Ástríða Anthony fyrir tryllitækinu birtist í matreiðslubókinni

Matreiðslubókin Létt og loftsteikt eftir Nathan Anthony varð í raun …
Matreiðslubókin Létt og loftsteikt eftir Nathan Anthony varð í raun til eftir heimsfaraldurinn. Ljósmynd/Aðsend

Eins og fram hefur komið á matarvefnum kom út matreiðslubókin Létt og loftsteikt í Air Fryer sem á án efa eftir að slá í gegn hjá þeim sem eiga loftsteikingarpott, eða eins og hann heitir á ensku Air Fryer.

Höfundur bókarinnar, Nathan Anthony, er þekktur matgæðingur á samfélagsmiðlum. Hann hefur slegið í gegn á samfélagsmiðlum undir nafninu Bored of Lunch. Þar deilir hann einföldum og ómótstæðilegum kræsingum með fylgjendum sínum sem hafa náð miklum vinsældum og lyft þessu undratæki, loftsteikingarpottinum, á hærri stall.

Undirrituð lék forvitnin að vita hvað kom til að Anthony ákvað að gefa út þessa matreiðslubók og jafnframt hvað það er sem heillar hann við þetta tryllitæki, loftsteikingarpottinn.

Byrjaði að birta uppskriftir á Instagram

Hann gaf sér tíma fyrir viðtal og ljóstrar hér upp sögunni bak við útgáfuna og ástríðu hans fyrir loftsteikingarpottum eða Air Fryer.

Hver er tilurðin bak við bókina, hvar fékkstu innblásturinn?

„Ég byrjaði að birta uppskriftir að réttum sem ég lagaði í mínum loftsteikingarpotti á Instagram-síðu minni á meðan heimsfaraldrinum stóð. Á þeim tíma sem ég var í skrifstofustarfi og sinnti þessu samhliða. Fylgjendur jukust ótrúlega hratt á samfélagsmiðlunum hjá mér og greinilegt að margir höfðu sömu ástríðu fyrir þessari matargerð líkt og ég. Sumir vissu samt ekki hvernig þeir ættu að nota þetta tæki og loksins fengu þeir hugmyndir um hvað þeir gætu gert.

Á þessum tíma voru engar matreiðslubækur fyrir loftsteikingarpotta til á markaðnum sem kenndu mér hvernig ég ætti að nota hann svo ég ákvað að skrifa mína eigin uppskriftabók ásamt góðum ráðum. Ég fékk einnig umboð fyrir röð af matreiðslubókum og gef nú út bækur vítt og breitt um heiminn, allt frá Ástralíu til Ameríku og nú Íslands. Það er mjög mikilvægt að geta hjálpað fólki að spara peninga og borða hollara um leið. Það eru forréttindi að geta hjálpað fólki við að gera það. Það má segja að ástríða mín fyrir loftsteikingarpottinum birtist í bókinni.“

Létt og loftsteikt í Air Fryer er nafnið á bókinni.
Létt og loftsteikt í Air Fryer er nafnið á bókinni.

Mest selda bókin

Nú er þetta mest selda matreiðslu- og loftsteikingarbók allra tíma samkvæmt amazon.com. Komu þessar vinsældir bókarinnar á óvart?

„Það kom mjög á óvart að sjá bókina „Bored of Lunch“ verða svona vinsæla og hversu stór fylgjendahópurinn varð á skömmum tíma. Ég trúði því vart. En þegar ég tala við fólk, þá held ég að vinsældirnar séu tilkomnar vegna þess að ég er venjulegur heimakokkur eins og flestir. Ég er með auðveldar uppskriftir sem allir geta gert og með einföldu hráefni.“

Hvaða uppskriftir eru vinsælastar úr bókinni þinni?

„Það er örugglega uppskriftin að stökku chili nautakjöti. Þetta er réttur með léttdjúpsteiktu nautakjöti sem er borið fram með sætri klístraðri hvítlaukssósu, hrísgrjónum eða núðlum. Aðrar uppskriftir sem hafa slegið í gegn eru pylsurúllubitarnir og rækjubrauðið. Þér líður eins og þú sért að fá alvöru upplifun fyrir bragðlaukana þegar þú ert að njóta matarins án þess að vera að borða óhollt. Lesendur mínir elska örugglega hollari „take away“-uppskriftir.“

Sparar tíma og peninga

Af hverju ætti fólk að nota loftsteikingarpott frekar en venjulegan bakaraofn eða djúpsteikingarpott?

„Þetta er virkilega tilkomumikið tæki sem sparar þér tíma og peninga. Loftsteikingarpottur eða Air Fryer loftsteikir ekki aðeins, heldur getur hann líka bakað, steikt, hitað upp og sumar tegundir bjóða upp á prógram sem getur þurrkað mat. Þú getur líka komist í burtu án þess að forhita hann auk þess sem þú þarft ekki að bíða eftir að ofninn þinn hitni eftir langan vinnudag.“

Hverjir ættu að lesa og eignast þessa uppskriftabók?

„Allir sem vilja gera máltíðir sínar auðveldari og þeir sem vilja reyna að vera ævintýralegir með Air Fryerinn sinn og prófa nýja hluti. Ég held að þið á Íslandi eigið eftir að elska að prófa þessar uppskriftir. Ég er mjög spenntur fyrir útgáfunni hér á landi og hlakka til sjá ykkur öll búa til þessar frábæru uppskriftir í ykkar loftsteikingarpotti eða eins og við segjum á ensku Air Fryer.“

Fisk-tacos með sítrónu- og límónubragði

Anthony gefur lesendum matarvefsins uppskrift að Fisk-tacos sem er að finna í matreiðslubókinni hans og steinliggur í kvöldverð þegar líður á seinni hluta vikunnar.

„Ég er stórhrifinn af tacos og ef ég má velja fyllinguna nota ég alltaf þorsk. Mér finnst þessi réttur einstakt ljúfmeti, sítrónu- og límónubragðið gerir hann svo frísklegan. Þú getur leikið þér á ýmsan hátt með þessa uppskrift, breytt aðalhráefninu og notað annan fisk, kjöt eða kjúkling eða eingöngu grænmeti. Möguleikarnir eru ótæmandi,“ segir Anthony að lokum.

Ómótstæðilega ljúffengt fisk-tacos sem leikur við bragðlaukana.
Ómótstæðilega ljúffengt fisk-tacos sem leikur við bragðlaukana. Ljósmynd/Aðsend

Fisk-tacos

Fyrir 4 – gerir 8 tacos

Fiskur

  • 600 g þorskflök
  • 300 ml vatn
  • 1 egg
  • 180 g hveiti
  • 1 tsk. lyftiduft
  • 1 tsk. sítrónupipar eða rifinn sítrónubörkur
  • salt og pipar eftir smekk

Sósa

  • 6 msk. léttmajónes
  • 3 msk. grísk jógúrt
  • 2 msk. srirachasósa
  • 1 tsk. paprikuduft
  • 1 tsk. hvítlauksduft

Að auki

  • tacoskeljar, mjúkar eða harðar
  • salatblöð tómatar rauðlaukur kóríanderlauf
  • guacamole

Aðferð:

  1. Kryddið fiskinn með salti og pipar eftir smekk.
  2. Hrærið saman vatni, eggjum, hveiti, lyftidufti og sítrónupipar eða börk í skál.
  3. Veltið fiskinum upp úr blöndunni og steikið hann svo í forhituðum potti við 200°C í 14–16 mínútur.
  4. Það er mikilvægt að potturinn sé vel heitur þegar fiskurinn fer í hann.
  5. Athugið eftir um 10 mínútur hvort nokkuð sé að brenna, ég steiki hann oftast í 15 mínútur.
  6. Á meðan skulu þið hræra allt sem fer í sósuna saman í skál og undirbúa meðlætið.
  7. Setjið fisk, grænmeti og guacamole í taco-skeljarnar og dreypið sósu yfir.
  8. Berið fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert