Kengúra með camembert-fylltum kartöflum og villisveppasósu

Kristinn Magnússon

Hér erum við með dásamlega máltíð sem tikkar í öll box. Kengúran kemur skemmtilega á óvart – er bæði bragðmikil og meyr. Meðlætið er svo alveg upp á tíu og fremstar þar í flokki eru Camembert kartöflurnar sem þið verðið að prófa.

Upp­skrift­in birt­ist fyrst í Hátíðarmat­ar­blaði mbl og Hag­kaups sem helgað var villi­bráð að þessu sinni.

Kengúra með camembert-fylltum kartöflum og villisveppasósu

Kengúra

  • 500 g kengúra
  • 2 stk. hvítlauksgeirar – kramdir
  • 4 greinar timían
  • Olía
  • Smjör
  • Salt og pipar

Aðferð:

  1. Kengúran þerruð, söltuð og pipruð. Þá er panna hituð upp með olíu og þegar hún er orðin vel heit er kengúran sett á hana og steikt í um það bil mínútu, þá er henni snúið við og smjörinu, timíaninu og hvítlauknum bætt út á og steikt í aðra mínútu.
  2. Sett í eldfast mót með smjörinu og kláruð í ofni á 180°C þar til kjarnhiti nær 55°C, en bitarnir eru mjög misstórir og því erfitt að segja til um eldunartíma.
  3. Hún er að lokum látin standa í að minnsta kosti 5 mínútur áður en hún er skorin.

Aspas með kirsuberjatómötum og geitaosti

  • 2 búnt aspas
  • 1 box kirsuberjatómatar
  • ½ -1 stk. geitaostrúlla
  • 1 ½ msk. balsamik-edik
  • Smjör
  • Salt og pipar

Aðferð:

  1. Byrjað er á því að brjóta endana af aspasnum. Þá er hann steiktur á lágum hita á pönnu með smjöri og salti í um það bil 4 mínútur. Tómatarnir eru skornir í ferninga og dressaðir með balsamik-edikinu, salti og pipar.
  2. Aspasinn er settur á plötu eða í eldfast mót, tómatarnir yfir hann og bakað í ofni á 180°C í um það bil 10 mín.
  3. Um leið og aspasinn er tekinn út úr ofninum er geitaosturinn brotinn yfir og leyft að bráðna.

Camembert-fylltar kartöflur

  • 4 stk. bökunarkartöflur
  • 6 sneiðar beikon
  • 200 g rjómaostur
  • 150 g steyptur camembert-ostur
  • 1 dl rifinn Feykir-ostur
  • 2 tsk. ítölsk hvítlauksblanda
  • Salt og pipar

Aðferð:

  1. Kartöflur bakaðar á 200°C í um það bil 60 mínútur, eða þar til þær eru mjúkar í gegn.
  2. Á meðan er beikonið skorið í litla bita og steikt þar til stökkt. Camembert og Feykir-osturinn er rifinn niður á grófu rifjárni, blandað saman við rjómaostinn, hvítlauksblönduna og beikonið, blandan er þá söltuð og pipruð.
  3. Stór kross er skorinn í kartöfluna og hún kreist svo hún opnist vel, þá er ostablandan sett ofan í kartöfluna og bakað í 5 mínútur í viðbót.

Villisveppasósa

  • 30 g þurrkaðir villisveppir
  • 250 g kastaníusveppir
  • 2 dl rauðvín
  • 5 dl rjómi
  • Villibráðarkraftur
  • Salt

Aðferð:

  1. Leggið þurrkaða sveppi í bleyti í volgt vatn í 20 mínútur, sigtið þá vatnið frá, þerrið þá og skerið smátt. Kastaníusveppirnir eru skornir í sneiðar og steiktir á pönnunni ásamt þessum þurrkuðu.
  2. Þegar sveppirnir eru steiktir er rauðvíninu hellt út á og látið sjóða vel niður, þá er rjómanum bætt út á og hann einnig látinn sjóða aðeins niður, gott er að smakka sósuna þarna hvort það vanti aðeins villikraft út í hana og eða smá salt. Má þykkja með maizena-mjöli ef þarf.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert