Toni Toivanen með einstaka matarupplifun á SKÁL!

Toni Toivanen sem er einn af mest spennandi kokkum samtímans …
Toni Toivanen sem er einn af mest spennandi kokkum samtímans mun bjóða upp á einstaka matarupplifun á veitingastaðnum SKÁL sem á sér enga líka. Ljósmynd/Aðsend

Mikið verður um dýrðir á veit­ingastaðnum SKÁL að Njáls­götu 1 í Reykja­vík á morg­un, mánu­dag­inn 24. fe­brú­ar, og þriðju­dag­inn 25. fe­brú­ar næst­kom­andi, en þá mæt­ir hinn virti Toni Toi­van­en stjörnu­kokk­ur í eld­húsið.

„Við erum mjög spennt fyr­ir pop-up viðburðinum sem fram und­an er á SKÁL þar sem við fáum Toi­van­en sem er einn af mest spenn­andi kokk­um sam­tím­ans. Hann mun vera með okk­ur þessi tvö kvöld og bjóða upp á ein­stak­an smakkseðil þar sem hann mun blanda sam­an nor­ræn­um og japönsk­um bragðupp­lif­un­um,“ seg­ir Gísli Matth­ías Auðuns­son mat­reiðslu­meist­ari og einn eig­andi veit­ingastaðar­ins.

Átti stór­an þátt í ár­angri Noma

Toi­van­en hef­ur áorkað miklu á ferli sín­um, hann var yfir­kokk­ur á tveggja stjörnu Michel­in-staðnum Chez Dom­in­ique í Finn­landi, átti stór­an þátt í ár­angri Noma í Kaup­manna­höfn og stýrði rann­sókn­ar- og þró­un­ar­eld­húsi Inua í Tókýó, sem hlaut tvær Michel­in-stjörn­ur.

„Í dag er hann leiðandi í þróun á POPL í Kaup­manna­höfn og við verðum svo hepp­in að fá að upp­lifa hans frá­bæra mat­ar­gerð í tveim­ur ein­stök­um kvöld­um hér á SKÁL, bæt­ir Gísli við og er orðinn mjög spennt­ur að vera með hon­um í eld­hús­inu.

„Þetta er ein­stakt tæki­færi til að upp­lifa mat­ar­gerðarlist Toi­van­en, sem til­heyr­ir fremstu kokk­um heims, hér á SKÁL. Þar sem þetta er lít­il og eks­klúzív upp­lif­un, er mjög tak­markaður sæta­fjöldi og ég ráðlegg þeim sem lang­ar að koma að bóka sig sem fyrst,“ seg­ir Gísli að lok­um.

Boðið verður upp á ein­stak­an smakkseðil á 14.500 krón­ur með blöndu af nor­ræn­um og japönsk­um bragðupp­lif­un­um, þar sem inn­blást­ur frá Toni í sam­starfi við hina frægu þorskvængi á SKÁL fær að njóta sín.

 

mbl.is
Fleira áhugavert

Matur »

Fleira áhugavert