„Ég lifi til að borða ekki öfugt“

Vigdís Másdóttir er mikill nautnaseggur og elskar að útbúa mat. …
Vigdís Másdóttir er mikill nautnaseggur og elskar að útbúa mat. Hún gæti ekki hugsað sé lífið án matar. mbl.is/Karítas

Vigdís Másdóttir, kynningar- og markaðsstjóri Mekó, er mikill nautnaseggur og elskar að útbúa mat. Hún er áhugakokkur og menningarneytandi að eigin sögn.

„Ég lifi meira til að borða ekki öfugt, ég elska að útbúa mat, gefa góðu fólki að borða og njóta þess að hverfa inn í heim hráefna og dunda mér í eldhúsinu. Oft er ég þar í marga klukkutíma. Ég fæ mikla útrás fyrir sköpunarþörfina í eldhúsinu og oftar en ekki er ég að prófa mig áfram með ákveðin krydd, áferð og samsetningar. Það fyllir mig ró og gleði þegar vel tekst til, sem er auðvitað ekki alltaf,því er ávallt sérstök spenna sem fylgir því að prófa eitthvað nýtt,“ segir Vigdís dreymin á svip.

„Þar sem geðheilsumál eru sem betur fer í umræðunni í dag, vil ég nota tækifærið og hvetja ykkur öll til þess að vera dugleg að leika og eldhúsið er frábær staður til þess. Að nýta það sem er til í skápunum, maður veit aldrei hvaða ljúfmeti verður til í svoleiðis leik,“ segir Vigdís og glottir.

Fer líka eftir því hvernig veðrið er

Vigdís ljóstrar hér upp sínum skemmtilegu staðreyndum um matarvenjur sínar og uppáhaldsveitingastaði svo fátt sé nefnt.

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Tvíburi með athyglisbrest á ekki auðvelt með að halda í rútínu þó að það sé auðvitað best, þannig að ég er ekki alveg nægilega dugleg að borða morgunmat. Sér í lagi á virkum dögum, þá er það helst soðið egg. Annars á ég það til að fara alla leið um helgar og útbúa dögurð með öllu tilheyrandi og þá fer það algjörlega eftir því í hvernig stuði ég er í. Það fer líka eftir því hvernig veðrið er, hvað er á dagskrá þann daginn og endalausar aðrar breytur. Ég á mjög erfitt með stöðnun og verð sífellt að breyta til og prófa nýja hluti.“

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Þetta er flókin spurning því ég er sjaldnast með fasta matartíma, nema þá fyrir dóttur mína. En ég elska ost, hann verður mjög oft fyrir valinu og svo súkkulaði eða annað nammi, ég er algjör nammigrís. Ég er með aðstöðu í Bókasafni Kópavogs og þar vinna margir sælkerar sem bjóða ávallt upp á eitthvað gúmmelaði á kaffistofunni.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Já, það finnst mér. En ég er reyndar mjög oft á hlaupum í hádeginu, við bjóðum upp á svo marga viðburði í menningarlífinu í hádeginu í Kópavoginum. En menningin er svo nærandi að það skiptir ekki máli að ég borði seint þá daga. Nýja uppáhaldið eru pítsurnar á veitingastaðnum Kronikunni í Gerðarsafni.“

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Egg, ost, og þá alltaf parmesan, límónu eða sítrónu, tómata og hvítlauk. Ég geymi samt yfirleitt með tómatana og hvítlaukinn á eldhúsborðinu.“

Borðar þú þorramat?

„Já og þá eru súru pungarnir í uppáhaldi, það er eitthvað við sýruna sem mér finnst mjög gott, rétt eins og límónur sem ég elska.“

Jómfrúin klassík

Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?

„Ég er eins og veðrið, það breytist mjög ört. Til að mynda er klassík að fara á Jómfrúna – danska ævintýrið svíkur aldrei. Vínstúkan 10 sopar er æði í vinahittinga, þar eru geggjaðir smáréttir, frábær vín og yndisleg þjónusta. Slippurinn, sem er því miður að kveðja í sumar, en þar er virkilega góður og áhugaverður matur. Það verður farin pílagrímsför til Eyja í sumar. Sumac hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér, hráefnin þar eru mjög að mínu skapi.

Mér finnst líka gaman að fara á veitingastaðinn Hjá Jóni á Parliament hótelinu við Austurvöll. Það er virkilega fallegur staður, frábært úrval af kampavínum og fágaður matur. Síðan er risottoið á Kastrup við Hverfisgötu með því betra sem ég hef smakkað á ævinni. Fiskur og franskar á Vegamótum á Bíldudal er ómissandi ef þið eruð fyrir vestan, þar er ferskleikinn í fyrirrúmi. Annars hef ég aldrei verið svikin af eðalmáltíð sem framreidd er af Fanneyju Dóru Sigurjónsdóttir, Leifi Kolbeins og Viðari Reynissyni,“ segir Vigdís með bros á vör.

„Annars ef ég fer aðeins út fyrir landsteinana, til London þar sem Heiðrún Björnsdóttir systir býr, þá myndi ég klárlega nefna Zafferanos, sem hinn magnaði Giorgio Locatelli opnaði 1995 en hann er að vísu ekki lengur viðriðinn staðinn. Dásamleg ítölsk stemning, maturinn dýrðlegur og þjónustan alveg mögnuð, manni líður smá eins og nonna, sem þýðir amma á ítölsku, sé í eldhúsinu og maður sitji við borðstofuborðið hennar,“ bætir Vigdís við.

Hvað vilt þú á pítsuna þína?

„Einfaldleika, ekki of mikið, fer alveg eftir því í hvaða skapi ég er í en oftast er það parmaskinka, klettasalat og parmesan.“

Hvað færð þú þér á pylsuna þína?

Þá er það ein með öllu, en lítið af hráum.“

Elskar ostrur og kampavín

Hver er uppáhaldsrétturinn þinn?

„Mjög erfið spurning, þetta er eins og þurfa að gera upp á milli barnanna sinna. Ég elska ostrur og kampavín, var að taka eftir því á matseðlinum á Brut en á eftir að prófa þar, sem ég efa ekki að verði gott eins og allt sem þau bjóða upp á. Ég er klárlega á leiðinni þangað. Núna í vetrarkuldanum væri ég alveg til í nýbökuð hveitibrauðin hjá ömmu Esther á Patró, með miklum osti og bragðmiklu kaffi.“

Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?

„Eins og ávallt þá er það háð stemningu, hvar og hvenær en bæði jafn gott.

Finnst þér súkkulaði gott?

„Almáttugur, já og þá í öllu formi.“

Hefur þú borðað á Michelin-stjörnustað?

„Já, sem er alltaf upplifun en mér finnst miklu skemmtilegra, og oftast betra fyrir budduna, þegar ég fer erlendis að leita uppi „Bib Gourmand“-staði, það er yfirleitt eitthvað nýtt og mjög spennandi. Ég mæli eindregið með því.“

Hver er uppáhaldsdrykkurinn þinn?

„Það er fátt sem slær íslenska vatninu við, við erum mjög heppin með það. Kampavín á alltaf við, hægt er að para það við næstum allan mat og öll tækifæri og er svo fjári gott. En það verður að vera þurrt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert