„Hún er bæði minn helsti smakkari og harðasti gagnrýnandi“

Snorri Guðmundsson veit fátt betra en að vera í eldhúsinu …
Snorri Guðmundsson veit fátt betra en að vera í eldhúsinu að þróa nýja og góða rétti. Hann er á því að ef við æfum okkur, þá getum við eldað. mbl.is/Aðsend

Snorri Guðmunds­son mat­gæðing­ur með meiru á heiður­inn af vikumat­seðlin­um að þessu sinni og býður í sæl­kera­veislu með rétt­um, sem all­ir eru úr hans smiðju. „Lífið mitt hef­ur síðustu tíu árin snú­ist að mestu mestu leiti um mat og því má segja að ég starfi við það sem ég brenn mest fyr­ir,“ seg­ir Snorri Guðmunds­son mat­gæðing­ur og þró­un­ar­stjóri hjá Eld­um rétt. „Ég er oft­ast byrjaður að hugsa um hvað verður í kvöld­mat áður en ég klára morg­un­mat­inn! En ég bý í Kópa­vogi með 6 ára dótt­ur minni, henni Vöku, sem er bæði minn helsti smakk­ari og harðasti gagn­rýn­andi,“ seg­ir Snorri sem hef­ur sér­hæft sig í mat­ar­ljós­mynd­un, mat­ar­stíliser­ingu og upp­skrifta­gerð svo eitt­hvað sé nefnt. 

Mat­ur er helsta ástríðan í lífi Snorra. „Mér líður lang­best í eld­hús­inu að elda eitt­hvað gott og þykir fátt skemmti­legra en að gera vel við mína nán­ustu í mat. Ég held að ég sé samt frek­ar erfiður með að láta hjálpa mér við elda­mennsk­una, því ég vil gera allt á viss­an hátt svo mat­ur­inn líti sem best út. Þar kem­ur full­komn­un­ar­árátt­an hjá mat­ar­ljós­mynd­ar­an­um fram.“

Gald­ur­inn að byrja ró­lega

Ertu góður kokk­ur?

„Ég get með góðri sam­visku sagt að ég geti að minnsta kosti bjargað mér ágæt­lega í eld­hús­inu. Síðast þegar ég at­hugaði var ég bú­inn að þróa um 1500 upp­skrift­ir og það lær­ist ým­is­legt með því.“

Snorri tel­ur alla geta öðlast færni í eld­hús­inu með æf­ing­unni. „Það er með þetta eins og allt annað í líf­inu, þar sem gald­ur­inn er að byrja ró­lega og fylgja góðum ráðum og upp­skrift­um. Með tím­an­um fær maður til­finn­ingu fyr­ir matn­um og get­ur byrjað að fikra sig áfram sjálf­ur. Eitt af því skemmti­leg­asta tengt starfi mínu er ein­mitt þegar maður heyr­ir frá fólki að það sé búið að læra heil­mikið um elda­mennsku út frá upp­skrift­un­um manns,“ seg­ir hann. 

Not­ar sjálf­ur vikumat­seðla

Snorri er sam­mála blaðamanni um að mat­ur sé stór hluti af sjálfs­rækt og það sé mik­il sjálfs­virðing fólg­in í mat­ar­vali okk­ar. „Mat­ur er nær­andi bæði fyr­ir lík­ama og sál og það er fátt betra en að gera vel við sig í mat. Stund­um þýðir það að ein­beita sér að holl­ust­unni og góðri nær­ingu en mér þykir al­veg jafn mik­il­vægt að láta líka eft­ir sér með ein­hverju sér­stak­lega ljúf­fengu. Meðal­hófið er lyk­ill­inn að mínu mati!“

Sjálf­ur not­ar Snorri vikumat­seðla. „Ég vel mér fjöl­breytt­an mat til að hafa vik­una skemmti­legri. Á virku dög­un­um er mjög dýr­mætt að geta reitt fram góða máltíð á stutt­um tíma en þegar kem­ur að helg­inni er auðveld­ara að eyða meiri tíma í kvöld­mat­inn,“ seg­ir Snorri. 

Mánu­dag­ur - Ris­arækjutacos með pico de gallo

„Tacos er eitt af því betra sem ég fæ og ég er sér­stak­lega veik­ur fyr­ir ris­arækjutacos,“ seg­ir Snorri. 

Ris­arækjutacos að hætti Snorra

Risarækju tacos er frábær matur að hafa á mánudögum.
Ris­arækju tacos er frá­bær mat­ur að hafa á mánu­dög­um. mbl.is/​Aðsend

Þriðju­dag­ur - Kimchi bei­kon­borg­ar­ar með spæsí sósu

„Ég er ham­borg­ara­sjúk­ur og hef ham­borg­ara oft­ast í hverri viku. Það tek­ur enga stund að elda ham­borg­ara og það er svo gam­an að leika sér með mis­mun­andi hrá­efni,“ seg­ir Snorri. 

Kimchi bei­kon­borg­ari að hætti Snorra

Miðviku­dag­ur - Steikt­ar ses­am soja­eggjanúðlur með kjúk­ling

„Ég geri mjög reglu­lega eitt­hvað í lík­ingu við þenn­an rétt. Enda er snilld að nota af­gangskjúk­ling ef hann er til. Þá erum við að tala um kvöld­mat á skot­stundu,“ seg­ir Snorri. 

Ses­am soja­eggjanúðlur með kjúk­ling að hætti Snorra

Fimmtu­dag­ur - Bleikja með mangó-sósu

Mér þykir bleikja æði og þá sér­stak­lega með ein­hverju fersku eins og þessu mangó salsa. Gott er að hafa brún hrís­grjón með og gott sal­at. Þetta er rétt­ur sem get­ur ekki klikkað!“

Föstu­dag­ur - Lúx­us hum­ar og nduja pizza

„Eins og sann­ur Íslend­ing­ur þá hef ég pizzu á föstu­dög­um. Það þarf ekk­ert að út­skýra það nán­ar. Pizza á föstu­dög­um er málið!“

Humarp­izza að hætti Snorra

Laug­ar­dag­ur - Hæg­eldaður ít­alsk­ur nauta­pot­trétt­ur

„Á laug­ar­dög­um vil ég gera vel við mig með góðri steik eða ein­hverju hæg­elduðu þar sem maður hef­ur tíma.“

Sunnu­dag­ur - Pönnu­kök­ur með hlyns­íróps-mascarpo­ne kremi

„Á sunnu­dög­um er gam­an að fá fólk í heim­sókn og þá er kjörið að bjóða upp á eitt­hvað gott eins og þess­ar pönnu­kök­ur.“

Pönnu­kök­ur með mascarpo­ne að hætti Snorra

Snorri mælir með pönnukökum með hlynsíróps-mascarpone kremi.
Snorri mæl­ir með pönnu­kök­um með hlyns­íróps-mascarpo­ne kremi. mbl.is/​Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert

Matur »

Fleira áhugavert