Það er óhætt að segja að Íslendingar hafi tekið vel á móti Robert Plant og þegar hann mætti á sviðið í Laugardalshöll í kvöld ásamt hljómsveit sinni, Strange Sensation, 35 árum eftir að hann stóð þar og söng með Led Zeppelin. Plant og félögum var gríðarlega vel fagnað eftir hvert lag á tónleikunum hvort sem þeir fluttu gömul Zeppelin-lög, sem raunar voru flest í nýstárlegum búningi, eða lög af nýrri plötu sinni, sem kom út í dag. Greinilegt var að Plant þótti vænt um móttökurnar og sagðist í lok tónleikanna, eftir að hafa flutt Whole Lotta Love að hluta í blúsútsetningu, ætla að koma fljótt aftur.