The Lancet, eitt virtasta læknisfræðitímarit heims, hefur nú slegist í hóp þeirra sem gagnrýnt hafa Benedikt XVI páfa fyrir ummæli hans um smokka. Fram kemur í blaðinu að staðhæfingar páfa um að smokkar geti aukið alnæmis vandann séu mjög villandi og geti haft skelfilegar afleiðingar. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Páfi sagði er hann var í sinni fyrstu opinberu ferð í Afríku nýlega að hefðbundnar kenningar kirkjunnar um skírlífi og einkvæni væru eina örugga leiðin til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar. Þá sagði hann að um væri að ræða harmleik sem ekki væri hægt að stöðva með peningum eða dreifingu smokka, „sem geti jafnvel aukið á vandann”.
Ummæli páfa hafa verið harðlega gagnrýnd og í Lancet eru hann sagður hafa rangtúlkað vísindalegar staðreyndir til að færa rök fyrir kenningum kaþólsku kirkjunnar. Þá segir að ekki liggi fyrir hvort hann hafi gert þetta vísvitandi eða af fáfræði en að hver sem ástæðan hafi verið beri honum að draga ummæli sín til baka.
„Þegar áhrifamikill einstaklingur, hvort sem hann er trúar- eða stjórnmálaleiðtogi, sendir frá sér yfirlýsingu sem er vísindalega röng og gæti haft skelfilegar afleiðingar fyrir heilsu milljóna manna þá ber honum að draga hana til baka eða leiðrétta hana,” segir í blaðinu.
„Geri hann það ekki mun Benedikt páfi skaða frumkvöðlastarf í fræðslu og heilbrigðismálum, m.a. þrotlausa vinnu þúsunda kaþólikka sem unnið hafa að því að reyna að hefta útbreiðslu HIV/alnæmis í heiminum."