Heill kalkúnn með svívirðilega góðri kalkúnasoðsósu

Sósan er geggjuð.
Sósan er geggjuð. Kristinn Magnússon

Þessi máltíð var elduð fyrir Hátíðarblað Matarvefsins sem unnið var í samstarfi við Hagkaup. Kalkúnninn var borinn fram með dýrindis meðlæti en máltíðin samanstóð af heilum kalkúni með döðlu- og trönuberjafyllingu, heimagerðu rauðkáli, sykurpúðasætkartöflumús og svívirðilega góðri kalkúnasoðsósu.

Heill kalkúnn

  • 5 kg heill kalkúnn
  • 1 stk. laukur
  • 1 stk. grænt epli
  • 1 stk. sítróna
  • timjan
  • rósmarín
  • salvía
Aðferð:
  1. Innvolsið úr kalkúninum er tekið og sett til hliðar fyrir sósuna, lifrinni er hent.
  2. Kalkúnninn er þurrkaður og skinnið losað frá bringunum, en það er gert með því að smeygja hendinni varlega undir skinnið og færa sig smám saman aftar á bringuna.
  3. Þar á milli er síðan smurt um það bil 1/3 af kryddsmjörinu.
  4. Þá er kalkúnninn saltaður og pipraður að innan og utan og allur fuglinn penslaður með restinni af kryddsmjörinu.
  5. Laukurinn, eplið og sítrónan skorið gróflega og sett inn í kalkúninn ásamt kryddjurtunum.

Kryddsmjörið

  • 500 g smjör
  • 6 stk. hvítlauksgeirar
  • 4 greinar rósmarín
  • 4 stórar greinar timjan
  • 4 stórar greinar salvía
  • pipar

Aðferð:

  1. Smjörið brætt í potti, kryddin pilluð gróflega af greinunum, hvítlaukur flysjaður og allt sett út í smjörið, leyft að krauma í 2-3 mínútur.
  2. Þá er kryddsmjörið sett í blandara. Kælt lítillega áður en smurt er á fuglinn. Gott er eða geyma kalkúninn með kryddsmjörinu í kæli yfir nótt, en alls ekki nauðsynlegt.
  3. Þá er kalkúnninn settur í miðjan ofninn á 150°C í um það bil 4 klukkutíma. Gott er að ausa smjörinu og soðinu sem kemur af honum yfir fuglinn á svona 30 mínútna fresti.
  4. Þegar kalkúnninn er klár þarf hann að fá að standa í að minnsta kosti 20 mínútur áður en skorið er í hann.

Kalkúnafylling

  • 2 pk. tilbúin kalkúnafylling með beikoni og döðlum (fæst í Hagkaup)
  • 4 dl þurrkuð kirsuber
  • 3 dl pekan-hnetur

Aðferð:

  1. Pekan-hneturnar eru skornar smátt, ristaðar snöggt á pönnu og blandað saman við fyllinguna ásamt kirsuberjunum.
  2. Síðan er fyllingin hituð upp eftir leiðbeiningum á pakka.
Matarþáttur fyrir jólablað matablaðsins
Matarþáttur fyrir jólablað matablaðsins Kristinn Magnússon

Kalkúnasósa

  • Involsið úr kalkúninum (háls, hjarta og fóarn)
  • 3 stk. hvítlauksgeirar
  • 2 stk. laukur
  • 2 stönglar sellerí
  • 3-4 gulrætur
  • rósmarín
  • timjan
  • salt og pipar
  • kjúklingakraftur/kalkúnakraftur
  • 750 ml rjómi
  • 2-3 msk. Dijon-sinnep
  • 1 msk. trönuberjasulta
  • maizena-mjöl

Aðferð:

  1. Innmaturinn steiktur í frekar stórum potti með olíu, þegar hann er orðinn vel brúnaður er grænmetinu bætt út á ásamt salti og pipar.
  2. Steikt þar til grænmetið er farið að mýkjast vel.
  3. Þá er um það bil 2 lítrum af vatni hellt út á og leyft að sjóða rólega í um það bil klukkutíma.
  4. Þá er soðið sigtað í annan pott, fitan og grugg veitt ofan af og látið sjóða niður um sirka helming.
  5. Þá er rjómanum og sinnepinu bætt út í og þegar það hefur náð suðu er sósunni annaðhvort leyft að sjóða rólega niður í klukkutíma eða smökkuð til og athugað hvort það þurfi aukakraft eða salt og pipar.
  6. Í lokin er sultunni bætt úr í sósuna og hún þykkt með maizena-mjöli.

Uppskriftin kemur úr Hátíðarmatarblaðinu okkar sem unnið var í samstarfi við Hagkaup og hægt er að nálgast HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert