Lúxus-wellington að hætti Sælkera-Hinriks

Kristinn Magnússon

Það berast reglulega fregnir af því í aðdraganda hátíðanna að wellingtonsteikur í Sælkerabúðinni séu uppseldar. Við fengum því Hinrik Lárusson, sem á og rekur Sælkerabúðina ásamt Viktori Erni Andréssyni, til að deila með okkur þessari frægustu wellingtonuppskrift landsins ásamt sínu besta meðlæti.

Wellington

  • 400 g nautalund
  • 1 msk. dijon-sinnep
  • 200 g sveppir smátt skornir
  • 1 skalottlaukur smátt skorinn
  • 5 g steinselja smátt skorin
  • 5 sneiðar parmaskinka
  • 1 msk. brauðrasp
  • salt
  • pipar
  • olía
  • smjör
  • plastfilma
  • eggjarauður
  • 20 x 20 cm smjördeig
  • 5 x 20 cm smjördeig

Aðferð:

  1. Kryddið nautalund með salt og pipar eftir smekk, grillið eða steikið á öllum hliðum.
  2. Penslið dijon-sinnepi á lundina og setjið í kæli í 2-3 klst.
  3. Hitið pönnu með olíu og smjörklípu og steikið sveppi og skalottlauk þar til fulleldað.
  4. Bætið næst steinselju út í og smakkið til með salti og pipar.
  5. Setjið filmu á borðið og leggið parmaskinku ofan á til að mynda ferkantað lag, jafn breitt og nautalundin.
  6. Dreifið sveppa-duxelle með spaða ofan á parmaskinkuna og stráið brauðraspi jafnt yfir.
  7. Leggið nautalund í miðjuna á parmaskinkunni og rúllið upp.
  8. Setjið inn í kæli í plastfilmu í 12 klst.
  9. Setjið 20 x 20 smjördeigsörk á boðið og nautalundina vafða í parmaskinku og sveppi þar í miðjuna.
  10. Vefjið upp og skerið aukadeig frá.
  11. Penslið vel með eggjarauðum og lokið báðum endum.
  12. Penslið allt smjördeigið með eggjarauðum.
  13. Skerið út smjördeigsörkina sem er 5 x 20 í munstur að eigin ósk og leggið það yfir smjördeigið.
  14. Penslið aftur með eggjarauðum.
  15. Bakið við 190 gráður með blæstri og eldið upp í 43 gráða kjarnhita, látið standa í 30 mínútur.
Kristinn Magnússon

Hunangsristaðar gulrætur

  • 300 g gulrætur
  • 50 g smjör
  • 40 g hunang
  • salt
  • olía

Aðferð:

  1. Setjið gulrætur í eldfast mót, bætið við smjöri, hunangi og smá olíu og kryddið með salti eftir smekk.
  2. Bakið á 180 gráðum í 20-30 mínútur og hrærið reglulega í þeim svo hunangið brenni ekki.
Kristinn Magnússon

Hvítlauksristaðir sveppir

  • 250 g kjörsveppir
  • 1 hvítlauksgeiri smátt skorinn
  • 5 g steinselja smátt skorin
  • olía
  • smjör
  • salt

Aðferð:

  1. Hitið pönnu að háum hita.
  2. Skerið sveppi til helminga og steikið í olíu þar til eldaðir.
  3. Bætið smjörklípu og hvítlauk út í pönnuna.
  4. Takið af hitanum og bætið steinselju út í, kryddið með salti eftir smekk.
Kristinn Magnússon

Rósmarínkartöflur

  • 400 g smælkiskartöflur
  • 5 g rósmarín
  • 2 hvítlauksgeirar
  • salt
  • pipar
  • olía
  • smjör

Aðferð:

  1. Setjið smælki í eldfast mót og dreifið olíu yfir, kryddið með salti og pipar eftir smekk.
  2. Setjið smjörklípu, rósmarín og hvítlauk í eldfast mót og bakið á 190 gráðum í 40 mín.

 

Kristinn Magnússon
Hinrik Lárusson eldar Wellington betur en flestir.
Hinrik Lárusson eldar Wellington betur en flestir. Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert