Penicillin einstaklega ferskur viskíkokteill fyrir lengra komna

Penicillin er án efa einn vinsælasti „nýlegi“ kokteill veraldar og …
Penicillin er án efa einn vinsælasti „nýlegi“ kokteill veraldar og er í dag fáanlegur um allan heim. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Helgarkokteillinn, Pencillin, er fyrir lengra komna og sérstaklega fyrir þá sem hafa dálæti af viskíi.

Kokteillinn var búinn til af barþjóninum Sam Ross rétt eftir aldamótin síðustu á kokteilbarnum Milk & Honey í New York. Milk & Honey var stofnaður af Sasha Petraske heitnum, sem er talinn einn áhrifamesti barþjónn seinni tíma. Penicillin er án efa einn vinsælasti „nýlegi“ kokteill veraldar og er í dag fáanlegur um allan heim.

Engifer, sítróna og hunang eru í kokteilnum

Penicillin er einstaklega ferskur viskíkokteill. Engiferið, sítrónan, hunangið og tvö mismunandi skosk viskí gefa Penicillin flókið bragð en þó ná allar mismunandi bragðtegundirnar að skína vel í gegn. Í hann eru notuð við tvö mismunandi skosk viskí, annað þarf að vera mild, ljúf blanda eins og Johnnie Walker Black Label en hitt reykt eyjaviskí. Þegar kemur að reyktum skota er Talisker 10 ára fullkomið í þennan drykk.

Uppskriftin kem­ur úr kokteila­bók­inni Heima­bar­inn eft­ir þá Andra Davíð Pét­urs­son og Ivan Svan Corwasce barþjóna en í bók­inni er að finna fjöl­marga girni­lega kokteila og drykki sem eiga sér sögu.

Penicillin

  • 50 ml skoskt viskí
  • 25 ml sítrónusafi
  • 25 ml hunangssíróp (80% hunang á móti 20% af heitu vatni, blandað saman)
  • 15 ml engifersafi
  • barskeið Talisker 10 ára
  • Klaki eftir þörfum

Skraut

  • sítrónubörkur eða engifer

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin nema skrautið í hristara, fyllið hann alveg upp í topp með klaka og hristið hressilega í 10–15 sekúndur eða þar til hristarinn er orðinn vel kaldur.
  2. Streinið þá drykknum í gegnum sigti í viskíglas fyllt með ferskum klaka og skreytið með ferskri engifersneið og/eða sítrónuberki.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert