Hrefna toppar sig eina ferðina enn

Hrefna og trifflið.
Hrefna og trifflið. Ljósmynd/Björn Árnason
Það er eiginlega ekki annað hægt en súpa hveljur yfir þessum stórkostlega eftirrétt sem kemur beint úr smiðju Hrefnu Sætran. Hér er hún með trifli sem inniheldur piparkökur, karamellu-brownie og hvítsúkkulaðiostaköku. Er til eitthvað betra?
Þessi uppskrift kemur sjóðheit úr Hátíðamatarblaði Matarvefsins og Hagkaups sem kom út á dögunum og er hægt að dást að og lesa HÉR.
Truflað trifle með piparkökum, karamellu-brownie og hvítsúkkulaðiostaköku
Hvítsúkkulaðiostakakan
  • 680 g rjómaostur
  • 75 g sykur
  • 150 g hvítt súkkulaði
  • 320 ml rjómi

Bræðið hvíta súkkulaðið. Þeytið rjómaostinn og sykurinn saman. Hellið hvíta súkkulaðinu saman við. Blandið svo varlega saman hvítsúkkulaðiblöndunni og þeytta rjómanum. Passið að hafa allt hráefnið vel kalt og geymið í kæli þangað til þið setjið trifle-ið svo saman.

Karamellu-brownie
  • 250 g smjör, mjúkt
  • 250 g sykur
  • 4 egg
  • 65 g kakó
  • 175 g hveiti
  • 3 rúllur Rolo-nammi, skerið hverja karamellu í tvennt

Þeytið smjör og sykur mjög vel saman í hrærivél. Bætið eggjunum, einu í einu, út í og blandið vel saman. Bætið svo kakóinu og hveitinu saman við og loks Rolo-inu eða þeirri karamellu sem þið kjósið (Dumley er líka fínt). Bakið við 170°C í 25 mínútur. Kælið kökuna.

Annað sem þarf í trifle-ið er:
  • Karamellusósa
  • Piparkökur
  • Fullt af berjum

Brjótið nokkrar piparkökur og setjið í botninn á skálinni sem þið viljið bera þetta fram í. Setjið svo helminginn af hvítsúkkulaðiostakökunni þar ofan á og sléttið vel úr. Setjið svo helling af berjum þar ofan á og karamellusósu. Raðið piparkökum í kantinn á skálinni. Skerið brownie-kökuna í bita og raðið þeim ofan á berin. Setjið svo aftur ber þar ofan á. Hvítsúkkulaðiostakakan fer svo þar ofan á og það er efsta lagið. Skreytið svo með piparkökum, brownie-bitum, Rolo og berjum. Það er gott að gera trifle-ið fyrr um daginn og leyfa því að linast dálítið upp en skreyta bara rétt áður en þið berið þetta fram.

Ljósmynd/Björn Árnason
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert