Hreindýralundir með villibráðarsósu með gráðaosti

Kristinn Magnússon

Hér er á ferðinni algjörlega mögnuð máltíð og þá ekki síst kartöflusalatið sem er með því betra sem eldað hefur verið norðan alpafjalla og þótt víðar væri leitað.

Uppskriftin birtist fyrst í Hátíðarmatarblaði mbl og Hagkaups sem helgað var villibráð að þessu sinni.

Hreindýralundir með villibráðarsósu með gráðaosti
Hreindýralundir
  • 500 g lundir
  • 2 stk. hvítlauksrif – kramin
  • 3 greinar rósmarín
  • Olía
  • Smjör
  • Salt
  • Pipar

Aðferð:

Kjötið er þerrað, saltað og piprað. Panna er hituð vel upp með olíunni og hreindýrið sett á hana mjög heita, þegar góður litur hefur komið á kjötið, eftir sirka 1 mínútu, er því snúið við og smjörinu, hvítlauknum og rósmaríngreinunum bætt út á, steikt áfram í sirka 1 mínútu, en tímalengd fer þó alltaf eftir þykkt bitans og hita pönnunnar. Gott er að ausa aðeins af smjörinu yfir kjötið í lokin og taka pönnuna síðan af hitanum og klára að elda kjötið með því að velta því upp úr heitu smjörinu, en ákjósanlegur kjarnhiti er um 55°C.

Ferskt salat með perum, pekanhnetum, geitaosti og granateplum

  • 200 g klettasalat
  • 2 stk. perur
  • 100 g pekanhnetur
  • ½ stk. granatepli
  • 100 g mozzarella-perlur
  • Góð ólífuolía

Aðferð:

Klettasalatið skolað og þerrað. Perurnar skornar, granateplið hreinsað, mozzarella-osturinn sigtaður frá vökvanum og pekanhneturnar ristaðar á pönnu og skornar aðeins smærra. Þá er öllu blandað saman í skál með olíunni, gott getur verið að salta smá yfir.

Besta kartöflusalatið

  • 500 g kartöflur
  • 150 g beikon
  • ½-1 stk. rauðlaukur
  • 4 stk. vorlaukur
  • 1 krukka fetaostur
  • 2 msk. gróftkorna
  • Dijon-sinnep
  • Salt

Aðferð:

Kartöflurnar soðnar í söltu vatni. Þegar þær eru mjúkar í gegn eru þær skornar í helminga eða fjórðunga, fer eftir stærð. Beikonið er skorið smátt og steikt á pönnu þar til stökkt. Rauðlaukurinn og vorlaukurinn skorinn smátt. Fetaosturinn sigtaður frá olíunni og Dijon-sinnepinu er hrært út í olíuna. Þá er kartöflunum, beikoninu, laukunum og fetaostinum blandað saman, smakkað til með fetaosts-dressingunni og salti. Borið fram volgt.

Villibráðarsósa með gráðaosti

  • ½ l vatn
  • 3 msk. villibráðarkraftur
  • 2 ½ dl rjómi
  • 1 msk. rifsberjagel
  • 1 msk. sojasósa
  • Gráðaostur
  • Maizena
  • Sósulitur

Aðferð:

Vatn, villibráðarkraftur, rjómi og rifsberjagel sett saman í pott og soðið niður um ¼. Þá er sojasósunni og gráðaostinum bætt út í. Magn af gráðaosti fer algjörlega eftir smekk, en ég mæli með að setja minna í einu og smakka til og bæta þá frekar út í. Í lokin má svo þykkja sósuna og setja í hana matarlit.

 
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka