Halla Gunnarsdóttir formaður VR á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni og valdi hún rétti sem öll fjölskyldan heldur upp á. Hún segir að kunnátta í eldamennskunni hafi ekki verið upp á marga fiska þegar hún var um tvítugt en frá því hafi mikið vatn runnið til sjávar. Sérstaklega eftir að hún og eiginmaðurinn hennar, Sveinn Máni Jóhannesson, hófu sinn búskap og stilltu saman strengi. Í dag eru þau bæði miklir matgæðingar og leggja mikinn metnað í matargerðina og borðhaldið þegar þau halda matarboð.
„Þegar ég flutti að heiman upp úr tvítugu kunni ég nákvæmlega ekkert að elda og hringdi rándýrt símtal í mömmu frá Danmörku til að spyrja hvernig ég ætti að sjóða pasta. Hún sagði mér að setja vatn í pott og pasta með. „Hversu mikið vatn og mikið pasta og seturðu ekki salt og hvað með olíu?“ hrópaði ég í símann örvæntingarfull. Mamma sagði að það væri leiðbeiningar á pakkanum,“ segir Halla og skellihlær.
„Þegar ég svo kynntist mínum ektamanni var ég orðin vel fær í eldhúsinu en hann ferlegur viðvaningur. Ótrúlega mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og í dag erum við þekkt fyrir mikil matgæðingsmatarboð þar sem er setið að borðum tímunum saman og allt krufið sem þarf að kryfja.
Við leggjum mikið upp úr huggulegu borðhaldi. Ég vinn aukastarf í Kokku og þegar vaktirnar eru fáar hætti ég til að borga með mér því ég er sífellt að bæta aðeins í borðbúnaðinn! Ég er til dæmis að safna stelli frá Jars og gef litagleðinni óþarflega lausan tauminn. Það gerir svo mikið fyrir máltíðina að nota fallegan borðbúnað.“
Halla segir að það hafi líka ný upplifun á matartímanum þegar hún var komin í foreldrahlutverkið. „Áður en ég eignaðist börn var ég viss um að ég yrði fyrirmyndaruppalandi í alla staði. Börnin mín myndu læra góða borðsiði áður en þau byrjuðu að labba og innst inni var ég viss um að matvendi væri uppeldisvandamál. Það er því einstaklega gott á mig þegar dætur mínar setjast við matarborð og segja „oj“ og sú yngri var ekki orðin tveggja þegar hún átti til að segja „þetta er ógeslegt“.
En svo inn á milli koma ýmis merki um að uppeldið sé að virka, til dæmis þegar eldri dóttir mín, sem er sjö ára, leggur fallega á borð fyrir matarborð og útskýrir fyrir vinum sínum að þetta sé svona kvöldmatur þar sem við borðum fyrst einn mat og síðan annan og loksins fáum við kannski eftirmat.
Tveimur dögum fyrir matarboð erum við oftast með áform um einfaldleika. En líklega er það bara svo að við elskum vesen í eldhúsinu. Það er alltaf eitthvað nýtt sem okkur langar að prófa og svo flækjum við hlutina eins og við getum. Í fyrsta sinn sem ég gerði bernaise-sósu fannst mér ég til dæmis verða að gera essensinn frá grunni og íbúðin angaði í samræmi við það,“ segir Halla og glottir.
„Hverdagsmáltíðir eru frekar afslappaðar en við leggjum mikið upp úr að setjast til borðs með dætrum okkar og reyna að spjalla við þær, sem gengur svona upp og ofan.“
Starfið hefur átt hug minn allan
Halla hefur staðið í stórræðum eftir að hún tók við nýju hlutverki í vinnunni en hún er, eins og áður hefur komið fram, formaður VR.
„Ég tók við formennsku í VR í október sl. þegar Ragnar Þór Ingólfsson, forveri minn í starfi, fór í Alþingisframboð og tók síðan sæti á þingi. Starfið hefur átt hug minn allan, enda eru viðfangsefnin óþrjótandi. Fyrir utan hin stóru viðfangsefni á borð við að fylgja eftir kjarasamningum, ná niður vöxtum og undirbúa næstu lotu kjaraviðræðna, þá eru fjölmörgmál sem varða kjör félagsfólks sem ég hef lagt áherslu á að fylgja eftir.
Ég er til dæmis í miðjum slag fyrir hönd stjórnar VR til að tryggja að endurgreiðslur til félagsfólks vegna sálfræðikostnaðar séu ekki tekjuskattskyldar og nú nýverið fór ég austur í Fjarðabyggð til að mótmæla mikilli hækkun leikskólagjalda í bæjarfélaginu.
Til að stéttarfélag sé gott og standi undir nafni þurfa ótal þættir að koma saman, allt frá sjúkrasjóði til kjaramálaþjónustu og frá sumarbústöðum til kröftugrar hagsmunagæslu. VR er mjög traust og öflugt félag og ég vona að ég fái umboð til að leiða það áfram,“ segir Halla að lokum einlæg og full eftirvæntingar fyrir framtíðinni.
Halla setti hér saman draumavikumatseðilinn fyrir fjölskylduna sem hún vonar að þau hjónin nái að töfra fram í vikunni.
Mánudagur – Nautalund með bearnaise-sósu
„Áður en ég tók við formennsku í VR var ég alltaf að vinna í Kokku á mánudögum og kom þá ekki heim fyrr en undir hálfsjö á kvöldin. Þá var Sveinn einráður um mat og líklegur til að hafa komið við í kjötbúðinni og keypt eitthvað alltof dýrt, eins og til dæmis nautalund! Þá er ekkert annað en að hræra bernaise og njóta.“
Þriðjudagur - Grjónagrautur
„Á þriðjudegi þarf ég að „kolefnisjafna“ eyðslusemi eiginmannsins og skelli í grjónagraut í ofni, sem börnin elska. Stundum fáum við mjólk beint frá býli og þá er grauturinn einstaklega góður, þó aldrei eins góður og grauturinn sem amma gerði, enda fékk hann að malla í potti lengi á meðan hún stússaði í eldhúsinu. Við skellum lifrarpylsu á borðið og kanilsykri sem er notaður óhóflega.“ Hér eru uppskrift að grjónagraut og það er auðvitað ekki nauðsyn að vera með krækiberjasaftið, það er bara val hvers og eins.
Miðvikudagur – Heimagerður ricotta-ostur
„Eigi ég mjólk frá býli flýti ég mér heim og bý til heimagerðan ricotta-ost. Hæfilega mikið vesen og guðdómlega góður. Hann er æðislegur með rauðrófusalati en líka á ristað brauð.“
Fimmtudagur – Saltfiskur í hvítlaukstómatsósu með svörtum ólífum
„Þegar við giftum okkur héldum við veislu í Iðnó og buðum upp á saltfisk frá Fiskverkun Kalla Sveins á Borgarfirði eystra. Hann var algjört lostæti, þótt Unnur systir mín sé ennþá reið yfir að hafa verið boðið upp á fisk í brúðkaupsveislu. Ef við eigum saltfisk í frystinum finnst mér æðislegt að gera góðan saltfiskrétt á fimmtudegi, einhvern veginn alveg rétta stemningin.“
Föstudagur – Föstudagspítsan með parmaskinku
„Mér finnst föstudagspítsa svo yndisleg hugmynd, en oft erum við svo þreytt eftir vikuna að við spælum bara egg. En á góðum föstudegi er skellt í pítsu og þá með alveg svakalega miklu veseni. Móðurbróðir minn er mikill pítsugerðarmaður og í hans anda er nauðsynlegt að setja deigið saman eftir kúnstarinnar reglum og búa til sína eigin pítsusósu. Skemmtilegast er að leyfa börnunum að raða á pítsuna og þá er útlitið oft meira mál en innihaldið. Ekki sakar að fá sér eitt rauðvínsglas með og borða aðeins meira en hollt getur talist.“
Laugardagur - Indversk veisla
„Á laugardögum erum við oftar en ekki með matarboð fyrir vini eða fjölskyldu. Við segjumst alltaf ætla að hafa þetta einfalt en síðan bætist sífellt við planið og áður en við vitum er Sveinn farinn að græja heimagerðan gelato og ég að baka eitthvert brauð sem ég hef aldrei bakað áður. Ef ég kemst upp með of mikið er sett saman indversk veisla og ég tala látlaust um matreiðslunámskeiðin sem ég hef farið á, bæði hér heima og í Delhi.“
Sunnudagur - Coq au vin
„Sunnudagur er rétti dagurinn fyrir aðeins meira vesen. Mér finnst frábært að malla einhverjar kássur og yfir vetrarmánuðina jafnast ekkert á við. Ég frysti alltaf afgangs-rauðvín sem fellur til á heimilinu þegar ekki tekst að klára úr flöskunni og nota í eldamennsku. Ég veit að sanntrúaðir nota bara Búrgúndí Pinot Noir í Coq au vin og ég merki oft léttari vín sérstaklega fyrir þennan dásamlega rétt. Uppskriftin hennar Juliu Child er góð nema ég myndi alltaf kveikja aðeins í koníakinu. Það er mikilvægt að vera með smá stæla í eldhúsinu.“