkið og gesti þess,“ segir Karl Óttar. „Við vildum gefa fólkinu kost á þessari tilbreytingu, að geta farið saman á kaffihús. Þetta tengist líka Eden-hugmyndafræðinni okkar, sem snýst um að fólk haldi sjálfstæði sínu og reisn. Það gefur íbúunum mikið að geta boðið fólkinu sínu á kaffihús.“
Samkvæmt Eden-hugmyndafræðinni er lögð áhersla á að vinna gegn einmanaleika og vanmætti og leiða með nánd, samveru, stuðning og gleði að leiðarljósi. „Hún byggist líka á tengingum við samfélagið sem við búum í, meira lífi,“ útskýrir Karl Óttar. Kaffihúsið auki möguleika á að fá fleiri í heimsókn, eins og til dæmis fólk með börn, og fjölbreytileikinn verði því meiri. „Það hefur mikið gildi fyrir fólkið okkar að fylgjast með öðrum.“
Suðurgarðurinn hefur ekki nýst nægilega vel, þar sem aðgengi út í hann hefur aðeins verið að norðanverðu, en með garðskálanum er komin opin leið út í garðinn, þar sem gestir geta setið í góðu veðri. „Þetta er mikil og jákvæð breyting,“ segir Karl Óttar en í garðskálanum eru sæti fyrir 30 manns og þeim má fjölga ef vill. Kaffihúsið er opið alla daga frá klukkan 13.00 til 17.00 og var afgreiðslutími kaffihússins Kaffi Markar á hjúkrunarheimilinu Mörk á Suðurlandsbraut hafður til hliðsjónar. „Þessi tími hefur virkað ágætlega þar,“ segir Karl Óttar, en Kaffi Mörk var tekið í notkun 2019.
Boðið er upp á smurt brauð og kökur auk heitra og kaldra drykkja, en vínveitingaleyfi er í vinnslu. Starfsfólk eldhússins og verslunarinnar sinnir þjónustunni. Bakari er í eldhúsinu á hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði. „Hann sér um bakstur á öllu brauði og bakkelsi, bæði fyrir kaffihúsin og hjúkrunarheimilin,“ upplýsir Karl Óttar.