Banni á hvalveiðum í atvinnuskyni, sem sett var fyrir 24 árum, kann að verða aflétt í lok ársins. Hvalveiðiþjóðir munu þá geta veitt takmarkaðan fjölda hvala, samkvæmt drögum að tillögum sem Alþjóðahvalveiðiráðið (IWC) hefur sett á vefsíðu sína.
Hugmyndin er sú að leyfa takmarkaðar hvalveiðar en jafnframt að draga með því úr fjölda þeirra hvala sem veiddur er á hverju ári, svo sem í vísindaveiðum. Japanir, Norðmenn og Íslendingar veiða hvali og hafa m.a. gert það í vísindaskyni á undanförnum árum.
Margir erlendir fjölmiðlar fjalla um þennan viðsnúning hvalveiðiráðsins. Samkvæmt drögum að áætlun Alþjóðahvalveiðiráðsins verða vísindaveiðar á hvölum settar undir stjórn hvalveiðiráðsins.
Fréttavefurinn Times Online segir að sú málamiðlun að leyfa takmarkaðar hvalveiðar sé gerð í þeirri von að leysa Alþjóðahvalveiðiráðið úr þeirri klemmu sem verið hefur á milli hvalveiðiþjóða og þjóða sem andvígar eru hvalveiðum. Með því megi bjarga Alþjóðahvalveiðiráðinu frá því að leysast upp en í því eiga 88 þjóðir sæti.
Drögin að þessum tillögum hafa verið í smíðum á bakvið luktar dyr í meira en ár. Þótt í þeim sé lagt til að leyfa takmarkaðar hvalveiðar á tíu ára tímabili er eftir að ákveða hvalveiðikvóta.
Tillaga verður rædd á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Marokkó í núní næstkomandi.