Hópi mótmælenda tókst að umkringja ráðherrabifreið Geirs H. Haarde forsætisráðherra nú fyrir stundu, en Geir var inni í bifreiðinni. Það tók óeirðalögreglumenn nokkrar mínútur að ryðja mótmælendum úr vegi svo bifreiðin gæti ekið á brott.
Mótmælendurnir fóru fyrir aftan stjórnarráðsbygginguna og umkringdu bifreiðina þar. Geir sat frammi í bifreiðinni sem var grýtt með eggjum og snjó.
Að sögn blaðamanns mbl.is var lögreglan með kylfur á lofti. Hann sá hins vegar lögregluna ekki beita þeim.
Um það bil 30 óeirðalögreglumenn hafa stillt sér upp fyrir framan stjórnarráðið þar sem fjölmennur hópur mótmælenda hefur nú safnast saman.