Snjór í hlíðum Esju

Snjór var í hlíðum Esju í morgun.
Snjór var í hlíðum Esju í morgun. Ásdís Ásgeirsdóttir

Mörgum íbúum á höfuðborgarsvæðinu brá í brún þegar þeir sáu snjó í hlíðum Esju í morgun. Trausti Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir mönnum ætíð bregða við þegar þeir sjái snjó í hlíðum fjallsins. Síðast féll snjór í Esjunni á þessum tíma fyrir sex árum. Það var 11. september og var hann horfinn tveimur dögum síðar. Snjórinn sé hins vegar neðar nú en fyrri ár en það hafi litla merkingu. „Gamlir menn sögðu að því fyrr sem snjói í fjöll því betri verði veturinn. Ekki bendir til að svo sé,“ sagði Trausti í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Trausti benti á, að nokkrum sinnum hafi snjóað í Esjunni á svipuðum tíma, eða árin 1997 til 1999.

Einu sinni hefur orðið alhvítt á götum Reykjavíkur um þetta leyti. Það var 9. september árið 1926 og er talið, að snjór hafi aldrei fyrr fallið jafn snemma á götur borgarinnar. Þá eru heimildir fyrir því að snjór hafi fallið á Kjalarnesi. Það var fyrir tvö hundruð árum síðan, að sögn Trausta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert