Kjarasamningar slökkviliðsmanna lausir í nóvember

mbl.is

Í haust fara af stað kjaraviðræður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) við ríki og sveitarfélög en núgildandi samningar eru lausir 30. nóvember. Segir Valdimar Leó Friðriksson, framkvæmdastjóri LSS í leiðara Slökkviliðsmannsins, að síðustu samningar hafi verið góðir og í raun tímamótasamningar.

„Í haust viljum við ná lengra en því er ekki að neita að ástandið í þjóðfélaginu er sérstakt og því líklegt að samið verði til skamms tíma. En hvort sem það nást háar beinar launahækkanir eða ekki þá er ljóst að það þarf að hrista upp í viðsemjendum með ýmis kjaramál.

Má þar til dæmis nefna lágmarksfjölda æfinga fyrir hlutastarfandi slökkviliðsmenn, menntunarkröfur, greiðslur fyrir starfsmannafundi, læknisskoðun og bakvaktir.

Allir hljóta að vera sammála um að þeir sem sinna bakvöktum eiga að fá greitt fyrir það. Jú, en...sum sveitarfélög segjast ekki hafa efni á því! Hvað með öryggið sem slökkviliðið er að bjóða sveitungum sínum upp á? Hvað með vilja almennings? Vilja ekki allir hafa góða þjónustu, menn í startholunum til að bjarga mannslífum og öðrum verðmætum?, segir Valdemar í leiðaranum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert