Anna Eiríks, deildarstjóri í Hreyfingu og eigandi annaeiriks.is sem býður upp á fjarþjálfun og heilsusamlegar uppskriftir, deilir matarvenjum sínum með lesendum matarvefsins að þessu sinni.
Hún er einnig iðin við að deila með fylgjendum sínum ljúffengum og næringarríkum réttum ásamt æfingahugmyndum á Instagramsíðunni sinni hér ásamt því að vera á TikTok.
Anna elskar mat og sækir almennt í frekar hollan mat. „En ég er svo sælkeri sem elskar súkkulaði og ís. Ég aðhyllist að næra mig á fjölbreyttan og heilnæman hátt með engum boðum og bönnum og elska að fá mér smá trít í hófi, smá svona 80/20 reglan. Borða hollt í 80% tilvika og eiga smá svigrúm fyrir eitthvað gott á móti,“ segir Anna með bros á vör.
„Við þurfum öll að hreyfa okkur til að hugsa vel um heilsuna og næra okkur á heilnæman hátt. Ég hvet ykkur til þess að prófa að æfa með mér frítt í 7 daga á annaeiriks.is til að sjá hvernig ykkur líkar því það er svo þægilegt að æfa undir handleiðslu þjálfara sem segir manni nákvæmlega hvað maður á að gera, ég sé um það og reyni alltaf að hafa mína þjálfun fjölbreytta og skemmtilega.“
Anna svarar hér nokkrum praktískum spurningum um matarvenjur sínar og flettir ofan af nokkrum af sínum uppáhaldshollusturéttum.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Ég elska að fá mér ristað lárperubrauð með eggjahræru ásamt góðum próteinþeyting en ég geri það almennt bara um helgar því á virkum dögum er ég á meiri hraðferð en þá fæ ég mér oft hafragraut eða geri svona yfirnóttu chiagraut sem ég toppa með berjum eða því sem ég á hverju sinni.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Ég fæ mér bara að borða þegar ég er svöng, spái ekkert mikið í það hvað klukkan er en ég hreyfi mig almennt mikið og stundum er ég mjög svöng og aðra daga minna. Ég geri mér próteinþeyting á hverjum degi og stundum er það millimál hjá mér en aðra daga hluti af hádegisverði.
Ég sæki almennt í holla fæðu nema seinnipartinn þegar ég kem heim, þá langar mig alltaf rosalega mikið í súkkulaði og reyni að hemja mig sem gengur misvel samt. Besta trixið er að eiga súkkulaðið ekki til á virkum dögum og fá sér eitthvað hollt eins og girnileg ber, melónu eða aðra ávexti en hitt uppháldsmillimálið mitt er kotasæla, lárpera og harðsoðið egg hrært saman með salti og pipar, það er geggjað gott ofan á hrökkbrauð eða ristað brauð.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Já, ég borða alltaf góðan hádegisverð því það er almennt mín fyrsta stóra máltíð því ég kenni í Hreyfingu á morgnana og í hádeginu og fæ mér bara létt á milli og er því orðin mjög svöng í hádeginu og sleppi þeirri máltíð aldrei. Um helgar er ég meira að vinna með bröns og finnst það algjörlega ómissandi. Ég elska góðan bröns og við förum oft í Brauð og Co og kaupum nýtt súrdeigsbrauð og stundum kanilsnúða, og gæðum okkur á heima. Svona spari þá förum við í bröns á Apótekið, Fjallkonuna eða aðra góða staði en mér finnst það geggjað.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Ískalt sódavatn, ég elska það.“
Borðar þú páskaegg?
„Já, heldur betur, ég elska páskaegg.“
Hver er uppáhaldspáskaeggjategundin þín?
„Nói Siríus með trompbitum, hlakka nú þegar til páskanna.“
Geymir þú málshættina þína?
„Nei, reyndar ekki.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Ég held mikið upp á Tres Locos, hann er með svo geggjaðan mexíkóskan mat sem ég held mikið upp á. Sushi Social er líka einn af mínum uppáhalds og svona „go to“ staður en svo eru staðir eins og Fjallkonan, Rok og Apótekið auðvitað alltaf klassískir.“
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Ég geri heimagerðar pítsur í hverri viku og hef ótrúlega gaman að því að leika mér með alls konar ofan á. Ég held mikið upp á ferska ítalska pítsu með olíu og salti á botninum og svo burrata, tómötum og toppa með ferskri basiliku. Mér finnst mexíkósk kjúklingapítsa líka geggjuð en ég er einmitt með uppskrift að henni á vefnum mínum annaeiriks.is, hún er æðisleg með fersku guacamole og nachosi.“
Hvað færð þú þér á pylsuna þínu?
„Ég borða ekki pylsur, finnst þær bara ekki góðar.“
Hver er uppáhaldsrétturinn þinn?
„Erfið spurning, ég elska svo margt en ef ég þarf að svara þessu án þess að skrifa ritgerð þá segi ég pítsa, sushi og svo jólamaturinn sem er kalkúnabringa með öllu tilheyrandi. Þetta er uppáhaldsmaturinn minn.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Bæði.“
Uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Sódavatn.“