Hér er á ferðinni afar girnileg terta sem fangar aðventuna er hún er lögð á borð. Þessa köku er tilvalið að gera daginn áður en ætlunin er að bera hana fram til að vinna sér í haginn að sögn Vorhús sem deildi uppskriftinni á heimasíðu sinni.
„Við hjá Vorhús erum svo heppnar að eiga vini sem reka fyrirtækið Matlifun og þau sendu okkur þessa uppskrift og smakk sem rann ljúflega niður einn eftirmiðdaginn.“
Aðventukaka með hvítsúkkulaðimús og stökkum botni
Botn
- 70 g fínmalaðar piparkökur
- 50 g sykur
- 2 egg
- ½ tsk. lyftiduft
Hvítsúkkulaðimús
- 320 g safi úr mandarínum
- 3 matarlímsblöð
- 200 g hvítt súkkulaði
- 320 g léttþeyttur rjómi
- 5 piparkökur, muldar
- 1 mandarína
Aðferð:
- Hitið ofninn í 170°C með blæstri.
- Þeytið egg og sykur í hrærivél þar til ljóst og létt.
- Bætið lyftidufti og piparkökum fínmöluðum varlega saman við.
- Setjið í hringlaga form (við notuðum 22 cm form) með bökunarpappír.
- Bakið í 15-20 mínútur.
Hvítsúkkulaðimús
- Setjið matarlímsblöðin í kalt vatn í minnst 5 mínútur.
- Sjóðið mandarínusafann niður til helminga þar til eftir eru 160 g af safa. Þegar safinn er soðinn niður er hvíta súkkulaðið sett saman við, þar næst matarlímsblöðin. Ef blandan byrjar að stífna mikið er hægt að hita hana aðeins á hellu til að ná betri áferð.
- Látið blönduna kólna niður í ca 35°C.
- Blandið 1/3 af léttþeytta rjómanum varlega saman við hvítsúkkulaðiblönduna þar til rjóminn blandast fullkomlega. Því næst er afganginum af rjómanum blandað varlega saman við.
- Klæðið form með plastfilmu að innan.
- Leggið piparkökubotninn neðst og hellið helmingi músarinnar yfir.
- Bætið við léttmuldum piparkökum og 10 niðurskornum mandarínubátum (ca 1 mandarína).
- Hellið restinni af músinni yfir. Látið stífna í ísskáp í minnst sex klukkustundir.