Rósasalat er fallegt salat og bragðgott salat og er í raun eins og rós. Íslenskanafnið er dregið af útliti þess þar sem lögun blaðanna og myndun salathöfuðsins svipar mjög til rósaknúps.
Rósasalat nefnist á latnesku lactuca var. capitata, einnig betur þekkt sem Butter lettuce á ensku eða Smjörsalat á íslensku. Það eru hjónin Magnús Skúlason og Sigurlaug Sigurmundsdóttir á garðyrkjustöðinni Hveratún sem rækta þetta fallega rósasalat sem gaman er að nota í alla salatgerð og svo miklu meira.
Þetta fallega og bragðgóða salat hentar til að mynda mjög vel á hamborgarann eða samlokuna og að sjálfsögðu í salatskálina með öðru grænmeti. Svo er það fagurt þegar framreiða á rækjukokteil, hvort sem það er klassíski gamli rækjukokteillinn eða nýstárlegur með risarækjum. Svo er kosturinn við Rósasalatið að það geymist mjög vel, að minnsta kosti 15 daga í kæli.
Garðyrkjustöðin Hveratún er í Laugarási en þar stunda hjónin Magnús og Sigurlaug grænmetisrækt. Magnús ólst upp í Hveratúni en foreldrar hans, Skúli Magnússon og Guðný Pálsdóttir, hófu ræktun þar árið 1946.
„Það lá beinast við að ég tæki við af foreldrum mínum, en er yngstur í systkinahópnum. Við Sigurlaug urðum meðeigendur í garðyrkjustöðinni árið 1983 og tókum svo alveg við árið 2004,“ segir Magnús.
„Við erum að rækta nokkra vöruflokka og má þar nefna klettasalat, íssalat, grandsalat, rósasalat og steinselju. Við stundum vatnsrækt en þá vex grænmetið í fjótandi næringarlausn í gróðurhúsunum. Jarðhiti er á svæðinu og eru gróðurhúsin sex hituð upp með hveravatni. Við notum eingöngu lífrænar varnir við ræktunina,“ segir Sigurlaug.
Grænmetið í Hveratúni er tekið upp með höndum og fer beint til neytenda sama dag og því er pakkað. Fjölskyldan vinnur saman að garðyrkjunni og á sumrin bætist við starfsfólk.
Fyrir það sem langar að fá sér gott salat þar sem rósasalatið fær að njóta sín til fulls er hér uppskrift að ljómandi góðu frönsku antipasti með rósasalati sem kemur úr smiðju Nönnu Rögnvaldar uppskriftahöfundar með meiru. Salatið er bæði gott sem forréttur eða léttur aðalréttur.
Frönsk antipasti með rósasalati
Rósasalat
3-4 íslenskir tómatar, vel þroskaðir
1-2 íslenskar paprikur, ferskar eða grillaðar
2 – 3 harðsoðin egg
½ Höfðingi, Dala-brie eða annar ostur
Hráskinka eða annað kjötálegg í sneiðum
Grænar eða svartar ólífur
½ knippi fersk basilika
Nýmalaður pipar
Sjávarsalt
Aðferð:
Byrjið á því að rífa rósasalatið í sundur, gott er að taka blöðin heil af, skolið og þerrið. Raðið síðan blöðunum á stóran, kringlóttan disk eða fat.
Skerið tómatana í báta, paprikurnar í ræmur, eggin í báta og ostinn í bita.
Hafið hráskinkuna eða kjötáleggið í sneiðum eða rifið niður í ræmur.
Raðið öllu ofan á salatblöðin og setjið basilikuknippi í miðjuna.
Kryddið til með pipar og sjávarsalti og berið fram með góðu brauði.