Ástríðukokkurinn Daníel býður upp á marokkóskar Kefta-kjötbollur í pítubrauði

Ástríðurkokkurinn Daníel Már Kristinsson á sér fyrirmynd í þegar kemur …
Ástríðurkokkurinn Daníel Már Kristinsson á sér fyrirmynd í þegar kemur matargerð en það er Claus Meyer einn af meðstofnendum að stjörnuveitingastaðnum Noma í Kaupmannahöfn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Daníel Már Kristinsson, viðskiptafræðingur hjá Indó-sparisjóði og stærðfræðinemi, er með mikla ástríðu fyrir mat, bakstri og jiujistu. Hann er matgæðingur fram í fingurgóma og fær innblásturinn sinn gjarnan í matreiðslubókum og veitingastöðum sem hafa heillað hann með ljúffengum matarupplifunum.

Hann gefur lesendum matarvefsins uppskriftina að sínum uppáhaldsrétti þessa dagana sem eru marokkóskar Kefta-kjötbollur sem bornar eru fram í heimagerðu pítabrauði með dýrðlegu meðlæti og skorar á samstarfskonu sína að taka við keflinu af honum.

„Áhuginn kviknaði snemma í eldhúsinu og bý ég að því að hafa fylgst vel með, því voru mikil tímamót þegar ég náði að fullkomna „fluffy“ amerískar pönnukökur,“ segir Daníel og bætir við að ástríðan fyrir matargerð og bakstri hafi aukist enn frekar eftir að hann fór að halda sitt eigið heimili með kærustunni sinni.

Fyrirmyndin Claus Meyer

Áttu þér fyrirmynd þegar kemur að matargerð?

„Þegar við fjölskyldan bjuggum í Danmörku kynntist ég Claus Meyer og hefur hann verið mikil fyrirmynd í gegnum tíðina þegar kemur að eldamennsku, þess má geta að hann er einn af meðstofnendum stjörnuveitingastaðarins Noma í Kaupmannahöfn. Hann hefur verið mjög virkur í frumkvöðlastarfi þegar kemur að mat, þetta þarf oftast ekki að vera flókið, og fá hráefni eru oftar en ekki lykillinn að góðri uppskrift. Það finnst mér heillandi,“ segir Daníel.

„Þetta myndband hér lýsir Claus Meyer vel, en hér les hann yfir gestum á Hróarskeldu.

Aðspurður segist Daníel ávallt hafa haft gaman af því að matreiða og baka. „Alveg síðan ég man eftir að hafa fullkomnað amerísku pönnukökurnar. Undanfarið hefur baksturinn vakið enn meiri áhuga hjá mér, sérstaklega á meðan heimsfaraldrinum stóð þegar ég byrjaði að prófa mig áfram í súrdeigsbakstri.

Hefur sankað að sér matreiðslubókum

Ég fylgist mikið með matarunnendum á samfélagsmiðlum, og þessa stundina er „Mob“-miðillinn í miklu uppáhaldi hjá mér. Einnig hef ég sankað að mér matreiðslubókum í gegnum tíðina. Ein uppáhaldsbókin mín er Osteria 16, sem inniheldur uppskriftir frá ítalska veitingastaðnum Osteria 16 í Kaupmannahöfn,“ segir Daníel hughrifinn.

Einn af uppáhaldsréttum Daníels þessa dagana eru marokkóskar Kefta-kjötbollur í heimagerðu pítubrauði með heimagerðu tzatziki eða grísku jógúrti, harissa chilli, hummus og léttpikkluðum rauðlauk með tómötum.

Marokkóskar Kefta-kjötbollur í heimagerðu pítubrauði með heimagerðu tzatziki, harissa chilli, …
Marokkóskar Kefta-kjötbollur í heimagerðu pítubrauði með heimagerðu tzatziki, harissa chilli, hummus og léttpikkluðum rauðlauk með tómötum er uppáhaldsrétturinn hans Daníels. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvað er það sem heillar þig við réttinn og á rétturinn sér sögu?

„Fyrst og fremst er rétturinn einstaklega ferskur. Við kærastan mín byrjuðum að gera þennan rétt þegar við bjuggum í Kaupmannahöfn og vekur hann upp góðar og hlýjar minningar af sumarkvöldum, umkringd einstaklega góðum vinum. Einnig er rétturinn að hluta til einfaldur, en hægt er að skala hann upp og niður með því að bæta við alls konar meðlæti, eins og grísku vatnsmelónusalati með fetaosti og heimagerðu tzatziki.

Marokkóskar Kefta-kjötbollur eru algjört lostæti að njóta í góðum félagsskap.
Marokkóskar Kefta-kjötbollur eru algjört lostæti að njóta í góðum félagsskap. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á hvern viltu skora næst til taka við keflinu af þér og deila með lesendum uppskriftinni að sínum uppáhaldsrétti?

„Ég vil skora á samstarfskonuna mína, Kristbjörgu. Hún er mikill matgæðingur og er alltaf að sýna okkur nýja rétti í vinnunni.“

Girnilegur réttur sem bragð er af.
Girnilegur réttur sem bragð er af. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Marokkóskar Kefta-kjötbollur í heimagerðu pítubrauði með heimagerðu tzatziki eða grísku jógúrti, harissa chilli, hummus og léttpikkluðum rauðlauk með tómötum

Fyrir 4

  • 1 rauðlaukur
  • 250 g kirsuberjatómatar
  • Ferskur sítrónusafi úr hálfri sítrónu
  • Extra virgin ólífuolía eftir smekk
  • Grískt jógúrt
  • Harissa chilli paste
  • Salatblanda fyrir brauðið eða til að hafa á hliðinni
  • 4 heimagerð pítubrauð (sjá uppskrift fyrir neðan) eða tilbúin arab style brauð eða pítubrauð

Kefta kjötbollur

  • 500 g nautahakk (líka hægt að blanda saman 250 g nautahakki við 250 g af lambahakki)
  • 1 lítill rauðlaukur, fín saxaður
  • 1 tsk. kúmin
  • 1 tsk. kóríander-krydd
  • 1 tsk. paprika
  • ½ þumalputta stærð af fersku engiferi, skrælið og saxið fínlega
  • Lítið búnt af fersku kóríander, fínlega söxuðu
  • Sjávarsalt og ferskur pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Ef þið viljið nota grillið, þá mæli ég með að byrja á því að hita það.
  2. Blandið síðan saman öllu innihaldinu fyrir kjötbollurnar í stórri skál og kryddið vel með salti og pipar.
  3. Notið síðan hendurnar til að blanda öllu vel saman, þannig að kryddblandan dreifir sér vel í allt kjötið.
  4. Skiptið síðan kjötinu upp í fjórðunga og skiptið síðan hverjum fjórðungi upp í um það bil 5 kjötbollur.
  5. Þær ættu að vera í minni kantinum þannig að þær komist vel fyrir í pítuna.
  6. Setjið næst allar kjötbollurnar á bökunarfat eða það sem er til og setjið plastfilmu yfir og geymið í ísskáp í um það bil hálftíma.
  7. Skerið einn laukinn í þunnar fínar sneiðar og tómatana í hálft og setjið í skál.
  8. Kreistið sítrónusafanum yfir og setjið tvöfalt magn af ólífuolíu út í.
  9. Hrærið vel saman og látið liggja.
  10. Ef þið eruð að fara að nota pönnu, hitið hana þá á miðlungshita og takið Kefta-kjötbollurnar úr kælinum.
  11. Setjið smá ólífuolíu á Kefta-kjötbollurnar og setjið þær á heita grillið eða pönnuna.
  12. Leyfið þeim að brúnast á sömu hliðinni í smá áður en þeim er snúið við.
  13. Snúið síðan nokkrum sinnum þar til þær eldast jafnt, í um það bil 7 til 10 mínútur eða þangað til þær eru vel eldaðar. Það gæti þurft að gera þetta í tveimur skömmtum ef það er verið að nota pönnu.
  14. Þegar það er búið að elda kjötbollurnar, hitið þá brauðin á heitri þurri pönnu í um það bil 30 sekúndur á hvorri hlið.
  15. Rífið síðan brauðin í tvennt og skerið þau opin með hníf.
  16. Smyrjið síðan jógúrti og harissa chilli í brauðið.
  17. Fyllið síðan með kjötbollum og lauk- og tómatblöndunni.
  18. Berið fram með smá salati til hliðar eða setjið smá salat í pítubrauðið ef vill.

Heimagerð pítubrauð

  • 500 g hveiti
  • 300 g volgt vatn
  • 10 g þurrger
  • 25 g sykur
  • 10 g salt

Aðferð:

  1. Blandið saman ylvolgu vatni og geri í skál.
  2. Bætið síðan við sykri og hrærið vel.
  3. Bætið hveitinu við og hrærið öllum innihaldsefnum saman þar til nánast ekkert hveiti er eftir í skálinni.
  4. Bætið þá við salti.
  5. Takið deigið úr skálinni og hnoðið það á borðplötu.
  6. Hnoðið deigið í höndunum í um það bil 7-10 mínútur eða þar til það verður slétt og fallegt. Ef deigið er þurrt getið þið bleytt hendurnar, hveitið dregur auðveldlega í sig vatnið.
  7. Mótið deigið í kúlu og setið það í skál. Breiðið viskastykki yfir og látið hefast á hlýjum stað þar til það hefur tvöfaldast að stærð.
  8. Skiptið deiginu í 100-120 g bita.
  9. Mótið hverja einingu í þétta kúlu og látið standa í 10 mínútur undir viskastykki.
  10. Notið kökukefli til að fletja út pítubrauðin í um 0,5 cm þykkt.
  11. Látið pítubrauðin lyfta sér á viskastykki í 20 mínútur.
  12. Hitið stóra og sterka pönnu yfir miðlungshita í 3-5 mínútur.
  13. Lækkið hitann í miðlungslágan hita og setjið pítubrauðið á pönnuna með þeirri hlið sem snerti viskastykkið fyrst.
  14. Eftir 10 sekúndur snúðu yfir á hina hliðina. Eftir aðrar 10 sekúndur snúðu til baka. Haltu áfram að snúa pítubrauðinu þar til þú færð fallega vasa inni í brauðinu.
  15. Settu pítubrauðin í körfu eða skál með viskastykki yfir til að koma í veg fyrir að þau þorni eða harðni.
Tómatarnir og rauðlaukurinn passa vel saman.
Tómatarnir og rauðlaukurinn passa vel saman. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert