Rjúpa með bragðmikilli villibráðarsósu

Bjarki Þór bjó til jólalegt humarsalat, rjúpu og Ris á …
Bjarki Þór bjó til jólalegt humarsalat, rjúpu og Ris á l´amande fyrir tímaritið Hátíðarmat Hagkaup. mbl.is/Eyþór

Bjarki Þór Valdimarsson hefur verið heillaður af mat og matargerð frá því hann man eftir sér. Hann heldur úti samfélagsmiðlinum Matarmönnum þar sem ástríða hans skín í gegn í skemmtilegum uppskriftarmyndböndum. Hann býr í fallegu húsnæði í Reykjanesbæ og var ekki lengi að reiða fram dýrindis rétti í kringum rjúpur sem landsmenn hafa gjarnan á borðum á jólunum. 

Rjúpa með bragðmikilli villibráðarsósu.
Rjúpa með bragðmikilli villibráðarsósu. mbl.is/Eyþór

Rjúpur

  • 8 rjúpubringur
  • smjör til steikingar
  • sjávarsalt
  • pipar

Aðferð:

  1. Byrjið á því að gera sósuna og hafið hana tilbúna til hliðar. 
  2. Hitið ofninn í 200°C blástur. 
  3. Saltið og piprið yfir bringurnar. 
  4. Steikið bringurnar upp úr smjöri á háum hita til að fá fallega brúna áferð, 45-60 sekúndur á hvorri hlið. 
  5. Hellið sósunni í eldfast mót og leggið rjúpurnar í fatið. Inn í ofn í 10-12 mínútur, leyfið þeim svo að hvíla í 5-10 mínútur. Best er að taka þær úr fatinu svo þær haldi ekki áfram að eldast. 

Bragðmikil villibráðarsósa

  • 4 skalottlaukar
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 50 g smjör
  • 1 msk. hveiti
  • 2 bollar villibráðarkraftur í vatni
  • 400 ml rjómi
  • 2 msk. bláberjasulta
  • 2 msk. gráðostur
  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Steikið skalottlauk og hvítlauk upp úr smá smjöri og setjið til hliðar. 
  2. Blandið í kröftugt soð út frá villibráðarkrafti og vatni í pott og hafið á miðlungsháum hita klárt til hliðar. Hér er einnig hægt að gera soðið frá grunni og hvet ég fólk til þess ef það hefur tíma. 
  3. Hitið pönnu á miðlungsháum hita og bætið smjöri og hveiti út á og hrærið. 
  4. Hellið soði og rjóma saman við og hrærið vel á meðan. 
  5. Bætið nú lauk og hvítlauk saman við og náið upp smá bubblum í sósunni. 
  6. Þegar hún hefur náð suðu skal lækka undir og bæta við bláberjasultu, gráðosti, salti og pipar. Smakka hana til og vera ófeimin að bæta við sultu/osti ef þið viljið kröftugra/sætara bragð. 
Hvað er betra en jólalegt humarsalat á aðfangardag?
Hvað er betra en jólalegt humarsalat á aðfangardag? mbl.is/Eyþór

Jólalegt humarsalat

  • 20 miðlungsstórir humarhalar
  • 150 g smjör
  • steinselja
  • sjávarsalt
  • veislusalatblanda
  • 2 appelsínur
  • græn vínber
  • 1 granatepli
  • pistasíuhnetur
  • camembert
  • tómatar
  • olía
  • hvítlauksduft

Aðferð:

  1. Skerið appelsínur, vínber, granatepli, camembert og tómata og hafið tilbúið til hliðar. 
  2. Velgið smjör, setjið í skál og skerið steinseljuna smátt. 
  3. Þeytið smjörið ásamt steinseljunni og bætið sjávarsalti og hvítlauksdufti við eftir smekk, geymið smjörið til hliðar. 
  4. Humarinn skal skelfletta og garnhreinsa. 
  5. Þerrið humarinn með pappír og geymið í kæli. 
  6. Hitið ofninn í 200°C.
  7. Tómatarnir fara í skál með smá ólífuolíu, sjávarsalti og hvítlauksdufti. Blandið vel saman. 
  8. Setjið tómatana á ofnplötu og leyfið að eldast í 12-15 mínútur, takið út og geymið til hliðar. 
  9. Á háum hita setjið þið væna klípu af þeytta smjörinu á pönnu, leyfið henni að hitna í rólegheitunum. 
  10. Steikið humarinn í um mínútu á hvorri hlið og setjið til hliðar. 
  11. Blandið nú öllu salatinu saman og reiðið fram meðan humarinn er enn volgur. 

Dressing

  • ½ bolli ólífuolía
  • safi úr ½ appelsínu
  • 1 msk. hunang

Epla- og perusalat

  • 2 perur
  • 2 epli
  • 300 ml rjómi
  • 3 msk. rifsberjahlaup
  • ½ granatepli

Aðferð:

  1. Afhýðið perur og epli og skerið í jafna litla bita. 
  2. Skerið granateplið og náið öllu úr, gott er að ná öllu úr undir vatni í skál svo eldhúsið endi ekki rautt. 
  3. Bræðið rifsberjahlaup í potti þar til það er orðið nánast í vökvaformi. 
  4. Blandið saman eplum, perum, granateplum og rifsberjasaft. 
  5. Þeytið rjómann og blandið varlega saman við. 
  6. Geymið í kæli þar til framreitt, gott að gera degi fyrr. 
Ris á l´amande má bera fram í fallegum glösum á …
Ris á l´amande má bera fram í fallegum glösum á fæti. mbl.is/Eyþór

Ris á l´amande

fyrir 6-8

  • 1 bolli rís á l´amande-grjón
  • 1¼ bolli vatn
  • 2 msk. rifinn sítrónubörkur
  • sjávarsalt eftir smekk
  • 1 msk. sykur
  • 2 msk. vanillusykur
  • 4 bollar nýmjólk
  • 100 g hýðislausar möndlur

Aðferð:

  1. Blandið saman í pott grjónum, vatni, sítrónuberki, sykri, ögn af sjávarsalti og vanillusykri og hrærið saman. Potturinn er stilltur á hæstu stillingu og beðið eftir suðu. 
  2. Leyfið að sjóða í þrjár mínútur þar til mjólkinni er bætt saman við. 
  3. Leyfið öllu að byrja að sjóða aftur og lækkið þá niður í pottinum og látið krauma létt. Setjið klukku á 35 mínútur og hrærið mjög reglulega í pottinum. Þegar 15 mínútur eru eftir þarf að standa við pottinn og hræra mjög reglulega. 
  4. Skerið möndlurnar smátt og blandið saman við grautinn. 
  5. Nú fer grauturinn inn í ísskáp í sex klukkustundir eða yfir nótt helst. 

Rjómablandan

  • 2 bollar rjómi
  • ¼ bolli sykur
  • 2 msk. vanillusykur
  • 1-2 msk. vanillu-paste (ekki vanilludropar)

Aðferð:

  1. Takið grautinn úr kæli 4-6 klst. áður en byrjað er að undirbúa rjómablönduna. 
  2. Þeytið rjómann.
  3. Þegar hann er farinn að þykkna skal bæta sykri, vanillusykri og vanillupaste saman við. 
  4. Hrærið nú aðeins í grautnum ykkar til þess að lífga hann hægt og rólega við eftir ísskápsdvölina. 
  5. Blandið rjómablöndunni varlega saman við þar til grauturinn fær á sig fallega áferð án nokkurra köggla. 
  6. Berið fram með heitri kirsuberjasósu, kanilstöng og myntulaufi til skreytingar. 

Þessa upp­skrift, sem og aðrar, má finna í blaðinu Hátíðarmat frá Hag­kaup.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert