Þessar pítur verður þú að smakka – lostæti að njóta

Æðislegar pítur úr smiðju Völlu Gröndal sem allir geta gert.
Æðislegar pítur úr smiðju Völlu Gröndal sem allir geta gert. Ljósmynd/Valgerður Gréta Gröndal

Valgerður Gréta Gröndal, alla jafna kölluð Valla, er snillingur að matreiða rétti sem slá í gegn. Hún gerði til að mynda þessar æðislegu pítur á dögunum sem slógu rækilega í gegn hjá heimilisfólkinu og sósan gerði útslagið. 

„Ég er reglulega með kjötlausan kvöldmat sem er nú ekkert fréttnæmt í sjálfu sér en ég veit hins vegar fátt betra en þegar hann er einfaldur og fljótlegur líka,“ segir Valla.

„Kjúklingabaunir í dós eru í miklu uppáhaldi vegna þess að þær bjóða upp á endalausa möguleika. Hvort sem það er hummus, pottréttir, fyllingar í vefjur og pítur, ristaðar ofan á salat eða sem snakk og jafnvel sem uppistaða í köku þá eru þær bara bestar,“ segir Valla og bætir við að hvítlaukssósan sé algjörlega ómissandi að hennar mati. Hægt er að fylgjast með Völlu r.

Pítur með shawarma-kjúklingabaunafyllingu og heimagerðri hvítlaukssósu

Fyrir 4

  • 1 dós lífrænar kjúklingabaunir frá Rapunzel
  • 1 msk. olía
  • ½ rauðlaukur, skorinn smátt (hinn helmingurinn notaður síðar)
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • 1 msk. shawarma-krydd (fæst frá nokkrum framleiðendum, skiptir ekki öllu máli hvaðan)
  • Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
  • 2 msk. söxuð fersk steinselja
  • 15 cm bútur af gúrku, skorinn í smáa bita
  • 2-3 tómatar, skornir í bita
  • 1/2 rauðlaukur (hinn helmingurinn) skorinn í þunnar sneiðar
  • Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
  • 4 pítubrauð
  • Heimagerð hvítlaukssósa (sjá uppskrift fyrir neðan)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að gera hvítlaukssósuna og setjið hana í kæli á meðan það sem eftir er græjað.
  2. Saxið rauðlaukinn og setjið olíu á pönnu og steikið rauðlaukinn við meðalhita, varist að brenna hann.
  3. Látið vatnið renna af baununum og bætið þeim út á pönnuna ásamt mörðum hvítlauknum.
  4. Kryddið með shawarma-kryddi og salti og pipar. Bætið við kryddi ef ykkur finnst þess þurfa. Steikið baunirnar þar til þær eru heitar í gegn og farnar að brúnast aðeins.
  5. Saxið grænmetið og hitið pítubrauðin.
  6. Þegar baunirnar eru tilbúnar, setjið þær í skál ásamt gúrku, tómötum, rauðlauk og ferskri steinselju.
  7. Skerið brauðin í tvennt og fyllið með kjúklingabaunafyllingunni, berið fram með hvítlaukssósunni.

Heimagerð hvítlaukssósa

  • 4 msk. majónes
  • 3 msk. grísk jógúrt
  • 2 tsk. sítrónusafi
  • 1 msk. tahini
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 1 tsk. hunang
  • 1 tsk. óreganó
  • 1/2 tsk. dill
  • 2 tsk. steinselja, þurrkuð

Aðferð:

  1. Setjið majónes og jógúrt í skál og hrærið saman.
  2. Bætið því sem eftir er af innihaldsefnunum út í og hrærið. Best er að sósan fái að taka sig í kæli í að minnsta kosti 30 mínútur áður en hún er borin fram.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert