Danskir fjölmiðlar segja, að diplómatískt stríð geisi nú milli Kína og Danmerkur og orsökin sé fundur, sem Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana, átti með Dalai Lama í Kaupmannahöfn í maí.
Dalai Lama var þá í Evrópuferð og kom meðal annars til Íslands í kjölfarið. Kínversk stjórnvöld lýstu óánægju með að íslenskir ráðamenn hefðu hitt Dalai Lama á fundum.
Danska blaðið Politiken segir, að Kína hafi nú „fryst" Danmörku og það hafi áhrif á danskt atvinnulíf. Hefur fyrirhuguðum ferðum fjögurra danskra ráðherra til Kína nú verið ýmis frestað eða aflýst.
Blaðið segir, að svar, sem Per Stig Møller, utanríkisráðherra Dana, hafi sent utanríkismálanefnd danska þingsins, lýsi ástandinu vel. Þar segir ráðherrann, að Kínverjar telji að heimsókn Dalai Lama til Danmerkur hafi grafið undan mikilvægum kínverskum hagsmunum og þess vegna skaðað tvíhliða samskipti ríkjanna tveggja verulega.
Politiken segir, að enginn ráðherra vilji tjá sig um málið en haft er eftir ónafngreindum heimildarmönnum að stjórnvöld vilji reyna að gera sem minnst úr málinu vegna þess að hún óttast, að umræða um fund dönsku ráðherranna með Dalai Lama muni leiða til frekari refsiaðgerða Kínverja.