Lögreglumaður neitar harðræði

Ungur maður handtekinn fyrir brot á lögreglusamþykkt. Myndin tengist fréttinni …
Ungur maður handtekinn fyrir brot á lögreglusamþykkt. Myndin tengist fréttinni aðeins óbeint. Júlíus Sigurjónsson

Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn lögreglumanni hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins fór fram í dag. Lögreglumanninum er gefið að sök, að hafa ráðist að ungum manni sem hann handtók og að hafa ekki gætt lögmætra aðferða við handtöku. Hann neitar sök og segist hafa beitt hefðbundnum aðferðum.

Lögreglumaðurinn gaf fyrstur skýrslu og greindi hann frá málsatvikum eins og hann upplifði þau aðfaranótt sunnudagsins 18. janúar 2009. Maðurinn stýrði hóp þriggja lögreglumanna og nema lögregluskólans sem var í starfsnámi. Þeir svöruðu tilkynningu frá skemmtistað í miðborginni en grunur lék á að maður vopnaður hnífi væri þar innandyra.  Fyrir utan hittu þeir fyrir ungan og kjaftforan mann, fórnarlambið í málinu.

Lögreglumaðurinn bar við, að ungi maðurinn hefði komið út af skemmtistaðnum og þegar í stað verið til ama. Hann hafi ausið úr skálum reiði sinnar yfir sig og fúkyrðaflaumurinn staðið upp úr honum. Staglaðist hann m.a. á því að hann borgaði laun lögreglumanna og hefði því ákveðin réttindi.

Þegar annan lögreglubíl bar að garði fór ungi maðurinn að honum og hellti sér yfir lögreglumennina sem í honum sátu. Þegar þeim aftur leiddist þófið sneri einn þeirra hann niður og handjárnaði. Lögreglumaðurinn sem ákærður er í málinu kom þá að og aðstoðaði. Ungi maðurinn var færður í stóran lögreglubíl og gert að liggja á gólfinu.

Að sögn lögreglumannsins lét maðurinn afar ófriðlega eftir að bílinn var kominn. Hann hafi beðið fyrirmæla frá lögregluþjóninum sem sneri hann niður og handjárnaði, en sá var sérsveitarmaður. Lögreglumaðurinn segir að sérsveitarmaðurinn hafi sagt sér að „koma honum burt“. Það hafi hann og gert.

Hefðbundin vinnubrögð lögreglu

Lögreglumaðurinn er m.a. ákærður fyrir að hafa beitt harðræði við handtökuna, með því að hafa sett hné sitt á háls unga mannsins og haldið honum þannig niðri. Þessi harðneitaði lögreglumaðurinn en sagðist hafa lagt sköflung sinn á höfuð mannsins. Það gerði hann til að tryggja öryggi sitt og unga mannsins, sem hafi barist um og látið ófriðlega. Á meðan ekið hafi verið með manninn hafi hann skipað honum að vera rólegur, en ungi maðurinn ekki orðið við því.

Lögreglumaðurinn sagði að strax hefði verið ákveðið að keyra með manninn út á Granda og sleppa honum þar. Það hafi enda verið gert. Fyrst stöðvuðu lögreglumennirnir bíllinn við olíutankanna í Örfirisey en þegar verið var að draga manninn út úr bílnum reyndi hann að snúa snöggt við sem lögreglumaðurinn taldi að væri tilraun til árásar. Hann var því færður aftur inn í bíllinn og ekið áfram. Þá hafi maðurinn róast, iðrast og beðist vægðar. Var því ákveðið að stöðva á bílaplani verslunarinnar Krónunnar úti á Granda og sleppa honum þar. Lögreglumaðurinn tók fram, að hann hefði bent unga manninum á hvert hann ætti að ganga til að komast niður í miðbæ.

Þessi vinnubrögð sagði lögreglumaðurinn að væru hefðbundin. Mennirnir væru kældir með því að keyra þá um þar til þeir væru rólegir og sleppt. Þetta væri fljótlegra en að fara með alla upp á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem þeir yrðu kærðir fyrir óspektir, trufla störf lögreglu eða álíka brot.

Lögreglumaðurinn taldi sig hafa beitt meðalhófsreglunni, aldrei hefðu verið lagðar hendur á manninn nema til þess eins að róa hann niður. Harðræði hafi ekki verið beitt. „Við töldum hann hafa gott af því að ganga smáspöl,“ sagði lögreglumaðurinn.

Ekkert skráð um atvikið


Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari spurði lögreglumanninn m.a. hvort hann teldi sig hafa handtekið unga manninn. Hann taldi svo ekki vera. Þegar hann var spurður hvað það væri annað, að færa mann í járn og aka með hann út fyrir miðborgina sagði lögreglumaðurinn: „samkvæmt bókinni var þetta handtaka“. Hann hafi hins vegar metið það sem svo að þetta væri betri leið, enda fáir lögreglumenn á vakt og þeir hafi þurft að flýta sér aftur niður á skemmtistaðinn því málinu hafi ekki verið lokið þar.

Ungi maðurinn var ekki beðinn um nafn né var neitt skráð um atvikið í bókum lögreglunnar. Lögreglumaðurinn benti á hann hefði ekki handjárnað manninn og þar af leiðandi ekki handtekið hann. Það hefði verið sérsveitarmannsins að skrá málið. Sá hefði aðeins gefið fyrirmæli um að fjarlægja manninn, og það hafi hann gert. Engin önnur fyrirmæli hafi verið gefin.

Verjandi lögreglumannsins spurði hann hvort þessi vinnubrögð tíðkist innan lögreglunnar og játti hann því. Margir séu „kældir“ með þessu móti og sleppt án eftirmála.

Önnur saga unga mannsins

Saga unga mannsins er eins og gefur að skilja nokkuð frábrugðin. Maðurinn játaði reyndar að hafa verið með kjaftbrúk við lögreglu en ekki að hafa atast í bíl þeirra. Kvaðst hann hafa verið handtekinn fyrir kjaftbrúkið og enga mótspyrnu veitt, hvorki þá né í lögreglubílnum. Hann segist hafa iðrast mjög fljótlega, beðist afsökunar og spurt hvort hann færi ekki örugglega upp á lögreglustöð. Því hefðu lögreglumennirnir neitað og sögðu of seint að biðjast fyrirgefningar auk þess að hreyta í hann frösum á við: „Þú ert ekki jafnmikill töffari núna og áðan“ og „Ætlar þú að rífa kjaft við lögregluna aftur!“

Ungi maðurinn segist hafa þurft að liggja á maganum á gólfi bílsins og hvergi getað sig hreyft því lögreglumaður hélt honum niðri með því að leggja þunga á höfuð og háls hans til skiptis með hnjám sínum. Auk þess hafi lögreglukylfa verið sett undir handjárnin og lyft upp. Þannig kom mikil spenna á axlir hans. Í áverkavottorði kemur fram að maðurinn var með sár á enni hægra megin, glóðarauga, kúlur víðs vegar á höfði, mar á eyrum og hálsi, sár á höku og roða og bólgur á úlnliðum.

Hann segir lögreglu hafa kastað sér út og skilið sig eftir úti á granda. Hann hafi verið klæddur í gallabuxur, skyrtu og jakkafatajakka. Og þar sem sími hans var rafmagnslaus þurfti hann að ganga niður í miðbæ og taka þaðan leigubíl heim til sín.

Staðfesti framburð lögreglumanns

Sérsveitarmaðurinn sem sneri unga manninn niður gaf einnig skýrslu. Studdi vitnisburður hans að mestu framburð lögreglumannsins ákærða. Sagði hann manninn unga hafa verið með mikil leiðindi og kjaftbrúk, hafi ekki hlýtt fyrirmælum og veitt mikla mótspyrnu við handtöku og inni í lögreglubílnum. Þá sagði hann unga manninn einnig hafa áreitt annað fólk sem var fyrir utan skemmtistaðinn. Karlmaður úr þeim hópi hafi sagst ætla að taka í hann sjálfur ef lögregla fjarlægði hann ekki.

Sérsveitarmaðurinn staðfesti einnig að vinnubrögð sem þessi tíðkist og að það gerist um hverja einustu helgi í miðborginni að menn séu „kældir“ með þessum hætti. Þeir séu keyrði út fyrir miðborgina og sleppt þar. Hann vildi ekki leggja mat á það hvort það væri skynsamlegt að sleppa mönnum úti á Granda eður ei.

Dómari málsins hefur nú fjórar vikur til að kveða upp dóm sinn í málinu.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert