Lögreglan á Suðurnesjum segir að þær tafir sem hafa orðið á tvöföldun Reykjanesbrautar séu slæmar og bendir á að talsverð hætta geti skapast við þær hjáleiðir sem nú eru á Reykjanesbrautinni, ekki síst vegna þeirrar vetrarfærðar sem hefur verið að undanförnu.
Skemmst er að minnast þess þegar lögreglan varð að loka Reykjanesbrautinni í nokkrar klukkustundir á föstudaginn vegna veðurs en fjölmargir bílar sátu fastir við þrengingarnar á veginum. Upphaflega átti framkvæmdunum að ljúka í sumar en ljóst er að þær munu tefjast fram á haust.